15.03.1950
Efri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (3319)

68. mál, almannatryggingar

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð varðandi 34. gr. og brtt. við hana. Í tryggingal. er yfirleitt tekin upp sú stefna varðandi hinar ýmsu bætur að gera ekki mikinn mun á þeim, hvort sem fólk er á öðrum sviðum betur eða verr statt. Það hefur t. d. engin áhrif á bæturnar, hvort gamalmenni á heimilisathvarf eða ekki. Í 34. gr. er þó undantekning frá þessari reglu. Hún er á þá leið, að mæður, sem stunda atvinnu utan heimilis, fá hærri fæðingarstyrk, en þó fá giftar konur því aðeins þennan hærri styrk, að maðurinn geti ekki séð heimilinu farborða. Ég skal ekki um það dæma, hvort þetta er rétt sjónarmið. Ég hefði getað fallizt á, að fæðingarstyrkur væri jafn til allra mæðra, ef hann væri nógu ríflegur. En nú er komið með brtt. um, að allar mæður fái jafnháan styrk og að þær verði allar í lægsta flokki og fái því aðeins 2/5 af hæsta styrk, sem veittur er nú. Ég tel óheppilegt, að þessi brtt. nái fram að ganga, og mun því greiða atkv. gegn henni. Úr því sem komið er tel ég bezt að gr. standi, eins og hún var sett í byrjun. En sökum þess að þetta er síðasta umr., sá ég mér ekki annað fært en að bera fram brtt., sem átti að bæta úr þeim órétti, sem þeim er með þessu gerður, er átt hafa samkvæmt l. betri rétt. Nú er komin fram við brtt. mína brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Barð. Hún er á þá leið, að þessi hærri styrkur verði ekki greiddur nema móðirin leggi fram úrskurð á hendur barnsföður fyrir barnsfararkostnaði. Það er rétt, að þegar ég fór að kynna mér málið, sá ég, að til þess að leiðrétta misrétti það, sem ógiftum mæðrum yrði með þessu gert, var ekki nægilegt að gera breyt. á öðrum lögum, eins og hugsað hafði verið. Það var ekki fullnægjandi vegna þess, að sumar mæður fá ekki úrskurð á hendur barnsföður. Það hafa sagt mér lögfræðingar, sem þessum málum eru kunnugir, að þeir geti alls ekki verið vissir í þessum efnum þrátt fyrir vísindin. En þó að þeir trúi því, að móðirin hafi rétt fyrir sér, fær hún ekki úrskurð, ef niðurstaða vísindanna er ekki í samræmi við framburð hennar. Ef brtt. þessara hv. þm. yrði samþ., mundu þessar mæður aldrei fá fæðingarstyrk. — Ég vil fáu bæta við þetta. Ég get svarið, að þær mæður, sem verða fyrir vinnumissi vegna barnsburðar, verða fyrir meira tapi, þar sem er barnalífeyririnn. Í öðru lagi vil ég taka fram, að þótt ágætt sé að fá fæðingarstyrk, er lítið gagn að honum, nema hann komi á stundinni. Verði því brtt. hv. þm. samþ., mun lítið gagn verða að þessu. Álít ég, að ógiftar mæður séu miklu verr settar, en giftar konur, sem eiga börn. Nú er e. t. v. ágætt fyrir allslausa móður að fá 900 kr. eftir 2–3 ár. Sumar mæður fá það, en ekkert gagn er að því í þessu efni. Vegna þessa er ég á móti brtt. hv. þm.

Ég er hissa á hv. 4. þm. Reykv., þegar hann vill halda því fram, að jöfnuður sé á milli kvenna í þessum málum. Er eigi fremur, að hann vilji hugsa um sjóði Tryggingastofnunar ríkisins? En skv. brtt. minni er gert ráð fyrir nokkuð miklum sparnaði, og varðandi 34. gr. l. ætti brtt. mín að gera framkvæmd hennar greiðari. Ég vona líka, að 34. gr. l. standi þar áfram, eins og verið hefur.

Ég sé svo eigi ástæðu til að fjölyrða um málið. Hygg ég, að hv. þdm. sé ljóst, um hvað deilt er. Ósk mín er sú, að þannig verði frá þessu gengið, að hjálpin skv. 34. gr. l. komi fljótt til nota og falli þeim í skaut, sem þurfa hennar með. Þetta liggur til grundvallar hjá mér. Ég álít því rétt að fella brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 331.

Þá vil ég að lokum minnast á ræðu hv. 4. þm. Reykv., þar sem hann taldi, að þetta væri eigi vatill., en ég hygg það eigi rétt. Brtt. mín á engan rétt á sér, nema aðrar brtt. verði samþ. Hv. þm. kom með einkennilega skoðun á þessu. En vatill. er aðeins sérstök tegund af brtt. Nú sker hæstv. forseti væntanlega úr þessu. Vil ég, að brtt. mín verði ekki borin upp fyrr en séð er, hvort brtt. hv. þm. Barð. hefur verið samþ. eða ekki.