15.03.1950
Efri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (3320)

68. mál, almannatryggingar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að upplýst sé, að ég held eigi fast við þá ósk mína, að málinu verði vísað til hv. fjhn., þar eð hv. þm. S-Þ. (KK) hefur skýrt frá áliti hæstv. fjmrh. í málinu varðandi 2. tölul. brtt. á þskj. 395. Ég þykist vita um skoðun hv. form. n. og tveggja annarra og býst við, að þeir — að undanskildum hv. flm. — séu á móti brtt.

Hv. þm. Barð. gat þess, að sér hefði ég virzt vera á móti hv. form. n. — Ég tel óviðeigandi að breyta eldgömlum skattal. með öðrum l. eins og tryggingal. En ég verð að segja, að mér fannst hv. frsm. n. vera fremur deigur í þessu máli, þar sem hann sagði, að Nd. gæti breytt frv., ef hún vildi. Mér datt þá í hug atburður frá árinu 1914. Þm. einn hafði átt sæti í Nd. árið 1909 sem þjóðkjörinn og var þá frsm. Árið 1914 er hann orðinn konungkjörinn. Vildi hann þá fara að breyta l. aftur, en forseti greip fram í fyrir honum og spurði hann, hvort hann hefði eigi beitt sér fyrir framgangi sömu l. á þingi 1909. Svaraði þá þm.: „Víst gerði ég það, en ég hélt, að það væru menn með viti í Ed.“ Hér er líkt á komið, nema það er öfugt: Hv. Nd. á að breyta þessu, en mér þykir hljóma illa við, að Nd. eigi að fara að bæta handaverk okkar. Þó ætla ég eigi að fara að deila við hv. þm. Barð. Mun eigi, líða langur tími, áður en unnt er að bæta öðru máli við, og hann hefur heilbrigða skoðun á málinu. Hann minnti mig á eitt atriði og fór aftur í fortíðina til að geta þess, að áður hafi fylgzt að framfærsla og arftaka. Þetta er rétt. En lýtin eru söm, þó að brtt. eigi rétt á sér. Ríkissjóður elur upp óskilgetnu börnin. Kemur því dæmi það, sem hann vildi hafa, til með að staðfesta, að forn venja haldi sér, sú að stofnunin taki á sig framfærsluskylduna. Ég býst þó við, að hv. þm. mundi taka á sig, og vilja gera það, framfærsluna á börnum, sem hann vissi, að hann yrði að taka á sig.

Ég geri eigi ráð fyrir, að málið fari til fjhn: En ég minni á eitt atriði, sem hv. þm. gat. Hann sagði, að hann stæði fast með verklegum framkvæmdum í landinu. Það er rétt, að fæturnir bila ekki undir hv. þm. Barð. En hann stendur á þeirri torfunni, sem hrynur áður en varir, og dugir eigi, ef grundvöllurinn bilar. Ég efast eigi um, að hann vilji hafa framkvæmdir í landinu, og hann hefur prýtt kjördæmi sitt, en hann gætir eigi að, á hvaða jarðvegi hann stendur. Mér virðist, að hann sé nýbúinn að fá vestfirzkan jeppabíl. Ég minni hann á gátur Gestumblinda, en frá honum komu engin „vigtar“-orð.

Þá á hv. 7. landsk. (FRV ) hér nokkrar brtt. á þskj. 397, og verð ég að segja, að tvær þeirra lít ég sérstaklega hýru auga: 1. og 4. tölul., og mun ég frekar en hitt vilja ljá þeim jáyrði mitt. — En ég vænti þess, að við hv. þm. Barð. förum eigi að deila hvor á annan, því að við eigum tvö dagsverk fyrir höndum og megum þá eiga von á aðsókn.