15.03.1950
Efri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3322)

68. mál, almannatryggingar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég get þakkað hv. 4. þm. Reykv. (HG) fyrir hans ummæli um mínar brtt., vel flestar, og ekki síður hv. þm. Barð. og hv. þm. S-Þ., sem lýsti sig fylgjandi þeim sumum a. m. k., og hv. þm. Barð. tók fram, að hann væri fylgjandi andanum í 3. brtt. minni og lýsti áhuga sínum á framkvæmdum í þeim efnum.

Hv. 4. þm. Reykv. óttast mjög, að skriffinnska, sem hann viðurkennir, að sé nú til í sambandi við innheimtu barnalífeyris, kunni að lenda á Tryggingastofnun ríkisins, ef mín brtt. verði samþ. Hv. þm. S-Þ., sem er þaulreyndur sveitarstjórnarmaður, hefur fært svo skýr og sterk rök fyrir því, að það sé ástæða til að létta af óþarfri skriffinnsku, sem á sér stað nú vegna núgildandi ákvæða m. a. í tryggingalöggjöfinni viðkomandi innheimtu þessa lífeyris. Hann gerði þetta svo vel og ljóslega og nefndi dæmi þess, hve mörg bréf þarf að skrifa að óþörfu út af þessu í einstökum tilfellum. Ég held, að hv. 4. þm. Reykv. geri allt of mikið úr því, að þessi skriffinnska mundi lenda á Tryggingastofnuninni, eftir að sú breyt. væri gerð, sem þessi brtt. felur í sér, en þessi brtt. gengur út á það að losna við einn liðinn í þessari innheimtukeðju, sem er ekki nauðsynlegur, losna við, að dvalarsveit barnsmóður hafi nokkur afskipti af innheimtunni, því að það er öllum ljóst, að það er ekki eðlilegt, að dvalarsveit barnsmóður fari að taka að sér innheimtu hjá framfærslusveit barnsföður, því að það er sú framfærslusveit, sem endanlega á að greiða þetta. Hitt gæti auðvitað hv. 4. þm. Reykv. sagt, að áður hafi það verið svo, að sveitarfélögin hafi haft þetta eingöngu með höndum og þetta komi, strangt tekið, ekki við Tryggingastofnun ríkisins. En með 27. gr. tryggingal. var einmitt opnaður þessi möguleiki, að barnsmæður gætu snúið sér til Tryggingastofnunarinnar, í stað þess að þær höfðu áður getað snúið sér til dvalarsveitar sinnar eingöngu í þessum efnum. Og mæður nota það heldur að snúa sér til Tryggingastofnunar ríkisins, en til sinnar dvalarsveitar. Dvalarsveitir þeirra eru því orðnar óþarfur aðili í þessu efni, vegna þess að mæður sem hér er um að ræða, snúa sér beint til Tryggingastofnunar ríkisins, og þá er auðvitað einfaldara, að sá aðili taki að sér innheimtu hjá barnsföður. Það er misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv., að þessar innheimtur þyrftu allar að dragast til innheimtustofnunar trygginganna hér í Reykjavík sjálfri. Innheimtumenn á hverjum stað á landinu eiga að snúa sér beint til viðkomandi framfærslusveita, hvar sem þær eru á landinu. Þess vegna held ég ekki, að það komi til þess, að neitt þurfi að bætast við starf Tryggingastofnunarinnar vegna þessara starfa, þó að mín brtt. væri samþ.

Um 2. brtt. mína vil ég aðeins vekja athygli á því, að í 13. gr. frv. er aðeins um heimildir að ræða. Á þetta hefur verið bent hér ljóslega af öðrum. En ég vil enn fremur benda á, að þær heimildir eru svo takmarkaðar í gr., að það er aðeins í fáum tilfellum, sem þetta kemur til greina. Það stendur í 13. gr. frv., að þetta sé því aðeins heimilt, að skilyrði 2. málsgr. 40. gr. l. sé fyrir hendi, sem er, að kona, sem sækir um sjúkrabæturnar í þessu tilfelli, færi sönnur á það, að maður hennar geti ekki séð henni farborða. Ég held, að þessi heimild sé svo þröng, að ekki þurfi að óttast, að í mörgum tilfellum þurfi að greiða sjúkrabætur eftir þessari gr., þó að Tryggingastofnunin hafi viðkomandi þeim stöðum, sem um getur í brtt, minni, heimild til þátttöku í kostnaði við hjúkrunarkonu eða aðstoðarstúlku í sambandi við veitta aðstoð á vegum sjúkrasamlaga eða sveitarstjórna, samkv: brtt. minni, til handa giftum konum í veikindatilfellum þeirra. Og Tryggingastofnunin ætti auðvelt með að fá upplýst, hvort slík aðstoð hefði verið veitt í þeim örfáu tilfellum, þar sem konur eiga rétt á sjúkrabótum samkv. 13. gr., sem þessi brtt. mín er við. Ég sé ekki, að það þurfi neitt að óttast, að Tryggingastofnunin hafi það ekki í hendi sér að greiða ekki sjúkrabætur, ef hún fær upplýst, að fullnægjandi sjúkrahjálp hafi verið veitt, sem hún sé búin að veita styrk til áður. Ég sé því enga ástæðu til að óttast það, að um óþarfan kostnað verði að ræða, þó að heimilað verði, að Tryggingastofnunin taki þátt í kostnaði við starf hjúkrunarkvenna samkv. minni brtt., sem er í fullu samræmi við 92. gr. tryggingal., sem því miður, allur sá kafli, hefur ekki komið til framkvæmda enn.

Þá sé ég ekki annað, en að það sé óþarfur ótti við vondar sveitarstjórnir, sem kemur fram hjá hv. 4. þm. Reykv., þegar hann ver löngum tíma til þess að tala á móti því, að 4. brtt. mín sé samþ. Ég sé ekki annað, en að þau tilfelli, sem talin eru upp í 4. brtt. minni, séu einmitt þau tilfelli, sem sé gegnumgangandi gegnum öll tryggingalögin, að menn eigi rétt á bótum í sambandi við, þ. e. vegna slysa, sjúkdóms, örorku og þegar ellin sækir að. Og auk þess vil ég láta taka tillit til ómegðar, en það er yfirleitt ekki í tryggingal. tekið tillit til þeirra hluta, ekki heldur atvinnuleysis. Það eru ekki til atvinnuleysistryggingar, og þarf því ekki hv. 4. þm. Reykv. að setja það út á till., að þar sé ekki tekið tillit til atvinnuleysis. Ég sé ekki annað, en að það sé nógu vel tryggt með þessum ákvæðum, að sveitarstjórnir greiði iðgjöld fyrir þá, sem nokkur ástæða sé til að greiða iðgjöld fyrir. Og þó að gert sé ráð fyrir, að það eigi að sækja um þetta, þá er það ekkert nýtt, sem þar kemur fram. Ég veit ekki annað, en að Tryggingastofnun ríkisins hafi látið menn sækja um bætur samkv. tryggingal., og ég sé ekki annað, en að það eigi hér líka að koma til greina, því að þetta, að greiða iðgjöld fyrir mennina samkv. 109. gr. l., eru líka bætur. Hv. 4. þm. Reykv. hefur ekki lagt beinlínis móti öðrum till. mínum en þeim, sem ég hef nú, rætt um, en ég tel, að þær hafi áður fengið svo mikilsverðan stuðning hjá þeim mönnum, sem hafa gert þær að umtalsefni, að ég tel ekki þurfa að bæta neinu þar við.

Kem ég þá að 3. brtt. minni, sem hv. 4. þm. Reykv., hv. þm. Barð. og hv. 8. þm. Reykv. hafa gert brtt. við, sem í rauninni er frávísunartill. Ég get ekki sætt mig við þessa brtt. af þeirri ástæðu, að ég tel, að Tryggingastofnun ríkisins ætti að fá nánara aðhald um þær framkvæmdir, sem henni ber að gera í þessum efnum. Ég hygg, að ég hafi sýnt fram á það í gær, að í tryggingalöggjöfinni frá 1946 eru beinlínis ákvæði, sem sýna, að löggjafinn hefur ætlazt til þess, að Tryggingastofnunin hæfist þá þegar handa í þessum efnum, og í bráðabirgðaákvæðum þeirra eru ákvæði, þar sem gert er ráð fyrir, að sett verði lög um opinbera aðstoð við öryrkja, þ. e. öryrkja, sem hafa misst 75% starfsorku sinnar, og það er þessi hópur öryrkja, sem er meira og minna hæfur til vinnu þrátt fyrir þessa örorku., sem þeir hafa við að búa. Mér þykir gott, að komið hefur í ljós viðurkenning hjá öllum meðnm. í þá átt, að nauðsyn sé á framkvæmdum í þessum efnum. En mér er það ekki nóg. Þessi brtt. minnir mig helzt á hljóð, sem stundum heyrist í mjög syfjuðum mönnum, sem hefur verið stjakað við, en geta þó ekki vaknað til fulls. Tryggingastofnun ríkisins virðist í þrjú ár ekki hafa gert neitt í þessum efnum, þrátt fyrir nauðsynina á framkvæmdum. Með brtt. er aðeins kveðið á um, að hún skuli fyrir lok þessa árs láta fara fram athugun á vinnugetu öryrkja. Þessa athugun var sjálfsagt að gera um leið og örorkutapið var metið hverju sinni, því að það er sjálfsagt að meta vinnugetu manna um leið og örorkumat fer fram. Ég tel því, að þetta verk, að láta þetta mat fara fram, sé ekkert þrekvirki. Mætti ljúka því fyrir næstu áramót, og verður ekki hjá því komizt, að Tryggingastofnunin sjálf geri ýmsar ráðstafanir fyrir allt landið í heild fyrir þetta fólk. — Hv. 4. þm. Reykv. leggur á það höfuðáherzlu, að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki í höndum framkvæmdir í þessum efnum, heldur lendi þær á sveitarstjórnum yfirleitt. En ég er sannfærður um, að aldrei verði hjá því komizt, hvaða athugun sem fer fram á því, að Tryggingastofnun ríkisins annist athuganir í þessum efnum. Í sveitum landsins eru nú á annað þúsund manns örorkubótaþegar, með meira en 200 börn á framfæri sínu, og ég er sannfærður um, að fyrir þetta fólk. er ekki nóg, að sveitunum sé gert að skyldu að gera ráðstafanir til þess að koma því í atvinnu. Hér væri tilvalið, að Tryggingastofnun. ríkisins hefði námskeið, sem væru sérstaklega ætluð þessu fólki, þar sem því væru kennd þau störf, sem það gæti leyst af hendi og unnið á þeim stöðum, þar sem það býr. Væri alveg tilvalið, að Tryggingastofnunin héldi uppi slíkum námskeiðum úti um land. Ég get vel skilið, að Tryggingastofnun ríkisins vilji koma þessu af sér, en það er ekki hægt að ætlast til, að sveitarfélög úti um land taki þessar framkvæmdir að sér. Það er Tryggingastofnunin, sem verður að taka að sér framkvæmdina hvað þetta snertir. Hitt má segja, að í Rvík sé svo stór hópur öryrkja, að það standi Reykjavíkurbæ næst að gera þetta. En það þarf að gera tilraun í þessum efnum, sem engum stendur nær að gera, en Tryggingastofnun ríkisins. Ég ætlast ekki til, að farið verði geyst af stað, heldur ætlast ég til, að byrjað verði smátt, en það þarf að gera tilraun, og Tryggingastofnunin á að gera hana, en ekki sveitarfélögin. Það er fyrir mér aðalatriði málsins. Hitt er viðurkennt af öllum, að það er hægt að koma miklu til leiðar til þess að létta gjöld tryggingasjóðs, sem eru orðin gífurlega mikil, komin á sjöundu milljón, með því að veita öryrkjum kost á vinnu, sem væri þeim miklu hollara og betra. Það mætti líka benda á, að eins og nú er, er það Tryggingastofnun ríkisins, sem á mest á hættu. Ég get nefnt dæmi. Ég þekki mann, sem þessa dagana verður vafalaust úrskurðaður 75% öryrki. Þetta er maður á mínum aldri, sem á 5 börn, og þegar hann verður úrskurðaður öryrki, fær Tryggingastofnunin að greiða með honum um 12 þúsund kr. á ári. Þessi maður hefur mikla starfsgetu, en það verður enginn, sem gæti útvegað honum vinnu, eftir að hann er kominn á full örorkulaun með fjölskyldu sína. Og þá gerist það, að hann sættir sig við að fá þessa upphæð greidda í peningum, en hvorki hann né neinn annar hefst handa um að útvega þessum gigtveika manni starfa, sem hann geti unað við. Það vill enginn gera, en Tryggingastofnunin verður framvegis að greiða honum 12 þús. kr. á ári. Ég er sannfærður um, að þessum manni og mörgum fleirum væri hollara, ef þeim væri gefinn kostur á vinnu í stað þessara bóta, þó að þær hafi gert stórkostlega mikið gagn.

Ég ætla svo ekki að deila meir við hv. 4. þm. Reykv. um þessa till. Ég þakka þm. ýmsum fyrir þá viðurkenningu, sem hefur komið fram í ræðum þeirra, að nauðsynlegt sé að hefjast handa í þessum efnum. Hv. 4. þm. Reykv. hefur helzt við þetta að athuga, að of miklar kröfur yrðu gerðar til Tryggingastofnunar ríkisins í þessum efnum, ef brtt. mín yrði samþ., sem er í raun og veru það eina, sem ég teldi, að kæmi að fullu gagni.