15.03.1950
Efri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3323)

68. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð til þess að leiðrétta þann leiðinlega misskilning, sem kom fram hjá hv. 11. landsk. þm., að 2. till. á þskj. 395 væri borin fram hér sem einhvers konar málamyndatill. í trausti þess, að hún yrði síðar felld í hv. n. Ég veit ekki, hvar hv. þm. hefur verið, þegar ég mælti fyrir þessari till., en ég get fullvissað hann um það, að þessi till. er borin fram í fullri alvöru af minni hálfu, og bak við hana stendur fullur baráttuhugur að bera hana aftur fram, þar til hún er viðurkennd á Alþingi.

Röksemdafærsla hans í sambandi við framfærsluskylduna var líka röng. Óskilaarfur, sem rennur í ríkissjóð, er fé þeirra arftaka, sem ekki finnast. Hefur þm. sönnun fyrir því, að niðjar þeirra aðila séu ekki einmitt á framfæri Tryggingastofnunar ríkisins? Ég tel ekki útilokað, að einhverjir þeirra niðjar njóti styrks frá Tryggingastofnuninni, og er því eðlilegt, að þetta fé renni til ríkissjóðs.

Ummæli hv. þm. um börn erlendra setuliðsmanna eru líka röng. Framfærsla þeirra barna hvílir ekki á ríkissjóði Íslands, heldur á erlendum setuliðsmönnum, sem eiga þau börn, og ríkissjóður á kröfur á þá menn, og eru þessi ummæli því röng.

Ég vil svo að síðustu lýsa því yfir, að ef svo skyldi fara, að ég persónulega ætti eitthvert fé, þegar ég fer héðan, til þess að renna annaðhvort til Tryggingastofnunarinnar eða í ríkissjóð, eftir að búið væri að samþ. þessa till., þá væri mér það miklu meira gleðiefni að vita það renna til Tryggingastofnunarinnar, sem tryggir kjör þeirra, sem bágast eiga í þessu landi, en sjá það fara í ríkissjóð til þess að verða notað sem eyðslufé, sem ég aldrei samþykki, ef ég hef sjálfur ástæðu til, og ég er sannfærður um, að hugarfar þessa hv. þm. er á sama veg.