12.01.1950
Efri deild: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (3333)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það gleður mig að sjá þetta frv., því að ég vona, að það verði til þess að koma í veg fyrir, að sá blettur falli á hæstv. Alþ., að það standi ekki við það, sem það hefur samþykkt.

Það var lengi búið að tala um, að það vantaði húsnæði í Reykjavík. Þegar það kom svo til umræðu á Alþ., á hvern hátt yrði skjótast ráðin bót á húsnæðiseklunni í bænum, bar sænsku húsin á góma, þá kom Sigurður Thoroddsen og fleiri þm. með tillögu um að bæta úr húsnæðishrakinu með því að afnema alveg toll á sænskum timburhúsum. Ég var því ekki fylgjandi, heldur bar fram till. um, að tollur af sænsku húsunum yrði ekki hærri, en af óunnum viði til húsa. Þá var nóg að gera fyrir alla smíði og þurfti ekki verndartoll. Mín till. var samþ., en á móti henni voru þeir, sem vildu afnema alla tolla, og þótti þeim ekki nógu langt gengið. Ýmsir töldu sænsku húsin óheppileg, aðrir töldu rétt að athuga málið nánar. Niðurstaðan varð sú, að ríkisstj. skipaði n. til að athuga hæfni eða gæði húsanna, og hún komst að þeirri raun, um hálfu ári eftir að Alþ. veitti heimildina, að óheppilegt væri að flytja inn þessi sænsku hús, en þá voru margir búnir að panta húsin í millitíðinni. Nú hef ég alltaf litið svo á, og það kom fram í greinargerðum fyrir atkvæði, svo sem hjá Sigurði Kristjánssyni og Ásgeiri Ásgeirssyni, að heimildin væri nokkurs konar lög, og óþarfi ætti því að vera að greiða atkv. með lagafrv. í sömu átt. Hið sama kemur nú eiginlega fram hjá hv. þm. Barð. En það hefur sýnt sig, að þessi trú hefur orðið sér til skammar. Hér hefur verið gefinn ádráttur án þess að standa við loforðið. En ég tel þetta blett á Alþ. og vil heldur láta borga þetta, þó erfitt sé. Þegar átti að fara að borga, skaut stjórnin sér á bak við nefndina, sem athugaði húsin, og bar við, að ákvæði farmskrár væru svo óljós, að erfitt væri að reikna þetta út. Og á síðasta þingi skoraði 31 þm. á ríkisstjórnina að endurgreiða á árinu 1949 hluta af verðtolli og vörumagnstolli af hinum tilbúnu húsum og nota þar með þá heimild, sem fyrir hendi er, en það var samt eigi gert. Ég gleðst því af því, að hér á nú að fá úr því skorið með frumvarpi, hvað gera skuli. Það er með engu móti hægt að skjóta sér bak við álit nefndar þeirrar, sem skipuð var til að athuga sænsku húsin, hversu heppileg þau væru hér. Áður en álit þeirrar nefndar lá fyrir, hafði Alþ. ýtt undir innflutning þeirra með því að gefa ádrátt um endurgreiðslu á tolli. Þegar álit nefndarinnar kemur svo og hljóðar upp á það, að óheppilegt sé að reisa þessi hús hér, þá mælir það einmitt með, en ekki móti því, að heimildin væri notuð, úr því að húsin reyndust svo dýr. Ég held, að allflest húsin hafi verið byggð af félögum, sem ríkið ábyrgðist lán fyrir til bygginganna.

Varðandi það, hvaða menn hafi aðallega flutt inn þessi hús, og hvers flokks þeir hafi verið, sem riðnir voru við þann innflutning, skal ég ekkert um segja og er því ekki svo kunnugur. Sænsk-íslenzkt verzlunarfirma flutti eitthvað inn af þeim, og er gott ef hæstv. fyrrv. forsrh. var ekki riðinn við stofnun þess félags, ég man það ekki satt að segja, en ég tel alveg útilokað, að innflytjendur hafi frekar verið af einum stjórnmálaflokki en öðrum.

En sem sagt, ég legg mest upp úr því, að Alþ. gangi ekki á undan öðrum og gefi fordæmi um það að standa ekki við það, sem það hefur veitt ádrátt um.