13.01.1950
Efri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (3336)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hélt nú satt að segja, að hv. 11. landsk. mundi kveðja sér hljóðs, en sé, að ég þarf ekki að bíða eftir því, — Ég þarf nú ekki að svara miklu hv. frsm. Ég vil benda á, að upplýsingar hv. 1. þm. N-M. voru lítið annað en það, sem fram kemur í grg. En mér er kunnugt um, að hann hefur sótt málið fast vegna blóðbanda og hagsmuna sinnar eigin fjölskyldu. Er ég ekkert að lasta hann fyrir það, en bendi aðeins á, að honum er málið ekki óskylt. Hv. frsm. fullyrti, að húsin væru flutt inn fyrir tilstilli Alþingis. En ég vil fullyrða, að 7.120 kr. tilslökun um toll á hverju húsi gat aldrei haft endanleg áhrif á afstöðu manna til þessa innflutnings, þar sem um var að ræða hús fyrir allt að 300 þúsund krónur. Það er ekki fjárhagslega veigamikið atriði, þessar 7.000 kr., þegar svo mikil upphæð er annars vegar. Og ef þetta er nú samt sem áður svo veigamikið atriði fyrir þá eigendur, sem nú eru að húsunum, þá vil ég leyfa mér að benda n. á það, hvort hún geti ekki gert um það till., að mennirnir geti losnað við húsin á kostnaðarverði, svo létt sé af þessum vesalingum þeirri byrði. Ég hygg, að það yrði ekki neitt slæmt fyrir ríkissjóðinn, því að þessi hús eru nú miklu verðmeiri, en þau voru þá. — Annars finnst mér eins og þessi ágæti lögfræðingur geri sér ekki nægilega ljóst, að hér er ekki um neina fyrirskipun að ræða, heldur aðeins heimild til að endurgreiða tollinn, ef svo sýndist. Ríkisstjórnin, sem þá var, setti í þetta sérstaka nefnd, og hún komst að þeirri niðurstöðu, að aldrei hefði átt að flytja inn húsin; og ráðandi menn á sínum tíma munu hafa styrkzt við það í þeirri trú, að ekki bæri að styrkja þessa starfsemi. Ég neita þess vegna, að ríkissjóður sé á nokkurn hátt bundinn af fyrirmælum greinarinnar. Það er aðeins um heimild að ræða, sem hefði mátt nota, ef ástæða væri fyrir hendi til þess að gera það, en það er hins vegar sjálfsagt að nota hana alls ekki. Þetta er kaupendunum sjálfum að kenna, því að þeir áttu náttúrlega að láta flokka þetta allt niður, þegar það var flutt til landsins, þannig að sjá mætti, hvað af þessu er flutt inn sem unnin vara og hvað óunnin. Það er því fyrir vanrækslu þessara manna sjálfra, að þeir þurfa að greiða það fé, sem hér er um að ræða.

Hv. frsm. sagði, að það væri ekki að heyra neina sérstaka hvöt hjá mér til þess að vera hlynntur innflytjendunum, eftir afstöðu minni í þessu máli. Það væri gott, ef hv. frsm. vildi taka svolítið betur eftir því, sem hér er að gerast. Því að hér er til þess ætlazt, að þetta fé gangi til þeirra, sem nú eru eigendur að húsunum, en ekki endilega þeirra, sem fluttu þau inn. Með öðrum orðum, þetta á að vera svolítil uppbót til þeirra, sem nú eiga húsin.

Hv. frsm. segir, að það sé ekki gott fyrir fólkið að vita, hverju það megi trúa, þegar heimild gr. er ekki notuð og þannig ekki hægt að trúa orðum Alþingis. Ja, sér eru nú hver rökin? Ég vil benda hv. frsm. á það, að hans ágæti flokkur, Framsóknarflokkurinn, hefur einmitt verið potturinn og pannan í því að koma í veg fyrir það, að fólk megi trúa því, sem samþykkt er á Alþ., því að í skattalögunum hafa menn aldrei getað treyst því, sem fram kemur á Alþ. Það hafa ávallt verið sett lög um skatta, sem látnir eru verka aftur fyrir sig, og það hefur kostað meira en sjö þúsund krónur, það hefur kostað menn tugi þúsunda og jafnvel hundruð þúsunda. Ég er ekki að segja þetta til ágætis fyrir þingið, því að þá þarf að verða stefnubreyting hjá því og ekki hvað sízt hjá þessum ágæta flokki, sem hv. frsm. telst til, því að þetta er stórkostlega til þess að draga úr öllum framkvæmdum, þegar menn geta ekki verið vissir um, hvort sett verða skattalög, sem verka aftur fyrir sig, svo að þeir peningar, sem þeir ætluðu til framkvæmda, renni ekki til þess að greiða skatta, sem ekki voru til, þegar það átti að gera. Ég skal í þessu sambandi benda á eitt frv., sem hv. þm. Str. og hv. 4. þm. Reykv. fluttu hérna á tveimur þingum, um sérstakan eignaskatt, sem síðan var samþykktur sem lög um eignakönnun. Það má ef til vill segja, að það hafi verið nauðsynlegt að gera þetta, en það er samt ekki annað en riftun á loforðum, sem mönnum höfðu verið gefin um að skattleggja ekki eignir þeirra frekar en þegar var orðið. En svo dettur þessum mönnum í hug að fara að leggja nýja skatta á það, sem eftir var, og auðvitað eru lögin látin verka aftur fyrir sig, svo að það er þá ekki um annað en riftun á loforði að ræða. Ég sé því ekki, að það sé nein ástæða til þess fyrir einmitt þessa sömu menn að fara nú að fárast yfir því, þó að ríkissjóður kippi nú að sér hendinni með greiðslur, sem hann hefur alls ekki lofað að inna af hendi.

Síðast sagði þessi hv. þm., að fjárhagsástand ríkisins væri allt saman mér að kenna, mestmegnis mér einum skildist mér, og mínum flokki. Ég skal ekki fara út í langar hugleiðingar um þetta mál, hverjum það ástand er helzt að kenna, sem nú ríkir í fjármálum ríkisins, en ég get þó ekki stillt mig um það að benda hv. þm. á það, að þegar fyrrv. ríkisstjórn settist að völdum, þá fór ég með formennsku fjárveitinganefndar í annað sinn. Þá var það fyrsta verk þessarar hæstv. ríkisstj. að koma með till. um 10 millj. kr. hækkun á útgjaldahlið fjárlagafrv. Ég gekk þá á milli ráðh. til þess að fá þá til þess að falla frá þessum till. sínum. Og ég verð að segja það til verðugs lofs, að 5 af þessum hæstv. ráðherrum lýstu sig reiðubúna til þess að falla frá þessum till., ef hinir ráðherrarnir hver um sig mundu gera slíkt hið sama. En þá var það þáv. menntmrh., hv. fyrri þm. S-M., sem sló í borðið, sagði: nei — og kom þannig í veg fyrir, að þessi 10 millj. króna útgjaldahækkun yrði felld. Fyrir það þurfti að bæta 10 millj. krónum á útgjöldin það árið. Það var að vísu bjargað einni millj. af þessu síðar, sem átti að fara í það að byggja hallir hér í Rvík, en það var alls ekki gert fyrir tilstilli Framsfl. Ég man eftir mörgum svipuðum tilfellum á mörgum þingum, þar sem sótt hefur verið svona fast á af þessum flokki, að fjárl. hafa fengið á sig þennan svip, sem þau hafa haft, og ætti hv. þm. að vita það vel, þó að hún hafi ekki átt sæti á þingi mjög lengi, því að hún hefur verið þingskrifari í mörg ár og ætti því að hafa getað fylgzt með því.

Nei, Framsóknarflokkurinn á sannarlega sinn þátt í þessu ástandi, sbr. t. d. síðast í gær, þegar þeir komu á síðustu stundu inn í frv. ákvæði, sem kostar ríkissjóð 2½ millj. króna, án þess að koma með nokkrar till. til tekjuöflunar á móti. Ég held því, að hún ætti að taka sér eitthvað auðveldara fyrir hendur, en að ráðast á mig og minn flokk fyrir fjármálaástandið. Ég held hún ætti fyrst að moka flórinn heima hjá sér, áður en hún byrjar þessar ásakanir. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar.

Ég býst við, að hv. fjárhagsnefnd fái þetta mál til athugunar á milli umr., og vil ég benda á það í sambandi við afgreiðslu n., að það hafa verið fyrir fjvn. margar sams konar kröfur eða till., því að það virðist nú vera eitt helzta stefnumál Framsfl. að eyða sem mestu, til þess að geta síðan kennt Sjálfstfl. um það, af því að fjmrh. er „tilfældigvis“ sjálfstæðismaður. Það eru kröfur um endurgreiðslu tolla, kröfur frá bátabyggingarstöðvum, sem tapað hafa á smíði báta og fleiri svipaðar, sem kosta mundu ríkissjóð stórfé. En þeim hefur öllum verið vísað í körfuna. Það eru kröfur frá S. Í. F. um milljónir vegna taps á því að salta fisk árið 1947 eftir reglum, sem ríkið gaf, svo að þeir töpuðu milljónum á þessu. Hv. þm. V-Húnv. og 1. þm. S-M. hafa viðurkennt, að þessir menn ættu fullan siðferðislegan rétt til þess að fá þessar kröfur sínar greiddar. En fjvn, hefur ekki heldur tekið þetta til greina.

Ég get fullvissað hv. þm. um það, að ef þetta verður samþ., þá má búast við því, að allar hinar kröfurnar fylgi á eftir, því að þær eiga jafnmikinn rétt á sér, en það mundi sennilega gleðja hv. frsm. og Framsfl. ósegjanlega mikið, þar sem hann gæti þá skellt skuldinni á Sjálfstfl., ekki er mér örgrannt um það.