13.01.1950
Efri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (3340)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti leyfi mér að svara þeim ásökunum, sem gerðar hafa verið á mig. Í fyrsta lagi lýsti hv. 1. þm. Eyf. því yfir, að honum hefði ekki þótt viðeigandi að víta mig úr forsetastóli fyrir mín ummæli, og hefur þá ekki verið ástæða til. En úr því hæstv. forseti sá ástæðu til að ásaka mig fyrir það að draga þessi mál inn í þetta mál, hvers vegna ásakar hann þá ekki hv. flm. fyrir að draga önnur mál inn í þetta mál, og. hvers vegna ásakar hann ekki hv. flm. fyrir þær ásakanir, sem hún ber á mig og minn flokk í sinni ræðu? Ég varð að svara því, og ég hefði ekki búizt við, að jafnágætur maður eins og hæstv. forseti réðist á mig hér og vítti mig fyrir að draga inn í þetta mál, mál sem ég hef alls ekki dregið hér inn í, heldur hans ágæti flokksmaður hv. 8. þm. Reykv. Mér hefði ekki dottið í hug að minnast á þetta atriði, ef hún hefði ekki haft þau ummæli, að það væri mér persónulega að kenna og Sjálfstfl., hvernig fjárhagur landsins er nú, og ég gaf ekkert tilefni til þess, að slík ummæli væru höfð hér í sambandi við þessi mál. Ég sé nú, eftir að hv. þm. Str. hefur talað, að það er hann, sem er potturinn og pannan í þessu, hann hefur spýtt þessu í sinn ágæta skjólstæðing, því að hann staðfestir þetta og segir í sinni ræðu, að ég sé aðalsökudólgurinn, og þá fer ég að skilja, hvernig í málinu liggur.

Hv. 1. þm. Eyf. sagðist mótmæla því, að það væri sök Framsfl., að skattar hefðu verið látnir gilda aftur fyrir sig, þetta væri að kenna Sjálfstfl., sem hefði farið með fjármálin öll þessi ár. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að þau ár, sem hv. 1. þm. S-M. (EystJ) fór með fjármálin, þá sótti hann þetta mál einna fastast og markaði alveg þessa stefnu, eins og þegar það var til umr. að gerbreyta skattafrv. frá 1940, sem hann átti mestan þátt í, og sótti hann þetta þannig fastast af öllum þm., og flokkurinn stóð á bak við hann. Svo ég held það þurfi ekki að taka það sem neinar sérstakar skammir á Framsfl., því að þetta eru staðreyndir. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, eins og er alveg rétt, og hefði hann mátt hvísla því í eyru hv. 8. þm. Reykv., að það er enginn einn flokkur, sem ber ábyrgð á þessum málum, eins og flokkaskiptingin hefur verið. Það er vitnisburður gegn hv. þm. Str. Það er vitanlega meiri hl. Alþ., sem ber ábyrgð á fjárlagaafgreiðslunni undanfarin ár, og þá bar heldur ekki að ásaka Sjálfstfl., eins og hv. flm. gerði hér í sinni ræðu í dag. Hv. 1. þm. Eyf. sagði hins vegar, að þm. Barð. hefði gert mestar kröfur fyrir sitt kjördæmi undanfarin ár. Ég þori vel að taka þann samanburð upp. Hafi ég gert það, þá var það réttmætt, vegna þess að undir stjórn Framsfl. í 12 ár, meðan Bergur Jónsson var þingmaður kjördæmisins, var vanrækt að úthluta þessu kjördæmi eins og það átti heimtingu á, og það hefði átt að vera gleðiefni fyrir þennan flokk að bæta fyrir vanrækslu sína við þetta kjördæmi undanfarin ár fremur en að ráðast á mig fyrir að standa réttilega á verðinum fyrir mína umbjóðendur. Enda er síður en svo, að þetta kjördæmi hafi fengið meira til sinna framkvæmda heldur en önnur kjördæmi, eins og ég hef sýnt fram á í umr. um fjárlagaafgreiðsluna.

Hv. þm. Str. segir að ég sé aðalsökudólgurinn. Ég get sagt hv. þm. Str. það í einlægni, að okkur er báðum vel kunnugt um það, mér og honum, að þessi ár, síðan hann fór úr ríkisstj., hefur hann róið að því öllum árum, að þeir menn í Framsfl., sem hafa verið í ríkisstj. síðan, hefðu enga ábyrgð á sínum gerðum í ríkisstj. Sjálfur hefur hann ekki stutt ríkisstj. og gert allt til þess að spilla því samstarfi og reynt að fá ráðh. Framsfl. til að gera þær kröfur til samstarfsmanna sinna í ríkisstj., að það væri ekki hægt að halda samstarfinu áfram. Honum hefur tekizt, m. a. á s. l. ári, að gera það miklar kröfur, að það hlyti að slíta samstarfinu. Þetta veit hv. þm. að er rétt. Hann kann að hafa gert það með þeirri hugsun, að enginn beri ábyrgð á fjármálum þjóðarinnar nema fjmrh., ef hann hefði ekki nægilegt fylgi í þinginu, þá ætti ábyrgðin að koma á hans herðar, en kröfurnar ættu að vera frá hinum. Þetta er sú pólitík, sem hv. þm. Str. rekur. Hann sagði, að ég væri aðalsökudólgurinn, fjvn. og ég bæri ábyrgð á afgreiðslu fjárl., þó að ég og minn flokkur hafi ekki meiri hl. Ég vil gjarnan fara inn á þessi mál. Ég segi, að einnig ráðh. Framsfl. eigi alltaf að bera ábyrgð á sínum gerðum. Átti ég að bera ábyrgð á 9 millj. kr., sem gerðar voru kröfur um frá ráðh. Framsfl. 1947 og hann gerði að fráfararatriði, ef ekki fengist tekið með? Það var nýbúið að mynda ríkisstj., mánuðum saman hafði verið stjórnlaust í landinu að öðru leyti en því, að fráfarandi stj. sat. Átti ég og minn flokkur að láta það varða samvinnuslitum, að þessar 9 millj. yrðu ekki teknar inn á fjárl.? Mér sýnist það hugsun hv. þm. Str. Þá hefði hann aftur fengið tækifæri til að fiska í gruggugu vatni til að vita, hvort hann gæti ekki orðið menntmrh. eða forsrh. í stj., sem mynduð væri eftir svo og svo margar vikur. En það getur verið, að þjóðin hafi ekki verið á sama máli, að hún hafi heldur viljað greiða 9 millj. til þessara framkvæmda, en að þm. Str. væri vikum saman að mynda stj. En ummæli hv. þm. um það, að þetta hafi farið til verklegra framkvæmda, eru röng. Sannleikurinn er sá, að fyrir það, að þessar till. voru teknar inn, varð að fylgja því, að önnur till., um að skera allar verklegar framkvæmdir niður um 15%, yrði samþ. Þetta er að snúa sannleikanum við. Einmitt fyrir það, að þessar till. voru gerðar frá hæstv. menntmrh., sem ekki fékkst til að víkja frá þeim, sjálfsagt fyrir undirróður frá hv. þm. Str., þá varð að samþ. till. um að skera niður verklegar framkvæmdir um 15%. M. a. var ein till. um að byggja hæli fyrir 1 millj., till. um bindindishöll og norræna höll sem ég fékk tekna út og sett inn í staðinn 300 þús. kr. í hafnarbætur. Svo var m. a. till. um að auka vegabætur í Strandasýslu, skólamál o. fl. En árangurinn af þessu varð sá, að það var skorið niður um 15% af öllum verklegum framkvæmdum. eftir að þessar till. voru samþ., og skorið niður meira af verklegum framkvæmdum, en sett var inn. Það var gjöf til dreifbýlisins frá Framsfl. á því ári. Hann spyr, hvort það sé lýðræði, að menn beri ekki ábyrgð á gerðum sínum í stj. og á þingi. Ég spyr hv. þm. Str.: Ber Framsfl. gagnvart þingi og þjóð ábyrgð á því, sem gert var, þegar gefið var Kaldaðarnes? Hvernig er sú ábyrgð? Þar er tekið hæli, sem kostaði ríkissjóð milljónir, og gefið til eins af þm. Framsfl. með þeim árangri, að nú er verið að setja nokkrar milljónir í annan stað til að byggja upp annað hæll. Það getur vel verið, að Framsfl. beri ábyrgð á þessu, — en hvers konar ábyrgð? Ber Framsfl. ábyrgð á því, að keypt var í heimildarleysi verksmiðjan í Silfurtúni, og ber hann ábyrgð á því, að fyrrv. menntmrh. lét úr sjóði ríkisins án þess að spyrja fjmrh.? Og er hægt að koma eftir á og segja: Þetta er sök fjmrh.? Það var eitt af fyrstu verkum menntmrh. að lána „Silla og Valda“ 500 þús. kr. úr sjóði útvarpsins til 10 ára, og fjmrh. var ekki spurður um það. Ég gæti haldið áfram í allan dag að sýna fram á, að ráðh. Framsfl. hafa enga ábyrgð á þessum gerðum og hefur aldrei dottið í hug að gera það. Ég vil að síðustu í sambandi við þetta benda hv. þm. Str. á, þegar hann talar um, að þm. Svía yrðu látnir bera ábyrgð á slíkum gerð, um og sænskum ráðh. yrði ekki liðið að gera svona lagað, að þeir hafa aldrei haft framsóknarmenn í sínu þingi.

Mér þykir rétt í sambandi við upplýsingar hv. 1. þm. N-M., úr því hann bar inn í þetta mál óskylt mál, að lýsa yfir, að allan þann tíma, sem minn sonur var í Ameríku, þá fékk hann aldrei yfirfært annað en það, sem l. stóðu til um. Hvað hans synir hafa notað; kemur mér ekki við. en þetta er staðreynd. Ég ætla ekki að ræða það, hvorir hafi verið þyngri á ríkissjóði, sonur Gísla Jónssonar eða synir Páls Zóphóníassonar, en það er eins og það sé ekki hægt að koma þessari ætt út af fjárl.