16.03.1950
Efri deild: 74. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (3351)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að bæta við þetta mál fram yfir nefndarálitið á þskj. 425, einnig það, sem ég hef áður sagt í þessu máli, og nú það, sem fram hefur komið í ræðu hv. þm. Barð. Nú geta menn séð hina réttu hlið á hv. 1. þm. Eyf., sem ber þetta mál fram. Hvað það er, sem fær hann til að fylgja þessu máli, er fleirum en mér ráðgáta. — Ég vil þó nú biðja afsökunar, hversu nefndarálitið frá mér var seint tilbúið. Ég verð líka hér að taka upp hanzkann í einu atriði fyrir hv. 1. þm.

Eyf. viðvíkjandi þeirri ádrepu hv. þm. Barð., að fáir hefðu verið viðstaddir, er mál þetta var afgr. á nefndarfundi. Það er rétt, að ég var boðaður á þann fund, er mál þetta var afgreitt í nefndinni, en þá stóð svo á hjá mér, að ég þurfti að vera við jarðarför eins ágæts bónda í Dalasýslu, er áður fyrr var framsóknarmaður. Ekki vildi ég svo skilja við þennan sæmdarmann, að hann væri ókvaddur, og því gat ég ekki mætt á nefndarfundinum. Þegar ég kom aftur á fundinn, var búið að ljúka honum, og tveir nm. höfðu undirbúið að koma saman nál., auk forseta vors hæstv., en sá 3. gaf ekki upp neina afstöðu. Þegar svo var komið, gerði ég atrennu til að ná tali af hv. 4. þm. Reykv., en þar var ekki önnur gögn að fá, en eins og þm. vita, þá var það heimilað ríkisstjórninni 1946, með till., sem samþ. var í Sþ., að hún mætti endurgreiða toll af þessum húsum. Ég hef nú farið í gegnum þau gögn, sem formaður nefndarinnar útvegaði, en ég get ekki fylgt þessu máli. Eitt af þeim skjölum, sem ég hef séð í sambandi við þetta mál, er undirskriftaskjal eitt mikið, sem undirritað hefur verið með 31 þingmannsnafni, innan og utan þings, og mun bankamaður nokkur hafa staðið fyrir þessari undirskriftasmölun fyrrverandi og núverandi þm. Að vísu kom þessi sendiherra ekki á minn fund til þess að segja mér að skrifa fyrir fram undir, en undirskriftafargan sem þetta er hreinn ósómi og nær engri átt, að þm. sé ætlað að binda sig þannig fyrir fram með undirskriftum varðandi fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Það eru ekki innanþingsmenn, sem staðið hafa fyrir þessu, heldur aðkomandi menn, en þó er því svo varið, að ég sá í afriti, að af þeim 31 manni, sem undirritað hafa þetta skjal, hafa 8 aðeins einhvern tíma átt sæti á Alþingi. Það kann að vera, að hér sé aðeins um fyrstu leit að ræða á skjalið og meira eigi eftir að bætast við í annarri og þriðju leit. Þá gæti komið enn meira á þetta smölunarskjal í þeim atrennum. Það er nú æði langt um liðið síðan fyrsta krafan kom um endurgreiðslu á þessum tolli, og sú elzta er víst 6 ára, en það var 1945, og eru því sex ár liðin, og nú á því herrans ári 1950 er seilzt svo langt til baka, en slíku hljóta alltaf að vera nokkur takmörk sett, og ekki hvað sízt í máli sem þessu. Það er talað um, að því fólki, sem byggt hafi þessi hús, sé vorkunn, að það hafi þurft að greiða þennan toll, en þó er það nú svo, að það mun vera í alla staði betur sett að hafa lagt í að byggja þau heldur en að það hefði látið það vera. Þessar húseignir hafa nú mun meira verðgildi en á þeim tíma, sem þau voru byggð, og er ekki ósanngjarnt að álíta, að eigendur þeirra gætu haft mikinn fjárhagslegan hagnað af sölu þeirra, því byggingarkostnaður allur hefur mjög aukizt frá því þau voru byggð, en eftirspurn mikil eftir húsnæði. Hafa þessir menn því grætt mikið við framtak sitt. Alþingi er heldur ekki bundið neinu loforði í þessu máli, en ályktunin frá 1946 er aðeins heimild fyrir ríkisstjórnina að endurgreiða þennan toll, ef hún sjáí sér það fært. Inn í þessar umr. hafa að nokkru verið dregnir bátar þeir, sem keyptir voru frá Svíþjóð. Raddir hafa verið um það, að eðlilegt væri að endurgreiða þann toll, sem greiddur hafi verið af þessum skipum. Menn gengu til þessara kaupa fyrir það, að ekki var hægt að smiða hér á landi þá stærð báta, sem menn vildu festa kaup á, og hins vegar var málum svo háttað, að þær skipasmíðastöðvar íslenzkar, sem tóku að sér smíði hinna minni skipa, höfðu svo mikið að gera, að ekki var viðlit fyrir menn að komast þar að, fyrr en þá seint og síðar meir. En menn vildu fá báta sína strax, og ekki stóð á fjármagninu á þeim tíma. Hér er því um nokkurn eðlismun að ræða, því að það er kunnara en frá þurfi að segja, að með innflutningi sænsku húsanna var nokkur atvinna tekin frá innlendum iðnaðarmönnum, og ekki munu þessi hús hafa verið neitt ódýrari upp komin, en venjuleg steinhús. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um þetta, munar 30 kr. á hverjum m3 hvað sænsku húsin voru ódýrari, en venjuleg steinhús. Nánar tiltekið kostaði rúmmetrinn í steinhúsi á þeim tíma, sem sænsku húsin voru byggð, kr. 293,00, og í þeim sænsku kr. 264.00. Hér er því ekki mjög mikill munur á. Ég verð nú að beina því til þeirra manna, sem staðið hafa með þessari endurgreiðslu á tollinum 1946 og samþ. þáltill. þá, að nú er nokkur munur á ástandinu. Nú er svo komið, að varla finnst eyrir í ríkiskassanum, og það er tómahljóð á þeim kassabotni. Það er sitt hvað að hlaupa undir bagga á góðæris- og fengsælum tímum, en þegar svo gerólíkt viðhorf hefur skapazt, eins og raun ber vitni um, að hefur gerzt í fjármálum ríkisins. Það gæti dregið slæman dilk á eftir sér að fara nú að samþ. frv. sem þetta og bæta þannig einum pinkli enn á hana gömlu Skjónu, sem er orðin söðulbökuð af þungri byrði.