20.03.1950
Efri deild: 79. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (3355)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki mætt á þeim fundi hv. fjhn., sem afgreiddi þetta mál. Það skal játað, að eðlilegt er, að þeir af eigendum þessara húsa, sem sjálfir byggðu húsin í upphafi, um það leyti, sem heimildin til endurgreiðslu tolla af þeim var veitt, höfðu og hafa ástæðu til þess að ætla, að sú heimild sé notuð, því það er ekki venja að veita slíkar heimildir án þess að það sé meining þess þingmeirihluta, sem samþ. þær, að þær séu notaðar, nema eitthvað sérstakt komi til. Ég tel það því mjög eðlilegt, að þeir hv. þm., sem samþ. þessa heimild á sinum tíma, séu sama sinnis nú. Hins vegar get ég ekki neitað því, að mér finnst örðugt fyrir aðra þm. að greiða þessu frv. atkv. Hér er um að ræða greiðslu úr ríkissjóði, sem nemur eitthvað um 800 þús. kr. til á milli sextíu og sjötíu húseigenda, og mun láta nærri, að í hlut hvers þeirra komi 10–12 þús. kr. Nokkur þessara húsa hafa nú skipt um eigendur síðan þessi heimild var veitt, og sé ég ekki í frv. nein fyrirmæli um það, hver eigi þá að njóta endurgreiðslunnar. en líklega eru það þá núverandi eigendur þeirra. Mín skoðun er sú, að miklu meiri ástæða væri til að nota þessar 800 þús. kr. til þess að hjálpa mönnum að koma sér upp íbúðum nú í húsnæðisvandræðunum, sem alltaf eru að verða meira og meira böl. Ekki sízt þegar þess er gætt, að síðan þessi hús voru reist, hafa húseignir hækkað mjög í verði, og án efa eru mun betri láns- og vaxtakjör á þessum húsum en nú gerist almennt.

Ég vil nú ekki segja, að það sé alveg rétt, sem sagt er í nál. hv. 2. minni hl., að víst megi telja, að nú sé söluverð þessara húsa langt yfir kostnaðarverði. Þetta gildir a. m. k. ekki um öll húsin. En á því er ekki nokkur vafi, að hús hækka í verði, og þar við bætist, að Alþingi hefur nú samþ. l. um gengislækkun, sem leiða mun til þess, að útlenda efnið í húsin, byggingarefnið, hækkar í verði sem gengislækkuninni nemur. Loks er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að margir voru á þessum tíma hvattir til þess að kaupa fullsmíðaða gripi frá Svíþjóð, en þeir eiga ekki eftir þessum l. að fá endurgreiðslu á tollunum. Ég fæ því ekki séð, að það sé snefill af sanngirni í því að veita þessum mönnum endurgreiðslu, nema einnig að veita endurgreiðslu á tollum af Svíþjóðarbátunum, því að það er víst, að þeir eru verr settir með sínar eignir heldur en þessir menn. Ég sagði í upphafi máls míns, að ég teldi það eðlilegt, að þeir, sem samþ. heimildina um endurgreiðslu tollanna af þessum húsum, væru sama sinnis enn. Ég var ekki einn af þeim, sem sáu ástæðu til þess að skuldbinda sig til að innleysa. þennan víxil. Ég get því ekki stutt þetta mál né greitt þessu frv. atkv.