18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (3364)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt hér allmikið nú undanfarið. Að vísu er það langt liðið frá því það var á dagskrá síðast, að mér er farið að falla dálítið úr minni það, sem þá var aðallega um rætt.

Meðan ég gegndi embætti fjmrh., þá var þessi heimild til, eins og í tíð fyrirrennara míns, og var talsverð ásókn með að hún væri notuð. Fyrirrennari minn hafði þegar tekið afstöðu í því efni, sem mér virtist eftir atvikum rétt, og ég vildi ekki frekar leggja út á þessa eftirgjafarbraut, þó að heimild væri til, með því líka að sama ásóknin var á ráðuneytið vegna uppbóta og endurgreiðslna, sem þeir, er fluttu, töldu, að ættu jafnan rétt á sér og eftirgjöf vegna þessara timburhúsa. Það horfði því þannig við, þótt lagaheimildir yrðu ekki jafnglöggar alls staðar, að það yrði erfitt að neita á eina hlið, ef gengið yrði inn á endurgreiðslur á annarri. Þá voru líka fjárhagsástæður sízt bættar frá því í tíð hæstv. fyrrv. fjmrh., Péturs heitins Magnússonar. En hann gerði grein fyrir því, hvers vegna hann teldi sér ekki fært að nota lagaheimildina frá 1946. Getur vel verið, að sá rökstuðningur sé nú fallinn mörgum úr minni, og þykir mér ekki óviðeigandi að rifja hann upp einmitt nú og vildi leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, kafla úr rökstuðningi þeim, sem fjmrh. í þann tíð taldi fram til andsvara þáv. og núv. hv. 1. þm. N-M. á þinginu 1947, er þá sótti á og vildi heyra ástæður fyrir því, að eftirgjafarheimildin hefði ekki verin notuð. Hann mælti svo:

„Út af því, sem fram hefur komið í þessum umræðum, vildi ég minna á það, að um það leyti, sem l. nr. 44. frá 1946 voru sett, sat n. á rökstólum, skipuð af fyrrv. hæstv. félmrh., og átti hún að gefa álit um það, hvort hún teldi æskilegt að flytja inn tilbúin timburhús. Um þetta voru allskiptar skoðanir, en það varð að samkomulagi milli mín og fyrrv. félmrh., og gefin samkvæmt því sú yfirlýsing, að ef heimildin um tollaívilnunina væri sett inn í lögin, yrði hún því aðeins notuð, að n. léti í ljós það álit, að stuðla bæri að innflutningi tilbúinna húsa. Álit n. var á þá leið, að hún var mótfallin slíkum innflutningi, og í fullu samræmi við það var það, að ég neitaði um að eftirgefa tollinn. Ég held því, að það sé ekki rétt hjá hv. 1. þm. N-M., er hann telur innflytjendur húsa árið 1946 svikna um fyrirheit. Gerðir fjmrh. eru í fullu samræmi við það, sem fram kom hér á þingi.“

Þessi rökstuðningur lá fyrir, er til minna kasta kom að taka ákvarðanir, og ég fann ekki ástæðu til að ganga feti framar í þessu efni en sá, sem var fjmrh., er ákvörðunin var tekin, og tók þátt í því með þáv. félmrh. að fá rannsakað, hvort þarna væri farið inn á heppilega braut, og gerði það að skilyrði fyrir því, að hann notaði heimildina, að jákvæð niðurstaða fengist af rannsókninni. Því lét ég ekki til leiðast að fallast á þá eftirgjöf, sem heimiluð var, því að fast var á eftir rekið af ýmsum, og hætt var við, að fleiri mundu í kjölfarið koma, ef hér væri slakað til á tollinum. Enda sýnir það sig, að sömu kröfurnar koma nú, þegar þetta mál er tekið upp, sem fyrir mér lágu, og aðstandendur telja sjálfir ekki réttminni, en kröfuna um eftirgjöf á tolli timburhúsanna. Það var nú ákaflega mikill vindur í þeim hv. þm., sem á sínum tíma ætluðu að bæta úr húsnæðisleysi landsmanna með innflutningi húsa erlendis frá, í stað þess að innlendir smiðir byggðu upp hús sín. Þeim var svo léttstígt á þessu máli, að það var ekki nóg að flytja húsin inn, heldur átti að verðlauna kaupendurna með stórkostlegum tollafríðindum. En hér fór sem oftar, að reyndin varð sú, að n., sem ríkisstj. skipaði, komst að þeirri niðurstöðu, að hér væri ekki fundin nein ágætis lausn á húsnæðisvandamálinu. Viðkomandi þm. telja sig samt bundna að fylgja þessu máli fram. En við það er þetta að athuga, að í fyrsta lagi hefur aldrei legið fyrir það skilyrði, sem fjmrh. setti í öndverðu fyrir því, að heimildin yrði notuð, og í öðru lagi kemur til með að sigla fleira í kjölfarið.

Mér þótti rétt að gefa þessa skýringu, því að á vissu tímabili reyndi á mig að neita þessu, og ég hafði sannarlega enga ánægju af því, en taldi mér það hins vegar skylt, eins og gengið var frá málinu í öndverðu.

Ég skal ekki um það segja, hvaða afstaða hér verður tekin gagnvart þeim brtt., sem hér hafa verið fluttar. Flestar óskirnar eru gamlir kunningjar, sem fjmrn. hefur séð framan í áður, t. d. krafan vegna vélbátanna, sem fluttir voru inn á sömu árum. Og ef matið er byggt á siðferðislegum grundvelli aðeins, þá á sú krafa ólíku meiri rétt á sér að mínu áliti.

Um þá brtt., að ríkissjóður skuli bæta upp tap á smiði báta, sem smíðaðir voru innanlands á árunum 1945–47, er hægt að segja margt, bæði með og á móti. Sú ríkisstjórn, sem sat við völd 1944–1947, lagði út í það að smíða báta þessa hér innanlands. Þetta var á sama tíma og nýbyggingarráð starfaði, en sú athöfn var þó framkvæmd af ríkisstj. sjálfri og án alls samráðs við nýbyggingarráð, og bar það því enga ábyrgð á þeirri framkvæmd. Hitt er svo aftur annað mál, að mikið má færa til réttlætingar því, að þessi bátasmíði var framkvæmd, og þó að ég taki það fram, að það hafi ekki verið nýbyggingarráð, sem sá um smíði þessara báta, þá hafði ég sem formaður þess talsvert að gera með ráðstafanir á þessu og einnig síðar sem sjávarútvegsmálaráðherra, og ég verð að segja það, að í mörgum tilfellum kom það greinilega í ljós, að það, að bátarnir voru smíðaðir, varð mjög til þess að leysa vandræði útvegsmanna, sem sökum óhappa höfðu misst skip sín, eins og oft vill verða, svo að segja má að, að því leyti hafi það síður en svo verið óheppileg ráðstöfun, að bátarnir voru smíðaðir. Það sá ég bezt, er fram í sótti og menn höfðu leitað til ráðuneytisins um farkost fyrir sig og sína, enda var það ólíkt hægara fyrir ríkisvaldið að stuðla að því, að Pétur eða Páll gætu fengið þessa báta, þegar af gjaldeyrisástæðum. Hitt er svo aftur annað mál, að þessir bátar urðu svo dýrir, eins og svo margt annað í okkar landi, og þess vegna voru þeir þungir til þess að eignast þá og standa undir rekstri þeirra fyrir fátæka útvegsmenn. Ég stóð því fyrir því í sæti sjútvmrh. af hálfu ríkisstj. að viðhafa nokkuð sérstaka hjálparstarfsemi til þess að útvega mönnum greiðslufrest fyrir þeim, svo að menn treystu sér til þess að standa undir þeim, og það kom líka í minn hlut að bera ábyrgð á lánsfjárgreiðslum á Svíþjóðarbátunum, sem keyptir voru á tímum utanþingsstjórnarinnar, og hygg ég, að hver maður í mínum sporum, sem vildi líta á ástæður útvegsins annars vegar og framleiðsluþörfina hins vegar, mundi hafa gert svipaðar ráðstafanir um lánsfjárútvegun. En fyrir þetta hef ég sætt hinum mestu hrakyrðum af hálfu Framsfl. og verið atyrtur af málgagni þess flokks og svívirtur fyrir fjárafglöp, þó að ég hafi ekki gert annað en að sjá um dreifingu á framleiðslutækjum, sem aðrir keyptu erlendis frá eða létu smíða innanlands: Annars er ólíku saman að jafna, smíði innlendu bátanna og smíði Svíþjóðarbátanna, og ég hygg, að flestir séu á einu máli um það, að það hafi verið vanhugsuð ráðstöfun, sem gerð var, er samið var um kaup á Svíþjóðarbátunum. Smíði innlendu bátanna hafði miklu síður ágalla þeirra erlendu og var miklu meira við þarfir landsmanna heldur en þeir, bæði að því er stærð þeirra snertir og gerð.

Ég sagði það áðan, að þessir bátar hefðu verið of dýrir fyrir fátæka útvegsmenn, en það leiða við smíði innlendu bátanna er það, að þrátt fyrir það hafa skipasmiðastöðvarnar ekki grætt, heldur frekar tapað á smíði þeirra, og það er á þeim grundvelli, að skipasmíðastöðvarnar hafa gert kröfur um uppbætur á smíði þeirra. Ég hygg, að það megi slá því föstu, að slíkar uppbætur verði ekki lagðar á þá, sem keypt hafa bátana og þeim verið afhentir, og yrði þá ríkissjóður að taka pá greiðslu á sinar herðar. Hitt er svo annað mál, að ríkisvaldið getur varla verið þekkt fyrir það að láta framleiðsluna í landinu leiðast inn á þá braut að smíða og hafa af því stórkostlegt tap, enda hygg ég, að það hafi aldrei verið tilgangur þeirrar ríkisstj., sem samdi um smíði bátanna, að skipasmíðastöðvarnar væru látnar bera tapið, sem á varð og valdið hafa tvær ástæður: hækkun á efni og öðru til bátanna. Þetta er nú það, sem ég vildi hafa sagt um smíði bátanna hér innanlands, og niðurstaðan af því hlýtur að verða sú, að skipasmiðirnir hafa leyst störf sín vel af hendi og eiga mikinn siðferðislegan rétt á því að verða ekki of hart leiknir í viðskiptum sínum. Þó þykist ég vita, að sú ríkisstjórn, sem að þessum ráðstöfunum stóð, hafi alls ekki viljað hleypa þeim inn á efnahagslega glapstigu.

Þá er hér enn ein brtt., sem flutt er í sambandi við þetta frv. Hún er einnig, eins og hinar brtt., flutt af hv. þm. Barð. og er um geymslugjald á saltfiski árið 1947. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 1947 urðu margir fyrir töpum vegna saltfisks, sem lá óhæfilega lengi hér á landi, áður en hægt var að koma honum á markað erlendis. Samt er ekki, eins og fram kom í ræðu hv. þm., þá ríkisstjórn, sem sat að völdum 1947, um að saka, að fiskinum var ekki afskipað fyrr en raun varð á, né heldur það, hve margir fóru í saltfisksverkun þetta ár. Það gaus upp sá kvittur 1947, að óvenjulega mikið af saltfiski yrði keypt af okkur af hálfu Rússa, og var búizt við samningum um sölu á saltfiskinum um leið og samið var um freðfiskssölu til þeirrar þjóðar. Hugsuðu nú margir til hreyfings, og margir fóru í framleiðslu á saltfiski, sem ekki höfðu átt við slíka framleiðslu áður, en auðvitað líka margir, sem henni voru vanir og kunnu á henni skil. Það var svo ekki fyrr en í aprílok eða í byrjun maí, að útséð var um sölu á saltfiski til Rússlands, og með því að sala til annarra landa var ekki meiri venju, heldur jafnvel minni til Suður-Evrópulandanna, fór svo, að hér lágu talsverðar birgðir af saltfiski yfir sumarmánuðina, og margir urðu fyrir tjóni af þessum sökum, en eins og allir vita, er það mjög erfitt og áhættusamt að hafa fiskinn liggjandi þennan tíma. Þessar óviðráðanlegu ástæður voru fyrir því, að þetta tjón varð á saltfiskinum, en ekki vegna þess, að ríkisstj. hafi gefið neinar gyllivonir eða hvatt menn til saltfisksframleiðslu né heldur dregið að sér höndina við að reyna að selja fiskinn, nema síður væri. En hitt er satt, að menn bundu of lengi vonir við það, að samningar tækjust við Rússa um sölu á þessum fiski.

Ég taldi það rétt að gefa þessa skýringu, en allt það sem ég hef um þetta sagt, breytir engu um það tap, sem á þessu varð. Ég hef þá gefið þær skýringar, sem ég álit réttastar og sannastar, af hálfu ráðuneytisins í tíð fyrirrennara míns og í minni tíð, og enn fremur gefið skýringu á og látið í ljós hugsanir mínar gagnvart eftirgjöf tolla, og loks skýrslu til leiðréttingar því, sem haldið hefur verið fram varðandi saltfiskinn. Ég mun nú bíða átekta og sjá, hvað gerist í þessu máli, en verði það samþykkt að greiða til baka tolla af sænsku húsunum, þá býst ég við því, að það reynist erfitt, bæði fyrir mig og aðra, að ganga á móti brtt. á þskj. 474, að minnsta kosti þeim tillögum, er snerta innflutningstoll af Svíþjóðarbátunum og uppbætur á smíði innlendu bátanna. Eðlilegast hefði ég þó talið, þegar á allt er litið, þar á meðal þær gengisbreytingar, sem orðið hafa síðan innflutningur húsanna átti sér stað, að viðurkennt væri að aðstaða þeirra, sem fluttu húsin inn, sé ekki erfiðari heldur en annarra, en jafnvel betri, og menn geti séð sér fært að láta þessar kröfur á ríkissjóð falla niður.