18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (3366)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég hef nú eiginlega talað það, sem þingsköp heimila mér, en ég hef ekki látið álit mitt í ljós út af brtt. þeim, sem fram eru komnar, því að þær komu ekki fram fyrr en ég hafði talað, en mér finnst skylda mín sem frsm. að minnast nokkuð á þær, en vil þó fyrst víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan. Ég tel það víst og efast ekki um, að það sé rétt, sem hann sagði um skyldu ríkisstj. til þess að greiða þetta, og þegar átt er við lagalega skyldu, þá er það rétt. Hitt er svo annað mál, hvort það er jafnrétt frá siðferðislegu sjónarmiði. Þó að heimild sé samþ. til ríkisstj. að greiða eitthvað, en henni ekki fyrirskipað að gera svo, svo að stj. geti þar af leiðandi lagalega séð neitað, þá held ég, að venjulega sé það skoðað þannig, að það veiti siðferðislegan rétt. Við skulum segja, að það hafi komið fyrir, að heimilað hafi verið að greiða mönnum á 22. gr. fjárlaga skaðabætur fyrir eitthvað. Ég hygg, að það hafi ævinlega verið lítið svo á, að slík heimild hafi verið skoðuð sem loforð frá Alþingi um, að mennirnir skyldu fá þetta fé.

Hæstv. ráðh. sagði, að réttara hefði verið að gefa hæstv. fjmrh. kost á að vera viðstaddur umr. Ég vil taka fram bæði út af þessu og öðru, að ráðh. er alltaf gefinn kostur að vera hér við umr., taka þátt í þeim og láta skoðun sína í ljós, ef þeir sjá ástæðu til. Mér finnst, að ráðh. eigi að geta litið yfir dagskrána eins og hverjir aðrir þm. og verið við þær umr., sem þeir sjá ástæðu til að vera við. Að vísu á hæstv. núv. fjmrh. sæti í Nd. sem þm., og er þá vitanlega meiri afsökun, þó að hann sé ekki við, en þeir ráðh., sem eiga hér sæti sem alþm.

Mér er ómögulegt að sjá, jafnvel þó að þetta frv. yrði samþ., þá bæri að greiða öllum skaðabætur, sem einhvern tíma hefðu skaðazt, eins og þótt Sveinbjörn Kristjánsson hafi skaðazt á vissri byggingu, sem hann tók að sér að byggja. Þetta frv. er aðeins byggt á því, að það hefur verið litið svo á, að Alþingi hafi a. m. k. veitt mikinn ádrátt um það, að þessi tollur yrði endurgreiddur. Hv. flm. hefur litið svo á, að Alþingi mundi vilja standa fyrir sitt leyti við þann ádrátt, svo að maður kalli það ekki beint loforð.

Út af brtt. á þskj. 474 verð ég að segja, að ég er alveg hissa, að þær skuli vera bornar fram sem brtt. við þetta frv., einkum b- og c-liðurinn. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Vestm. hafi gefið alveg rétta skýrslu um þessi mál, en þrátt fyrir það sé ég ekki, hvað svona till. eiga að gera inn í frv. um endurgreiðslu á tolli af tilbúnum timburhúsum. Í a-liðnum er þó talað um endurgreiðslu á tolli, en í b- eða c-lið er ekki talað um neina slíka endurgreiðslu, heldur allt annað. Það er uppbót vegna tjóns, sem menn hafa beðið af einum eða öðrum ástæðum. Þetta er allt annað mál, svo að mér er ómögulegt að sjá, að slíkt geti átt heima í þessu frv. Sérstaklega er furðulegt, þegar hv. þm. Barð. ber slíkar till. fram, að hann skuli þá ekki um leið bera fram brtt. við fyrirsögn frv. og láta frv. heita allt annað en það heitir nú, því að ef hér verða sett ákvæði um uppbætur til þeirra, sem liðið hafa tap á smíði báta og af geymslu á saltfiski, þá getur frv. ekki heitið frv. um endurgreiðslu tolla á tilbúnum timburhúsum. Ég er því hræddur um, að fyrirsögn frv. þyrfti að verða öðruvísi, ef ætti að samþ. þessar till. Ég efa það ekki, að þeir menn, sem hlut eiga að máli og þessi till. er borin fram út af, ættu á margan hátt skilið stuðning frá ríkinu og þeim sé þörf á honum.

Ég hlustaði með nokkurri athygli á ræðu hv. þm. Vestm. og hv. flm. þessarar till., og gat þó ekki fundið, að eins stæði á um þetta og sænsku timburhúsin, að nokkurt fyrirheit hafi verið gefið í þessu efni. Það hafa svo margir beðið tjón í þessu landi, að ef það ætti að bæta öllum allt það tjón, sem þeir hafa beðið; þá mundi ríkið ekki lengi verða fjár síns ráðandi.

Ég tók það fram í minni fyrstu ræðu hér, að ég hefði ekki séð mér fært að greiða atkv. með þessu frv., ef ekkert hefði skeð í málinu áður. Fyrir mér er það svo mikið atríði, að Alþingi beinlínis lætur í ljós, að það fyrir sitt leyti vilji, að þessi tollur sé endurgreiddur, að mér finnst Alþingi tæplega geta annað en staðið við það. Jafnvel þó að það sé aðeins heimild til ríkisstj. og bindi ekki stj., þá bindur það Alþingi. Þess vegna sé ég enga ástæðu til að deila á hv. þm. Vestm., sem gegndi embætti fjmrh., eða fyrirrennara hans. En Alþingi sjálft sér væntanlega sóma sinn í því að bregðast ekki mönnum, sem það hefur gefið fullt tilefni til að vænta þessarar endurgreiðslu, þó að það sé ekki loforð, sem hægt er að byggja málssókn á.