18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (3368)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er einmitt vegna þess, að ég hef talað svo oft sem þingsköp leyfa, að ég hef mælt fyrir þeim brtt., sem ég hef borið hér fram. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að segja nokkur orð, og skal ég stytta mál mitt, það gefst tilefni til að ræða málið nánar við síðari umr.

Mér hefur þótt rétt að bera fram þessar till. Þær hafa áður verið tengdar saman, frá því að fyrst var farið að tala um það. Ég vildi óska þess, að hæstv. forseti vildi fresta þessari umr. og halda fund um þessar till. m. a. í fjhn.; hversu fráleitar sem honum finnast till. vera í sambandi við þetta mál, þá vænti ég samt sem áður, að hann verði við þeim tilmælum að láta n. fjalla um þessar brtt: Sjái hann sér ekki fært að gera það og vilji láta málið ganga til atkv. við 2. umr., þá er ég samt sem áður fús til að taka aftur till. mínar til 3. umr., því að ég mun þá ræða þær meira og lengur en tækifæri er til nú. Ég skal þá einnig athuga þær ágætu ábendingar frá hv. 1. þm. Eyf., sem hann gaf mér í sambandi við að breyta fyrirsögninni, enda er það ekki of seint að breyta fyrirsögninni, ef till. verða að öðru leyti samþ. Ég get því tekið till. aftur til 3. umr., en vildi heldur óska þess, að umr. yrði frestað og n. tæki till. til athugunar og gæfi þá kannske út nýtt nál.