21.04.1950
Efri deild: 91. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (3372)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er um þetta mál að segja, að ég tel málið sjálft útrætt og skal ekki frekar teygja umr. um það, en vil aðeins geta þess, hver afstaða mín er til þeirrar brtt., sem komið hefur hér fram, og ég gat þess í nál. mínu, að gera mætti ráð fyrir því, að þeir fiskibátar, sem hafa verið smíðaðir í Svíþjóð, mundu sumir leita sér fríðinda nú um leið, eins og þessi hús mundu hafa, og það er komið á daginn, og ég verð að segja, að mér er ekki hægt samræmisins vegna, annað en að greiða þeirri till. hv. þm. Barð. atkv., hvað sem verður um málið sjálft endanlega. En ég vil segja, að það er mjög hliðstætt því að láta þá, sem hafa orðið fyrir skakkaföllum á smíði báta innanlands, fá einhverjar uppbætur, ef á annað borð verða veittar þessar endurgreiðslur, og ég mun ekki bregða fæti fyrir það, að sú uppbót fengist. En um þriðja liðinn finnst mér standa öðruvísi á, og ég er ekki ráðinn í því, hvernig þar fer með atkvgr., en það mun verða skammt að bíða að skera úr um það.