21.04.1950
Efri deild: 91. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (3374)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í tilefni af brtt. 474 langar mig til að fá upplýsingar. Í a-lið stendur: „Ríkissjóður skal endurgreiða innflutningstoll af öllum vélbátum, sem fluttir voru til landsins á árunum 1945, 1946 og 1947.“ Í tilefni af þessu langar mig til að fá að vita um það, hvað mikið af þeim tollum er greitt. Ég hef óljósa hugmynd um það, að nokkuð margir af innflytjendum þessara báta hafi engan toll greitt, og af því hér situr í d. hv. þm. Vestm., sem fór með þessi mál og hafði yfirumsjón með þessari innheimtu á sínum tíma og sat í ráðherrastól, þá vildi ég gjarnan fá upplýsingar um, hvernig þessi mál stóðu, þegar hann fór úr ráðherrastól. Það skiptir nokkru máli í mínum augum, ef þetta er eins og ég hygg vera, að meiri hlutinn af þessum tollum sé ógreiddur með öllu, og sé ekki meiningin annað, en að gefa hann eftir, eins og ég hef heyrt, þá finnst mér alveg eins formlegt, að þingið geri það eins og ráðh. geri það án þess að spyrja að því, en formlega er ekki búið að gefa neitt af því eftir. Þetta langaði mig til að fá upplýsingar nm. um.