23.01.1950
Efri deild: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (3401)

98. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Forseti (BSt) :

Eins og hv. þdm. munu minnast, voru hér erfiðleikar á síðasta fundi um atkvgr. mála sökum mannfæðar. Fór þá fram nafnakall um að vísa þessu frv. til 2. umr., og greiddu allir viðstaddir hv. þm. atkv. með. því, átta að tölu. En þar sem það lá fyrir og var upplýst, að þrír hv. þm. voru þann veg forfallaðir, að þeir áttu þess ekki kost að vera á fundi, þá leit ég í bili svo á, að meiri hl. þeirrar deildar, sem starfhæfur var, hefði verið hér til staðar, og afgreiðsla máls væri því möguleg. Og eru fordæmi fyrir þessu, a. m. k. í eitt skipti, og var þá reyndur lögfræðingur í forsetastóli og leit eins á og ég í þessu efni. En við nánari athugun virðist það þó alveg vera tvímælalaust, að meiri hluti deildar, hvort sem nokkur hv. þdm. er forfallaður eða ekki, verði að vera til staðar, þegar mál er afgreitt, hversu einfalda afgreiðslu sem þar kann að vera um að ræða. Og er því þessi atkvgr. endurtekin um að vísa frv. þessu til 2. umr. Vona ég, að enginn hafi neitt við það að athuga.

Frv. vísað til 2. umr. með 10 shlj. atkv.