13.03.1950
Efri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (3414)

129. mál, kaup á ítökum

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Það er öllum vitanlegt, að frá gömlum tímum og jafnvel líka nýjum, þó að miklu meira hafi að því kveðið áður fyrr, var það algengt, að ýmsar jarðir settu ítök í, eða ef um reka var að ræða þá fyrir annarra manna jörðum. Þessi ítök voru margs konar, og er oft vafasamur eignarréttur þeirra. Langalgengust voru rekaréttindi kirkna, þ. e. a. s. réttindi til trjáreka og hvalreka. Þannig er það, að jafnvel jarðir í Borgarfirði eiga hvalrekaítök langt norður í Strandasýslu. En auk þessara rekataka, sem eru nú algengustu ítökin, eru alls konar önnur ítök, sem menn eiga í og fyrir löndum annarra manna. Það eru ítök um mótekju. Það eru ítök um beit í landi annars manns. Það eru ítök í sölvafjöru fyrir landi annars manns og allra handanna annars konar ítök. Margt af þessum ítökum hefur ekki verið notað og sum þeirra sjálfsagt fyrnd.

Þegar síðasta fasteignamat fór fram, þá var ég þar við riðinn. Það var sameiginlegt álit okkar, að ítök væru metin sérstaklega, og var hugmynd okkar að gefa jarðareigendum eftir á kost á að leysa til sín ítökin eftir samkomulagi við eigendur þeirra. En þetta mistókst alveg, því að ég held, að það hafi ekki verið nema einar tvær sýslur, sem reyndu að meta ítökin sér, svo að úr hugmynd okkar varð því ekki. Þetta frv. er þess vegna flutt til þess í fyrsta lagi, að þessi ítök geti komizt á hreint og þau ítök hverfi, sem þegar eru fyrnd, og í öðru lagi til þess, að þar sem þau gilda, þá geti menn keypt þau undir þær jarðir, sem þau upphaflega tilheyrðu og eðlilegt er að þau tilheyri. Ákvæði skógræktarlaganna hafa hér verið höfð til hliðsjónar. Þar er svo fyrir mælt, að það skuli auglýsa í Lögbirtingablaðinu um ítök þau, er þar greinir, en hér er gert ráð fyrir því, að þeir, sem telja sig eiga ítök í eða fyrir landi þeirra jarða, sem aðrir eiga, skuli lýsa þeim á manntalsþingi í þinghá þeirrar jarðar, sem tilkall er gert til ítaks í, til viðkomandi sýslumanns. Gera má ráð fyrir því, að þá þegar muni mörg ítök falla niður, því að þau hafa ekki verið nýtt um lengri tíma og því hæpið, að eigendur þeirra nenni að standa í því að sanna rétt sinn, finnst það ekki svara kostnaði og fyrirhöfn, en það er sem sagt skilyrði, að krafa komi fram um að, en ef það verður ekki, þá mundi ítakið falla niður. Um hin ítökin, sem menn álíta einhvers virði og gilda mundu, þá þurfa tilkynningar að berast um þau til viðkomandi yfirvalds. En þá er svo fyrir mælt, að jarðeigendur geti fengið þau keypt, og fer þá um kaupverðið eftir því, sem um semst, en ef ágreiningur verður um það, þá er hægt að kaupa það eftir mati tveggja dómkvaddra manna, en þeim úrskurði matsmanna má svo aftur skjóta til yfirmats. Með því móti er gert ráð fyrir því, að ítök komist aftur undir þær jarðir, sem eðlilegt er að þau séu og áður hefur verið, og komið í veg fyrir, að t. d. maður uppi í afdal í Norður-Múlasýslu eigi reka úti við sjó, eða prestur uppi í Borgarfirði geti talið sig eiga ítök í hval, sem rekur lengst norður á Ströndum.

Það hefur líka í laxveiðilögunum verið gert ráð fyrir því, að menn geti keypt aftur undir jarðir sínar laxveiði, sem undan þeim hefur gengið, svo að þetta er alveg í samræmi við það, sem Alþingi hefur gert, bæði með laxveiðilögunum og skógræktarlögunum, svo að ég vænti þess, að frv. eigi greiðan gang í gegnum þingið.

Ég býst við því, að einhverjir prestar, sem eiga þannig ítök, langt frá sínum jörðum, muni kannske leggja stein í götu þessa máls, en ég vona, að það verði ekki tekið tillit til þess. — Að endingu leyfi ég mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr.