10.01.1950
Neðri deild: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Það hefur verið borin hér fram brtt. við 14. gr., um, að tiltekin lagaheimild skuli gilda til 1. marz, að undanteknum f-lið dýrtíðarlaganna. Nú hefur verið gerð sú brtt. við þetta, að þessi undantekning skuli einnig ná til d- og e- liðar. Mér hefði sýnzt, þó að ég hafi ekki borið fram brtt. um þetta fyrr, að úr því að verið er að framlengja þessa tekjustofna til 1. marz, þá væri réttast að framlengja ákvæðin eins og þau eru nú, þannig að mér sýnist ekki ástæða til þess að samþykkja þessa brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. hefur borið fram, og ekki heldur að samþ. ákvæðin, sem nú eru í frv. um að undanskilja f-lið. Mér finnst sem sagt eðlilegt, úr því að þetta er framlengt um stuttan tíma, að það sé framlengt óbreytt. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram skriflega brtt. um umorðun á 14. gr., að hún orðist svo:

„Til að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkissjóðs, er frv. þetta gerir ráð fyrir, til 1. marz 1950, skulu ákvæði III. kafla laga nr. 100 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, gilda til 1. marz 1950.“

Aðalbreyt. í þessu er sú, að undantekningin í f-lið 30. gr. er felld niður, og mundi ég þá, ef þetta yrði samþ., fella mig við það, að ákvæðið væri framlengt óbreytt. En fáist ekki þessi breyt. samþ., vildi ég áskilja mér rétt til þess að taka til athugunar þær brtt., sem bornar hafa verið fram. Vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.