28.04.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (3432)

146. mál, loðdýrarækt

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem ég hef lagt fram um loðdýrarækt, er lagt fram vegna þess, að það er ákaflega mikið ríkjandi hjá mönnum ótti um, að minkar sleppi úr haldi. Það eru nokkur minkabú í landinu enn þá, þó að þeim af ýmsum ástæðum hafi fækkað, en sem stendur er minkaeldi eitt af því, sem gert er með mestum hagnaði. Skinnin eru í háu verði, seljast yfirleitt á 12–25 dollara skinnið af minkum þeim, sem við höfum nú í okkar búrum, og dæmi eru til, að eitt skinn hafi selzt á 54 dollara fyrir skömmu síðan. Fyrirtæki í bæjum, sem sauma tízkuföt utan á hefðarfrúr, hafa séð sér hag í að kaupa þau og kaupa mikið af þeim. Þess vegna koma skinnin ekki öll — og jafnvel fæst — fram á verzlunarskýrslum.

Þetta frv. er flutt til að tryggja, að minkar sleppi ekki úr haldi. Það má segja, að talsvert tryggilega sé búið um þetta eftir núgildandi lögum. Í fyrsta lagi má enginn stunda loðdýrarækt nema með leyfi viðkomandi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar. Með l., sem sett voru í fyrra um eyðingu minka, var því bætt við, að sýslunefnd geti tekið fram fyrir hendurnar á öllum íbúum síns umdæmis og bannað allt minkaeldi í sýslunni. Þegar eitthvert slíkt leyfi er fengið hjá sýslunefnd, þar sem minkaeldi er ekki bannað, þá má ekki flytja minka í þau hús eða girðingar, fyrr en farið hefur fram úttekt af þar til kvöddum mönnum. Fyrst þegar hún hefur farið fram og það er löglega viðurkennt, að húsin séu hæf til að geyma minka, er leyfilegt að flytja dýrin þangað. Árlega á að hafa eftirlit með því, hversu margt fæðist í búunum, hvað margir drepast og hvort nokkuð sleppur. Það kann að hafa verið einhver vanræksla á þessu einhvers staðar, — ég skal ekki segja um það. Það er alveg víst, að ákaflega víða um landið heyrir maður getsakir um það, að úr þessum búrum sleppi skepnur og ber ekki að neita, að það var til að byrja með, enda voru þau búr á annan veg, en nú er farið að tíðkast hér á landi. Nú eru þau af ýmsum gerðum, en yfirleitt eru þau öll vönduð og ekki líkur fyrir, að dýr sleppi þaðan, þó skal ég ekki fullyrða um eitt, sem ég hef ekki haft glöggar fregnir af:

Það, sem fyrir mér vakir með þessu frv., er að slá föstu, að húsin skuli vera þannig, að fyrirbyggt sé með öllu, að dýr sleppi úr þeim, og gefa þeim, sem hafa minkarækt, tíma, til að breyta sínum búrum á þann veg, sem krafizt er. Það getur verið, að það þurfi að breyta þessu eitthvað svolítið í meðferð. Ég geri ráð fyrir, að húsin þurfi ekki að vera alsteypt upp úr, eða ekki fyrir ofan það, sem þessi dýr komast, — ég skal ekki segja um það. Það mun líka þurfa að setja ákvæði um það, að minkar séu réttdræpir hjá þeim, sem hafa ekki breytt búrum sínum lögum samkvæmt, þá er liðinn er frestur sá, sem mönnum er veittur til að koma búrunum í það horf; sem lög segja um.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta mál að þessu sinni. Það fer til n., sem hefur mál um sama efni til meðferðar, og koma væntanlega frá henni bæði málin í einhverju formi, hvernig sem það kann að verða.

Ég skal láta þess getið, að ég sé ekkert athugavert við það, að einhverjum manni hér á landi sé leyft að hafa minkabú í fullkomlega öruggum og tryggum húsum og skapa sér þannig atvinnu, því að með því getur duglegur maður skapað sér betri atvinnu, en við flest annað. Það er talið, að það sé hægt fyrir einn mann að hirða 200–250 minka. Það er talið. að það sé upplagt að gera það, nema kannske svolítinn tíma að vetrinum, og fyrir það mundi hann fá 800–1000 skinn, sem með meðalverði, sem nú er, eða ef miðað er við það, sem er heldur lélegt, verður um 15 dollarar fyrir skinnið. Það fær hann fyrir vinnu sína og úrgangsfisk, sem notaður er aðallega til að fóðra þessi dýr. Þetta er atvinna, sem verður að teljast glæsileg, eins og nú standa sakir. Þessum möguleika vil ég ekki loka fyrir mönnum, og þess vegna er frv. fram komið, og verður það sjálfsagt athugað nánar í landbn., og legg ég til, að því verði vísað til hennar.