08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í C-deild Alþingistíðinda. (3441)

158. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. (PZ) hefur verið að leita að átyllum fyrir því að kalla sig heila þingn., og brá hann því fyrir sig, að hv. 2. þm. Árn. (EE) hefði samþ., að frv. yrði flutt. Ég hef nú átt þess kost að ræða við hv. 2. þm. Árn., og telur hann, að hér skjóti nokkuð skökku við. Hann segir að vísu, að hv. 2. þm. N-M. hafi lagt frv. á borð fyrir framan sig, þar sem hann sat, og spurt, hvort hann væri samþykkur því, að n. flytti frv., og þar sem hann hafi ekki strax snúizt til varnar, þá hefði hann talið það samþykki, en ég held, að hv. 1. þm. N-M. hafi komið hv. 2. þm. Árn. mjög að óvörum, ef hann hefði fengið hann til að samþykkja frv. að óathuguðu máli, því að hann er vanur því að íhuga mál vel, áður en hann tekur til þeirra afstöðu, og flanar ekki að neinu. Ég hygg því, að frv. sé til komið á óeðlilegan hátt, þar sem einn hv. þm. hefur kallað sig heila n., og má vera, að slíkt geti komið til álita hjá hæstarétti, þar sem hann hefur ekki viðurkennt lög, þar sem þau hafi ekki fengið þinglega rétta meðferð, og ef til vill er svo hér, þó að ég út af fyrir sig efist um, að dómur hæstaréttar fái staðizt. Ég skal játa, að þau atriði, sem hv. 1. þm. N-M. nefndi, benda heldur í þá átt, að n. eigi ekki að vera eigandi tækjanna, en þau skera ekki úr, og væri eðlilegra að hafa þessi ákvæði mun skýrari. Ég geri þó ráð fyrir, að lögskýringar mundu fara í svipaða átt og skýringar hv. þm. þm. Hins vegar er ég ekki sammála um skýringar hv. þm. á e-lið. Þar er um að ræða varhugavert ákvæði, sem verður þó enn varhugaverðara eftir skýringar hv. þm., þegar hann segir, að hér eigi að fara fram tvenns konar skoðun. Annars vegar að rannsaka styrk vélanna og dugnað, hvort hann sé sá, sem framleiðendur segja, og er hægt að skera greinilega úr því. Hitt höfuðverkefnið segir hv. þm. sé að úrskurða það, hvort viðkomandi tæki henti við íslenzka staðhætti. Þetta getur verið ákaflega mikið álitamál og úrskurðurinn mjög undir því kominn, hvar vélin er prófuð. Slík niðurstaða getur því verið mjög mikið álitamál. Nú kann það að vera, að n. hafi úrskurðað, að einhver vél henti ekki við íslenzka staðhætti, þótt hún sé góð og gild til sinna hluta. Setjum svo, að seljandi dragi enga dul á þetta og geti yfirlýsingar n. í auglýsingum. Á þá það, að fyrirtækið heldur áfram að selja vélina, að verða til þess, að vélin verði gerð upptæk? Þarna hefur viðurkenning n. ekki fengizt. Ef seljandi getur fengið einhverja menn til að meta meir sín orð en dóm n., þá á að gera hlutinn upptækan. Þetta felst í gr., eins og hún er nú. Hins vegar er eðlilegt, að yfirlýsing n. liggi fyrir sem leiðbeining til manna, og enn fremur, að refsivert sé, ef dóms n. er ekki leitað, en lengra á þetta ekki að ganga, og frv. verður að taka breytingum í samræmi við það. Hv. 1. þm. N-M. talaði um það, að vanrækt hefði verið að framkvæma 18. og 19. gr. l. frá 1940, en ákvæði þeirra eru svo óákveðin og óljós, að erfitt er að brjóta á móti þeim, og held ég því, að hann hafi haft um það of sterk orð. — Þá vil ég benda á, að það er nokkuð sterkt til orða tekið í 3. málsgr. b-liðs, þar sem sagt er, að innflytjendur skuli afhenda n. niðurstöður tilrauna, sem gerðar eru erlendis við prófun á vélunum. Það gæti nú verið svo, að vélin hefði víða verið prófuð, svo að innflytjandi eigi mjög erfitt með að afla þessara skýrslna. Við skulum t. d. segja, að einhver vél sé framleidd í Danmörku og hafi verið reynd í Bretlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Kína og á Filippseyjum o. s. frv. Ég held, að það geti verið erfiðleikum bundið að fá skýrslur um prófunina í öllum þessum löndum, og tel því, að rétt sé að takmarka þetta við framleiðslustað. Hv. þm. sagðist vita, að þessi prófun færi fram í öllum löndum, sem hann þekkti. Ég held nú, þótt hann sé margvís, að hann hafi, ef til vill, tekið sér helzt til mikið í munn, en af því að hann er djúpvitur og kunnugur flestum hlutum, þá vil ég að lokum spyrja hann, hver sé verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands, sem er tiltekinn hér í lögunum.