24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Þingsályktunartillaga sú, sem hér liggur fyrir, er um heimild til handa ríkisstj. til þess að halda áfram að greiða til bráðabirgða sömu uppbót á mánaðarlaun starfsmanna ríkisins og greidd hefur verið frá 1. júlí s. l. á grundvelli ályktunar Alþingis frá 18. maí s. l., þar til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1950 er lokið.

Um leið og ég lýsi fullum stuðningi mínum við þessa tillögu, vil ég með nokkrum orðum undirstrika nauðsyn þess, að hraðað sé heildaraðgerðum í launamálum opinberra starfsmanna, sem sé setningu nýrra launalaga.

Það, sem liggur til grundvallar kröfum opinberra starfsmanna um ný launalög og um bráðabirgðalaunauppbætur, er það, að þegar aðrar stéttir þjóðfélagsins, þær sem hafa frjálsan samningsrétt, hafa fengið launahækkanir, hafa laun opinberra starfsmanna staðið í stað. Jafnframt hefur dýrtíðin aukizt og kjör opinberra starfsmanna versnað fyrir annarra hluta sakir. Af þessu var það, að félag það innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem ég er formaður í, gerði hinn 20. okt. 1948 fundarsamþykkt, þar sem m. a. er vakin athygli ríkisstjórnar og Alþingis á því:

1) að kaup þeirra launþega, sem teknir voru til samanburðar við samningu launal. 1944, hafi frá þeim tíma hækkað um 8–45%.

2) að þeir ríkisstarfsmenn, sem í lægstu launaflokkunum eru, geti ekki með núverandi verðlagi á lífsnauðsynjum lifað af launum sínum.

Þessar till. Starfsmannafélags ríkisstofnana var fyrsta áskorunin, sem kom inn til bandalagsstjórnarinnar um endurskoðun launal., og var málið eftir þetta tekið upp af bandalaginu. Svo á síðasta vetri lét starfsmannafélagið gera samanburð á launum ýmissa stétta og línurit og er byggt á þeim útreikningum í grg. þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir. Hef ég gert ráðstafanir til þess, að gögnum þessum verði útbýtt hér meðal hv. þm.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að allir þeir, sem fylgjast með launamálum yfirleitt, muni viðurkenna, að opinberir starfsmenn hafi borið skarðan hlut frá borði í hlutfalli við aðrar stéttir, og er ætlunin, að endurskoðuð launalög bæti úr því misrétti. En þrátt fyrir það, að málinu var hreyft fyrir rúmu ári síðan af félagi mínu, og þrátt fyrir það, að ríkisskipuð milliþinganefnd hefur nú um mánaðarskeið unnið að undirbúningi málsins, er það enn þá á algerðu byrjunarstigi, og getur liðið langur tími, þangað til ný launalög koma til framkvæmda. En þangað til það verður, er nauðsynlegt, samkvæmt því sem áður er sagt, að opinberir starfsmenn fái uppbætur á laun sín, og er sú úrlausn, sem þeim er ætluð hér, hvergi nærri fullnægjandi til samræmis við aðrar stéttir, en þó nokkur hjálp. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að launauppbætur eru aðeins greiddar fyrir nóvembermánuð, og þolir málið enga bið, ef fólkið á að fá þessar uppbætur greiddar með desemberlaunum sinum, og í öðru lagi, að á fjárlögum ársins 1950 verður að ætla fé til greiðslu launauppbóta fyrir opinbera starfsmenn, ef launalögin verða þá ekki komin til framkvæmda.

Ég vildi með orðum þessum vekja athygli á réttmæti þessarar till., en jafnframt á því, að hér er aðeins um að ræða lélega bráðabirgðaúrlausn til handa opinberum starfsmönnum. Þeim, sem hlut eiga að máli, starfsmönnum hins opinbera, er því mikil nauðsyn á því, að um þetta mál ríki sem mestur einhugur á Alþingi, bæði nú og í framtíðinni. Sú stefna hefur líka verið uppi innan félagsskaparins frá því fyrsta, að reyna að hafa sem mesta samvinnu um málin, innan samtakanna og utan.

Á bandalagsþingi fyrir tæpum mánuði lýsti form. bandalagsins því yfir, að hann mundi leita til allra þingflokkanna um það mál, sem hér liggur fyrir, og var í framhaldi af því rætt við nokkra menn um að gerast flm. þessarar till., þar á meðal mig. Ég lofaði þessu, sem sjálfsagt var. En svo skeði það, að einhverra hluta vegna var till. komin hér inn í þingið án þess að formaður bandalagsins, Ólafur Björnsson prófessor, vissi nokkuð um og án þess að fullnægt væri þeirri kröfu þings og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að þm. úr öllum flokkum þingsins, eða a. m. k. þingmenn úr þeim flokkum, sem eiga fulltrúa í mþn. í launamálum, ættu þátt í flutningi hennar.

Mér þótti rétt að láta þetta koma hér fram vegna þess, að spurt hefur verið að því, hvers vegna ég sé ekki meðal flm. þessarar till., og það hefur að vonum þótt einkennilegt, að þegar formaður fjölmennasta félags ríkisstarfsmanna á sæti á þingi, þá skuli hann ekki vera við málið riðinn. Gangur málsins er sem sagt sá, að samkvæmt stefnu sinni um að reyna að hafa frið um hagsmunamál sín vildi bandalagið hafa stuðning allra flokka þingsins við málið, að bandalagsstjórn vann samkv. þessu, en að einhvern tíma á því tímabili, sem líður milli þess, að bandalagsstjórn gerir samþykkt sína, og þess, að málið er borið fram hér á Alþingi, er tekin upp önnur stefna, sem sé sú að reyna að nota málið til framdráttar einstökum mönnum og einstökum stjórnmálaflokkum. Það er náttúrlega alveg nýtt viðhorf, að launamál opinberra starfsmanna séu svo vinsæl hér á Alþingi, og mega opinberir starfsmenn muna annað, t. d. frá síðasta þingi, þegar enginn tími vannst til þess að afgreiða mál þeirra til eins eða neins fyrr en síðustu nótt þingsins með þeim hætti, sem mönnum er minnisstæður. Ef flokkar og einstakir þm. vilja sérstaklega taka mál opinberra starfsmanna upp á arma sína, þá vil ég benda þeim á, að nóg er til, t. d. afgreiðsla nýrra launalaga og lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem lofað hefur verið nú í 4 ár og hafa í jafnlangan tíma verið í undirbúningi hjá einum þm. Sjálfstfl. á vegum ríkisstj.

Samtök opinberra starfsmanna telja sjálf vænlegast til framgangs málum sínum, að sem mest samvinna stjórnmálaflokkanna sé um framgang þeirra á Alþingi. Ég tel þessa stefnu rétta og mun því aldrei heyja neitt kapphlaup á þessum vettvangi. Mér er hagur samtakanna of mikið áhugamál til þess, að ég vilji verða til þess að tefla málum þeirra í nokkra tvísýnu. En ég álít, að aðgerð sú, sem höfð hefur verið, er þáltill. þessi var lögð fram, sé engan veginn hættulaus fyrir málið og það beri vott um hollustu við eitthvað annað, en málið sjálft, að vilja tefla því í svo augljósan voða. Og eitt er víst, að opinberir starfsmenn lifa ekki á því, þótt einstakir þm. vilji láta á sér bera í þinginu. Þeim er meira virði að fá frið um mál sín, nú og í framtíðinni.

Ég vil svo enn lýsa stuðningi mínum við till. þessa og vona, að hún nái fljótt fram að ganga.