28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3465)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. mjög. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. 8. þm. Reykv. mælti svo eindregið með till. þessari. Hitt þótti mér miður, að hún skyldi mæla á þann veg, að það gæti orðið málinu hættulegt, hvaða aðferð var höfð við flutning þessarar till. Ég fæ ekki séð, að þetta geti verið réttmæli, að hún telji, að málinu sé stefnt í voða, þótt nafn hennar væri ekki undir till. eða henni líkaði ekki aðferðin alls kostar, og eftir ræðu hennar sé ég, að svo er ekki, og virtist mér hún vera till. mjög sammála, og skildist mér, að hún talaði þar einnig fyrir sinn flokk eða a. m. k. mikinn hluta hans. Skil ég ekki, að hún láti málið gjalda þess, að hún var ekki meðflm. þess, og vænti ég þess, að hún hafi svo mikil áhrif í flokki sínum, að hann skipti um skoðun og fylgi till. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé slæm lausn á málunum, heldur þvert á móti viðunandi, og því var till. flutt.

Ég neita því ekki, að það dró nokkuð úr þeirri ánægju, sem ég hafði af ræðu hv. 8. þm. Reykv., þegar hv. þm. V-Húnv. (SkG) tók til máls, og ég varð ekki jafnsannfærður og áður um stefnubreytingu hjá Framsfl. Hv. þm. V-Húnv. taldi afgreiðslu þessa máls óviðunandi, meðan ekki lægju fyrir heildarskýrslur um launakjör sjómanna, bænda og annarra stétta til samanburðar. En slík rannsókn mundi taka æði langan tíma og ekki hægt að láta þetta mál bíða allan þann tíma. Ég er hv. þm. sammála, að rétt sé að hafa hliðsjón af launakjörum annarra stétta, en slíkan samanburð ber að láta fara fram í sambandi við endurskoðun launal. sjálfra, en ekki þessa till., sem er aðeins til bráðabirgða. Við teljum víst, að endurskoðun launal. standi nú fyrir dyrum, og er rétt að gera þennan samanburð þá, en ekki í sambandi við þessa till. Með þessu tel ég, að ég hafi einnig að nokkru svarað hv. þm. Barð. (GJ), og er það rétt hjá honum, að opinberir starfsmenn hafa ýmis hlunnindi fram yfir aðrar stéttir, svo sem fullkomnari tryggingar og styttri vinnutíma, og er eðlilegt, að slíkt sé tekið til athugunar við setningu launal. sjálfra, en ekki við þessa till. Þegar launalögin voru sett, var haft ákveðið hlutfall milli opinberra starfsmanna og annarra stétta, en nú hefur þetta raskazt stórlega, og nú liggja fyrir ótvíræðar skýrslur um það, að laun annarra stétta hafa hækkað stórlega, á meðan laun opinberra starfsmanna hafa staðið í stað. Að breyta þessu ekki nú, er því að raska stórlega því hlutfalli, sem Alþ. hefur viðurkennt, að sé rétt. Ég vænti þess því, að hv. þm. samþ. þessar uppbætur, þar til þær verða ákveðnar í fjárl. eða endurskoðun launal. hefur farið fram.