28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3466)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af því, sem hér hefur verið sagt. Mér láðist að taka fram í ræðu minni, hvort ég talaði fyrir flokk minn eða sem einstakur þm. En ég hélt, að hver þm. talaði fyrst og fremst sem persóna, en ekki sem heill flokkur. Og ef þetta mál er borið fram af Sjálfstfl. og Alþfl., þá ætti því að vera greiður gangur í gegnum þingið. En ég vll undirstrika, að ég gekk út frá því, að ég talaði fyrir eigin persónu, og vona, að hv. þm. geti dregið réttar ályktanir af því.

Hv. þm. Barð. taldi rangan samanburð í blaði bandalagsins, að eingöngu þau fyrirtæki, sem greiddu í lífeyrissjóð, fengju 20% uppbætur. Ég sé ekki, að það taki því að tala um þau fáu fyrirtæki, sem mega greiða hærri laun, vegna þess að störfin eru talin ótryggari, en störf fastra embættismanna. Og það er blekking, er hv. þm. Barð. talar aðeins um þá, sem eru hæst launaðir, en minnist ekki á hina, sem eru lægst launaðir, eins og t. d. bílstjórar, sem hafa 1.850 kr. á mánuði, eða stúlkurnar, sem vinna við flöskuþvott og hafa 1.200–1.400 kr. á mánuði. Þegar verið er að mæla á móti till., eru þeir teknir sem dæmi, er skarað hafa eld að sinni köku, en gengið fram hjá hinum, sem hafa svo lág laun, að þeir hafa ekki möguleika til að lifa á þeim.