19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3483)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Frsm. 2. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og þskj. og ræður þær, sem hér hafa verið fluttar, bera með sér, klofnaði fjvn. í þrennt um þessa till. Meiri hl., 6 nm. af 9, leggur til, að hún verði felld, 2 nm. leggja til, að hún verði samþ. óbreytt., en ég legg til, að hún verði samþ. með þeirri breyt., sem greinir á þskj. 120.

Þegar launal. voru sett 1945, var búið að standa margra ára stríð um það, hvort skipuleggja ætti kerfisbundið laun opinberra starfsmanna. Með þessum l. var því máli komið í viðunandi horf, að því er kalla má, hvað ástandið snerti þá. Hinu verður tæplega neitað, að síðan hafa orðið þær breytingar á verðlagi í landinu. að hvað snertir alla hina lægri launaflokka, þá er tæplega mögulegt fyrir þá, sem hafa ekki aðrar tekjur en samkv. launal., að lifa á þeim launum eins og dýrtíðin er núna. Það er þetta atriði, sem mér virðist vera stærsta atriðið í því, hvernig á að fara með þetta mál núna, og mér virðist, að samkv. framkvæmd þeirrar till., sem samþ. var 18. maí í vor, hafi þetta atriði ekki verið tekið nægilega til greina. — Þegar maður lítur á launastigann eins og hann er í núgildandi launal., rekur maður augun í það, að þar er mikill munur á hinum ýmsu launaflokkum. Lægsti launaflokkurinn er með 3.600 kr. grunnlaun á ári, þ. e. 10.800 kr. með vísitölu, og hæsti launaflokkurinn er með 15.000 kr. grunnlaun, eða 45.000 kr. Það liggur í augum uppi, að það er gífurlegur munur fyrir fjölskyldu að lifa á launum heimilisföður, sem hefur 1.8000 kr. í árslaun, eða t. d. launum eftir 6. flokki, sem eru 30.600 kr., og enn þá meiri verður munurinn á 15. flokki, sem hefur 14.400 kr., og 1. flokki, sem hefur 45.000 kr. á ári. Þetta atriði verður að athuga alveg sérstaklega, þegar rætt er um það að greiða uppbætur á laun miðað við það að mæta þeirri dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur síðan launalögin voru samþykkt. Það er alkunna, að þegar launalögin voru samþ., þá var farið eftir þeim reglum að meta kauphæðina eftir eðli hinna ýmsu starfa, en það eðli mótast af ýmsum meginþáttum, en fyrsta sjónarmiðið er þó að greiða svo mikið, að heimilisfaðir og fjölskylda hans geti lifað eðlilegu lífi. Eitt starf krefst svo meira náms og undirbúnings en annað, og þeir hafa eytt löngum tíma ævinnar í undirbúningsnám, hafa oft bundið sér þungan skuldabagga. Þá er það og mikið atriði, hvort starfinu fylgir mikil ábyrgð eða ekki, og margt er það fleira, sem veldur því, að launastiginn er misjafn. En þegar það er athugað, hvernig greiða eigi launauppbætur, en það er það, sem hér um ræðir, þá er það fyrst og fremst einn þátturinn, sem hefur breytzt, en það er lífeyririnn sjálfur, sem þarf að hækka vegna verðhækkunar á lífsnauðsynjum, og það er því furðulegt að vilja greiða þessa uppbót hlutfallslega jafnháa til manns, sem hefur 14.400 kr. í árslaun, og manns, sem hefur yfir 42.000 kr. í árslaun. Það er einkennilegt að telja, að manni, sem hefur 14.400 kr., nægi 2.280 kr. í uppbót, ef hinn þarf nauðsynlega að fá 8.400 kr., svo að árslaun hans fari alls yfir 50.000 kr. Það sýnist ekki þurfa að þrefalda uppbótina hjá þeim, sem hærri launin hefur, þótt hann hafi haft þrefalt hærri laun áður. Á þessum grundvelli og með þessum rökstuðningi flyt ég brtt. mína um að greiða 20% uppbót á laun þeirra, sem hafa allt upp í 7.800 kr. í grunn, það er 16.–9. flokkur, eða 27.990 kr. með verðlagsuppbót. Þessi flokkur fær 4.590 kr. í hækkun, og sé ég ekki betur, en þegar svo hátt er komið, þá sé sanngjarnt, að uppbótin stiglækki úr því. Það er engin ástæða til að veita þeim, sem hefur 42.000 kr. í árslaun, allt að 9.000 kr. í uppbót, ef hinn, sem hefur aðeins 18.000 kr., á að fá um 2.000 kr. og kemst aðeins í ca. 20.000 kr. árslaun. Ég veit vel, að þessari till. verður mætt með því að segja, að hér sé verið að raska grundvelli launal., en ég tel raskað anda l., þegar ekki er tekið sérstakt tillit til hinna lægst launuðu. Það má líka spyrja, hver sparnaðurinn yrði, ef mín till. yrði samþ., en ég hef ekki fyrir hendi fullnægjandi upplýsingar um það, þar sem fjvn. hefur ekki fengið upplýsingar um, hve mikið hafi verið greitt eftir hverjum flokki. Þessar upplýsingar ætti þó að vera hægt að fá, en þess ber þó að gæta, að utan launal. eru ýmsar stofnanir, svo sem bankarnir o. fl. En ég vil benda á, að miðað við mína till. um að láta uppbótina stiglækka um 1,5% við hvern flokk, sem er ofan við 7.800 í grunnlaun á ári, þá mundi það á 10 starfsmönnum úr hverjum flokki muna yfir 1/4 millj. kr. á ári. Hygg ég því, að af till. minni mundi fást verulegur sparnaður fyrir ríkissjóð, og sá sparnaður kemur eingöngu niður á þeim, sem ekki þurfa fullrar uppbótar við.

Þá vil ég koma inn á það, hvort greiða beri uppbót á aukastörf og risnufé, en það tel ég alveg útilokað, ef till. mín verður samþ. — Þá er eitt, sem hv. flm. hefðu átt að athuga, og það er að ýmsir starfsmenn hins opinbera, sem starfað hafa lengi við ill skilyrði, lifa nú á lágum eftirlaunum. Ef ástæða er til þess að greiða hæst launuðu starfsmönnunum 20% uppbót, þá er sanngirniskrafa að greiða þessum mönnum launauppbót. Því legg ég enn til í brtt. mínum, að þessir menn fái uppbót, sem jafnast við 13. launaflokk. Sé ég ekki, að hægt sé að ganga fram hjá þessu fólki, hvort sem aðrar brtt. verða samþ. eða ekki, en ég trúi fastlega, að það, sem ég hef nú lagt til, sé sú réttasta lausn á þessu máli.