19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3484)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. S-M. (EystJ) að bera fram brtt. við þessa þáltill. Ég tel, að úrlausnir þær, sem hér liggja fyrir, séu ekki sem heppilegastar, eins og nú er háttað. Ég tel ekki rétt, að þarfir og óskir launamannanna séu að vettugi virtar, en ég tel ekki heldur skynsamlegt, eins og nú er háttað í dýrtíðarmálunum, að samþykkja þessa uppbót langt fram á næsta ár, því að óhjákvæmilegt er, að dýrtíðarmálið allt verði tekið til rækilegrar meðferðar á þessu þingi, og þá verða gerðar róttækar ákvarðanir, sem ætla má, að gripi inn í hag flestra þegna þjóðarinnar. Á þessari stundu hygg ég að engir hv. þm. geti gert sér grein fyrir því, hvernig sú niðurstaða verður, og tel ég því hyggilegast, sakir eðlis þessa máls, að þær ákvarðanir, sem teknar kunna að verða, gildi aðeins fyrir þetta ár, sem nú er að líða. Hér hefur verið vikið að framkvæmd till. frá 18. maí s. l. Þá var ég á móti þeirri samþykkt, en við framsóknarmenn fluttum þá brtt., sem var felld, þar sem við vildum fá ýtarlega rannsókn á þessu máli, svo að komið yrði til móts við þá starfsmenn, sem við skarðan kost ættu að búa. Nú hefur verið gefin lýsing á því, hvernig þál. var framkvæmd, og harma ég, hversu þar hefur til tekizt. Við, sem vorum á móti samþykkt þáltill. s. l. vetur, töldum, að hyggilegra væri að snúast öðruvísi við vandanum. Það fékk ekki áheyrn, og því var þessi samþykkt gerð. Við töldum, að með þessu væri verið að greiða götu nýrrar verðbólgu auk þess, að það mundi hafa í för með sér meiri tilkostnað í atvinnulífinu, og hefur reynslan staðfest, að þetta var rétt, og það er ekki hægt að saka okkur um það, að við höfum ekkert viljað nema að vera á móti leiðréttingu á kaupi þeirra, sem bjuggu við skarðan hlut, því að við vildum gera ráðstafanir til þess, að mönnum yrði meira úr sínum launum en ella. Þál. frá 18. maí fór í allt aðra átt, sem fyrir mátti sjá, enda hefur verðbólgan vaxið og minna og minna verður úr hverjum pening, sem menn fá í laun. Því fer fjarri, að við framsóknarmenn séum á móti því að mæta óskum fólksins, og hygg ég, að reynslan muni sanna, að það hefði betur verið gert, ef þannig hefði verið snúizt við vandanum sem við vildum. Nú er gert ráð fyrir skv. þessari till., að greiðsla uppbótarinnar fari fram á komandi ári, eins og á þessu ári. Ég tel það ekki skynsamlegt. Enginn getur sagt um það, hvenær fjárlög verða sett, en við samþykkt þeirra er till. miðuð. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður inni af hendi þessar greiðslur fram til 1. apríl 1950, en hætt er við, að fjárlög verði ekki miklu fyrr tilbúin, en þó miðað sé við 1. apríl, þá er einn fjórði liðinn af komandi ári, og því hefur verið lýst af hv. form. fjvn., hvernig greiðslurnar hafa verið kallaðar inn og ekkert tillit tekið til þarfa manna, heldur hefur launaflokkunum alveg verið fylgt, þannig að sumir fá mörgum sinnum hærri uppbót en aðrir, og hefur hv. 5. landsk. (ÁS) bent á þetta, og telur hann þennan mælikvarða langt frá réttan, og get ég tekið undir það, að þegar greiða á slíkar uppbætur, þá er ekki hægt að miða við skipan launaflokkanna, heldur er það annað, sem þar verður að mega sín meira, en það eru þarfir þegnanna annars vegar, en geta ríkissjóðs hins vegar. Það er því fráleitt að ákveða þessa uppbót óbreytta langt fram á komandi ár, og mþn. í launamálunum hefur starfað á þeim grundvelli, sem er alveg ófullnægjandi, því að ekki hefur verið sýnt fram á, hverjar tekjur landsfólksins yfirleitt væru, heldur hefur verið farið eftir hinni gömlu flokkun launal. Fyrst verður auðvitað að athuga, hverjar tekjur manna eru, og það verður að taka tillit til kjara annarra, fyrst í launagreiðslu, en einnig í aðstöðu til þeirra starfa, sem unnin eru. Þó að, eins og mér heyrðist hjá hv. form. fjvn., greiðslurnar hafi ekki verið framkvæmdar á þann hátt, sem eðlilegastur var, og farið fram úr því, sem Alþingi ætlaðist til, þá tel ég ekki rétt að svipta menn greiðslum fyrir þá sök, að framkvæmdin hefur orðið ððruvísi, en rétt er. Það mundi koma ómaklega við þá, sem við rýr kjör eiga að búa, og þótt finna megi þá, sem búa við enn verri kjör, þá er það léleg röksemd gegn málinu í sjálfu sér, og væri nær að reyna að bæta kjör þeirra verst stöddu, en ætla að fjölga þeim hópi manna, sem býr við þröngan kost. Það er upplýst af hv. fjvn., að uppbótargreiðslurnar fyrir desembermánuð munu nema um einni milljón króna. Það felst og í till. okkar, að þessu fé sé þannig varið. En það er einnig sjónarmið okkar að ákveða uppbótina aðeins fyrir desember, en við sjáum ekki ástæðu til að breyta fyrirkomulaginu fyrir þennan eina mánuð. En athugun á dýrtíðarmálunum kostar mikla vinnu og tekur langan tíma. Það liggur ekkert fyrir enn um það, hvernig snúizt verður við þeim miklu vandamálum, sem nú bíða úrlausnar, en á meðan svo er, hygg ég, að bezt sé að slá á frest að ákveða í þessu máli lengra fram í tímann, en til áramóta. Það má vel vera, að einhverjum kæmi betur, að ákvörðun væri tekin um þessa uppbót lengra fram í tímann, og mörgum sjálfsagt veitir ekki af henni, en það geta bara fleiri aðilar sagt það sama, og mikill vandi að meta, hvar þörfin er mest. En hvað sem því líður, þá geta víst allir orðið sammála um, að ekki verður endalaust hægt að halda áfram að hækka kaup, og ætti þm. ekki sízt að vera ljóst, að sú leið er ekki fær lengur. Þess vegna verður að leita annarra ráða til að sjá hag landsmanna borgið og um leið hag þjóðarinnar í heild. Ég vil því vænta, að þm. geti fallizt á brtt. okkar 1. þm. S-M., en hún felur í sér till. um, að launauppbót verði greidd til áramóta, en frekari ákvörðun verði látin bíða, þar til leiðir verða ákveðnar út úr þeim ógöngum, sem þjóðin er í. Ég vona líka, að starfsmenn ríkisins séu ekki svo einsýnir á sínar óskir og sína hagsmuni, að þeir geti ekki fellt sig við þessa afgreiðslu málsins nú, þar sem fyrir liggur óhjákvæmileg nauðsyn og aðkallandi þörf á, að öll efnahagsmál þjóðarinnar og þar með bæði kaup og kjör stétta og einstaklinga verði tekin til athugunar og teknar ákvarðanir um það, hvernig úr vandanum skal ráða. Ég álít það ekki skynsamlegt og fyrir starfsmenn ríkisins ekki hyggilegt, að ákvörðun um þeirra kjör sé tekin nú, meðan allt er í óvissu um kaup og kjör annarra stétta og afkomu þjóðarbúsins í heild. Það væri margt hægt að minnast á í sambandi við þetta mál, en þar sem okkar till. gerir ráð fyrir, að lausn þess biði annarra vandamála, sem væntanlega koma bráðlega til umræðu, þá ætla ég að láta frekari umræður af minni hálfu bíða. Af sömu ástæðum ætla ég ekki að fara lengra út í að rökræða viðhorf þjóðarinnar í heild. Hins vegar vil ég, áður en ég lýk máli mínu, drepa aðeins á till. 5. landsk. Það er sennilega fyllsta sanngirni í að mæla með greiðslum til þess fólks, sem þar er gert ráð fyrir, og kannske hefur það mesta þörf allra til þess að fá einhverja viðbótargreiðslu við það, sem nú er. En þar sem svo margt er óráðið, en verður væntanlega afgert á komandi ári, held ég, að rétt sé eða nauðsynlegt að láta ákvörðun um það einnig bíða, enda þótt ég viti, að þar eiga ýmsir hlut að máli, sem þörf hafa fyrir frekara liðsinni, en þeir nú hafa haft.

Ég ræði þetta svo ekki frekar, en vil að lokum segja það, að verði þetta allt virt að vettugi og þessi þáltill. knúin í gegn, þá virðast mér þeir þm. ekki svartsýnir á viðhorfið, eins og þó atvinnuvegirnir standa nú eftir þeim lýsingum, sem gefnar hafa verið. Og með hliðsjón af því þarf mikla karlmennsku til að afgreiða till. eins og hún var borin fram. Ég veit þó ekki, hvort kjarkurinn er eins mikill og framburður till. sýnir, ef allar aðstæður eru athugaðar. Ég vænti þess, að alþm. sýni aðgæzlu og fallist á brtt. okkar, sem borin er fram af heilum hug, en þó með nokkurri varúð.