19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er ekki venja mín að kveðja mér hljóðs bara til þess að gera grein fyrir atkv. mínu, en engin regla er án undantekninga, og nú stend ég upp aðeins til að gera grein fyrir skoðun minni á þessu máli, því að ég geri ráð fyrir, að afstaða mín verði á ýmsum stöðum ekki vinsæl og þess vegna ekki vanþörf á að gera grein fyrir henni til þess að forðast allan misskilning. En þessi afstaða mín til þáltill. er sú, að ég mun greiða atkv. á móti henni, í hvaða mynd sem hún er borin upp. Ég játa að vísu, að það er ekki sama, hvort till. er samþ. óbreytt eða með brtt. 1. þm. Árn. og 1. þm. S-M., en samþykkt þeirrar till. breytir þó engu um niðurstöðu mína. Meginástæðan til afstöðu minnar er sú, að mér er fullkomlega ljóst og fleiri hljóta að sjá, að eins og nú horfir, getur ríkissjóður ekki innt af höndum þessar greiðslur. Ég skal ekki fullyrða. nema íslenzka ríkið hafi enn það lánstraust, að taka megi lán til að greiða þær upphæðir, sem hér er farið fram á, en öðruvísi verður það ekki gert, nema lagðir verði á nýir skattar, og þá leið munu fáir telja færa. Þetta er meginástæðan til afstöðu minnar. Ég viðurkenni, að ýmsir starfsmenn ríkisins hafa ef til vill mikla þörf fyrir meiri tekjur, en svo munu fleiri í þessu þjóðfélagi geta sagt, og vel gæti ég trúað, að þeir tímar séu ekki langt undan, að allar stéttir verði að draga nokkuð úr kröfunum til lífsins.

Önnur ástæðan til afstöðu minnar er sú, hvaða aðferð hefur verið notuð í sambandi við þetta mál, en tel ekki ástæðu til að rekja það, því að frsm. fjvn. hefur gert það svo rækilega.

Þessari till. var í upphafi varpað inn í síðasta þing síðasta starfsdag þess, algerlega undirbúningslaust, rædd þar um nótt og afgreidd án þess að hún væri athuguð í nefnd, eins og venja er um öll stórmál. Það er annars einkennilegt, hvernig nú er farið að við afgreiðslu mála. Þó að um sé að ræða svo og svo margra milljóna króna greiðslur úr ríkissjóði, er látið nægja að bera málið fram í þáltill. og afgreiða það án nál. Þetta kemur illa heim við afgreiðslu fjárl., þar sem ekki þykir fært að samþykkja eitt þúsund kr. fjárveitingu nema fjvn. samþykki. Af þessum ástæðum öllum get ég ekki fallizt á meðferð málsins. Ef það þykir nauðsynlegt að hækka laun opinberra starfsmanna, þá á að hækka þau með breytingu á launal., en ekki á annan hátt. Og fjárfúlgur eins og hér er um að ræða á alls ekki að ræða með þingsályktun. Í þriðja lagi er svo talað um, að hér sé aðeins um samræmingu að ræða miðað við aðrar stéttir. En hafa það ekki verið rökin fyrir öllum kaupkröfum allt frá því að launalögin voru sett? Þá þurftu aðrar stéttir að fá hækkun á launum til samræmis við opinbera starfsmenn, en nú er það hið gagnstæða, og eru það ekki einmitt þessar stöðugu samræmingar, sem skapað hafa það ástand, sem þjóðin nú glímir við? Það er að vísu æskilegt, að allir Íslendingar hafi góðar tekjur, en þegar þjóðartekjurnar nægja ekki fyrir því kaupi, sem krafizt er í seðlum, þá verður afleiðingin sú, að verðgildi peninganna lækkar og kjarabæturnar verða engar, þó að krónutalan sé aukin. Ég tel því, að hér sé um algerlega ranga leið að ræða, en skal ekki fara lengra út í það mál að þessu sinni. Hins vegar vil ég taka undir það, sem 1. þm. Árn. (JörB) vék hér að áðan, að hefði þjóðin kunnað fótum sínum forráð, þá hefði verið stefnt að því, að fólkinu yrði meira úr hverri krónu, í stað þess að rýra stöðugt verðgildi peninganna. Það verður kannske ég einn, sem greiði atkv. gegn þessari þáltill., en sannfæringu minni verður ekki haggað.