19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3489)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur, eins og vænta mátti í þessum umr., verið minnzt á störf þeirrar n., sem fjmrn. skipaði í s. l. júnímánuði til að rannsaka kaup og kjör starfsmanna ríkisins, samkv. þáltill. frá 18. maí í vor. Ég átti sæti í þeirri n., og eins og ég skýrði frá við fyrri umr. þessa máls, sagði ég mig úr n., þegar hún hafði starfað nokkurn tíma, vegna ágreinings um starfsaðferðir. Einn af þeim, sem hefur gert þetta að umtalsefni, er hæstv. núv. atvmrh., sem þá var fjmrh. Og hann lét í dag þau orð falla í ræðu sinni, að ef þau vinnubrögð við þessa rannsókn hefðu verið höfð, sem ég vildi viðhafa, þá hefði starfið hlotið að taka marga mánuði. Þetta er mat hæstv. ráðh. um þetta efni. En ég vildi aðeins láta það koma hér fram, að ég er á allt annarri skoðun, en hæstv. ráðh. Ég tel, að þó sú starfsaðferð hefði verið höfð, sem ég taldi hina einu réttu, með tilliti til þess, hvernig þáltill. er orðuð, þá hefði það ekki þurft að taka n. mjög langan tíma að skila áliti til ráðun. Má í því sambandi nefna það, að n. hafði þegar viðað að sér allmiklu efni til þess að geta gert samanburð á launum ríkisstarfsmanna og tekjum og launum annarra helztu stéttanna í þjóðfélaginu, og það hefði áreiðanlega ekki þurft að taka mjög langan tíma að safna frekari gögnum og vinna úr þeim til þess að gera þann samanburð, ef á það hefði verið fallizt. N. hafði sem sagt aflað sér allmikils efnis í þann samanburð, þegar hæstv. ráðh. kvað upp sinn oft nefnda úrskurð um það, hvernig skyldi vinna. En ég leit svo á, að n. kæmist alls ekki að viðunandi niðurstöðum með þeim vinnubrögðum. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að lengja þessar umr. að sinni.