11.01.1950
Efri deild: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál er sem kunnugt er búið að ganga í gegnum hv. Nd. Í þinghléinu vann ríkisstj. ásamt trúnaðarmönnum sínum og fulltrúum útgerðarmanna að því að finna bráðabirgðastarfsgrundvöll fyrir bátaútveginn, sem gilti fyrst um sinn, og niðurstaðan varð sú að leggja til, að ábyrgðin á fiskverðinu yrði lögfest til miðs maímánaðar. Strax og þing kom saman aftur eftir þinghléið, lagði ríkisstj. fram þetta frv., til þess að sem minnstur tími færi forgörðum til þess að skapa bátaflotanum þau skilyrði, að hann treystist til að leggja í haf. Ég vildi þó geta þess, að ríkisstj. hefur í hv. Nd. lagt sérstaka áherzlu á, að hún ætlast til, að hér verði í rauninni um bráðabirgðalausn að ræða, því að ég býst við, að allir geti orðið sammála um nauðsyn nýrrar skipunar á málum þeim, sem varða útflutningsverzlun landsmanna. Við stöndum svo höllum fæti núna, að ekkert annað en grundvallarbreyting getur myndað þá undirstöðu útflutningsatvinnuvega landsmanna, sem viðunandi sé. Jafnan hefur sú verið fyrsta og helzta krafa bátaútvegsmanna — og var enn í haust, — að ríkisstj. og Alþ. mynduðu þann grundvöll, sem framleiðendur til sjávar gætu unað við. Þetta kann maður manni að segja og hefur oft kveðið við. Þótt við segjum, að reynt hafi verið að tasla við ástandið, þá hefur það ýmsa ókosti í för með sér, útgjöld o.fl., auk þess sem numinn er brott sá hemill öryggis, sem hver atvinnurekandi þarf að hafa til að standa sjálfur ábyrgur fyrir rekstri sínum. Að þessu var þó horfið, að fara ábyrgðaleiðina þetta árið, og á meðan eigi er sýnt, að annað fáist viðurkennt af þ., þykir stj. ekki annað fært, en leggja það til, til bráðabirgða, sem var í frv. Það, er snertir ábyrgðina sjálfa, hefur að vísu haldizt, en þyngzt í fjhn. Nd. og d. sjálfri, þar sem bæði hefur verið hækkað ábyrgðarverðið á saltfiski, og það held ég, að sé réttmætt, en auk þess hefur verið bætt inn ákvæði um að útvega eða leggja hálfa aðra milljón króna fram í nýja kreppu. En ég verð að segja það, að þetta kom aldrei fram í viðtölum og samningum stj. við útgerðarmenn. Því var þetta m.a. eigi tekið í stjfrv., þótt sett hafi verið í það í hv. Nd.

Að öðru leyti hafa miklar breyt. verið gerðar á frv. í hv. Nd., því að gagnstætt því, sem stj. lagði til varðandi tekjurnar, þá hefur Nd. litið svo á, að þess muni eigi verða þörf, og því hafa öll tekjuöflunarákvæðin verið numin brott í hv. Nd. — Ég skal að öðru leyti eigi gera þetta að umtalsefni til annars, en lýsa því. Er það verk annars ráðh., og mun hann væntanlega gera grein fyrir þeirri hlið þessa máls.

Málið gekk annars greiðlega í gegnum hv. Nd., og fjhn. d. hélt því ekki öllu lengur en við mátti búast. Vænti ég, að hið sama verði ofan á í þessari hv. d., svo að telji útvegsmenn sig sæmda af þessu frv. og treysti sér til að hefja atvinnu sína skv. því, og það býst ég við, að þeir geri, þá geti þær brtt., sem þingið vill fallast á bátaútveginum til framdráttar, orðið staðfestar sem fyrst. Ríkisstj. álítur þessa leið bráðabirgðaúrræði og mun leggja áherzlu á að koma fram sem fyrst með tillögur sínar fyrir Alþ. um aðra leið, þá er hún telji betri og geti þá miðað að því að leysa vandamál eigi einvörðungu bátaútvegsins, heldur og togaraflotans, sem gengið er fram hjá í frv. þessu.

Ég ætla mig eigi þurfa að lengja þetta mál. Ég mælist til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn. Þótt það snerti sjávarútveginn, þá hefur sá háttur verið hafður á — og nú enn í hv. Nd. -, að fjhn. fjallaði um málið, m.a. og sérstaklega vegna þess, að gert var í frv. ráð fyrir tekjum. Eru lítils háttar slitur enn eftir af þeim ákvæðum í frv., og þótt það sé lítils virði orðið sem tekjuöflunarfrv., álít ég rétt vera, að það lendi hjá sams konar n. og í hv. Nd.

Ég vil mælast til þess við þá hv. n., sem málið fær til meðferðar, að hún leggi kapp á að afgreiða það hér í d., ef verða mætti til þess, að frv. fengi fullnaðarafgreiðslu í dag eða í kvöld.