19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil fyrst svara hv. 6. landsk. þm. (ErlÞ), sem er frsm. 1. minni hl. n. Hann byggði ræðu sína upp á því, að það bæri að líta á Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sem samningsaðila, sem væri hægt að semja við fyrir Alþ. og ríkisstj., eins og verið væri að semja við verkalýðsfélag. Þetta er misskilningur og gersamlega sagt út í bláinn. Það er einmitt ákveðið, að þessir menn geti ekki notað verkfallsrétt. Þess vegna er alveg útilokað að skoða þetta mál í ljósi verkalýðssamtakanna eða vinnulöggjafarinnar. Ef það stæði í hinum nýju launalögum, að þessir menn hefðu verkfallsrétt, þá mætti tala á þeim grundvelli sem þessi hv. þm. gerði. En enn sem komið er er það Alþ., sem ræður því, hvaða laun eru greidd. Það kann að vera rangt, en meðan því er ekki breytt, er ekki hægt að flytja þetta inn á annan vettvang, en ég tel, að málið hafi verið flutt inn á þennan verkfallsvettvang verkalýðsfélaganna með aðstoð m. a. hv. þm. Hafnf. (EmJ), sem þá sat að völdum sem samgmrh. Það hefur legið svo ríkt í hans blóði, alveg eins og hjá hv. 6. landsk. þm., Erlendi Þorsteinssyni, að það bæri að fara með þetta mál eins og eitthvert verkfallsmál eða verkalýðsfélagsmál. En það er misskilningur, að þannig eigi að fara með það. Og ég er viss um, að þegar þessi hv. þm., jafngreindur og hann er, skilur þetta, þá snýr hann frá villu síns vegar í afstöðu til þessa máls, en mér virðist hann hafa gert það að aðalatriði gagnvart afstöðu sinni til málsins, að félagsskapur starfsmanna ríkisins eigi einhvern verkfallsrétt. Þeir geta að vísu til tekið, hvað þeir vilji vinna fyrir, eitthvað hærra kannske en lög standa til, og gert að vissu leyti verkfall. En þeir verða þá að segja upp sínu starfi, ef þeir vilja ekki vinna fyrir þau laun, sem þeim eru ákveðin með launal.

Svo segir hv. 6. landsk. þm., að ekki hafi mátt raska þeim grundvelli, sem þessi félagsskapur hafi skapað viðkomandi launum þessara starfsmanna. Nú get ég sagt hv. 6. landsk. þm. það, úr því að hann þekkir ekki meira félagsskap þennan en þetta, að þessi félagsskapur skapaði ekki þennan grundvöll 1945, því að 1945 var af stjórnarflokkunum, sem þá stóðu að ríkisstj., gert alveg ákveðið samkomulag um þetta við þennan félagsskap. Hins vegar var það svo, að eftir að launalagafrv. kom inn á þing, sóttu ýmsir einstakir menn úr þessum félagsskap ákaflega fast á með að heimta, að laun þeirra hækkuðu, og það komu ótal brtt. frá einstaklingum þessa félagsskapar, sem miðuðu til þess að raska þessum grundvelli. Ef nú þessi félagsskapur hefði verið á þeim tíma þessi stofnun, sem hv. 6. landsk. þm. talar um, þá átti hann að segja: Nei, kæru félagar! Við bönnum ykkur sem einstaklingum að raska þeim hlutföllum, sem eru í launagreiðslunum, um þær till. ber okkur fyrst að gera okkar samþykktir og koma svo fram með till. samkv. þeim. — En undir meðferð þess máls komu fram brtt., sem gengu langt út fyrir þau takmörk, sem samið hafði verið um á milli réttra aðila um launakjarahlutföll hjá starfsmönnum ríkisins. Og það, að þær till. voru samþ. svo mjög sem gert var, varð til þess, að ég greiddi atkv. á móti frv., af því að þessi félagsskapur, sem hv. 6. landsk. þm. vill skoða sem eðlilegan samningsaðila, sveik það samkomulag, sem hafði verið gert. Og það var hv. Alþfl., sem gekk á undan í því. Það er gott, að hv. 6. landsk. þm. fær að vita þetta. — Nei, það var sannarlega enginn grundvöllur settur fram af hálfu félags launamannanna um launahlutföllin milli þessara manna. Og á fundi hér í Reykjavík, þegar átti að ræða um það, hvar einstakir starfsmenn ættu að standa í launastiganum, varð ekki samkomulag um þetta. Þeir þurftu að láta Alþ. ákveða það, því að sjálfir voru þeir ekki svo félagslega þroskaðir, að þeir gætu ákveðið það.

Þá minntist hv. frsm. minni hl. á framkvæmd till. og sagði með réttu, að miða ætti við breytingar þær, sem orðið hefðu frá 1945. En með úrskurði ráðherra er ákveðið að taka aðeins tillit til hækkana hjá öðrum stéttum, en eins og ég benti á áðan, er þetta algerlega rangt, og sé till. sjálf lesin, er algerlega augljóst, að ekki er átt við þetta með henni, og er því úrskurður ráðh. mjög vafasamur. Ég hef verið ásakaður fyrir að hafa haldið því fram, að rangt hafi verið farið með tölur, en það hefur ekkert verið gert til að afsanna það. Ég hef bent óhrekjanlega á það, að ekki hefur einu sinni verið reynt að sýna fram á það, að hækkunin sé 22%, heldur einhver önnur, sem ég skal koma að síðar. Og svo segir hv. þm., að niðurstöður n. byggist á þessu. En hverjar eru niðurstöður n.? Hefur hv. þm. lesið nál.? En n. segir, að það þurfi einhverja hækkun, en tiltekur ekki, hve háa, og það er allt og sumt. Það er sannarlega ekki veik niðurstaða fyrir hæstv. ráðh. til að greiða út á 4. millj. kr.! Ég skora á hv. þm. að finna annað í nál. en „einhverja hækkun“, en þar er ekkert nánar kveðið á, því að n. hefur fundið veilurnar í sínu eigin starfi.

Þá segir hv. 6. landsk., að bezt sé að samþ. till. nú, því að hún sé aðeins bráðabirgðalausn og að ekki megi raska grundvelli launal. Ef nú væri ástæða til að rannsaka grundvöll launal. frá 1945, og ef sú lausn gæti horft til lækkunar, væri það þá viturleg byrjun að ákveða nú 20% hækkun á launagreiðslur? Og ætli mönnum þætti það betra, þegar launal. verða athuguð eftir nýárið, að færa niður launin, ef áður er búið að samþ. þessa 20% hækkun? En hv. 3. landsk. er einn af þessum kröfugöngumönnum, og ég skil vel, að hann vilji þessa hækkun, því að hún kemur honum að gagni. Hann veit, að ef þetta verður samþ. nú, er það sterkt atriði til að aldrei verður slegið af þessu aftur eða það lækkað.

Hv. 6. landsk. sagði, að ekki væri hægt að ásaka launþega fyrir að taka tvöföld laun, og sagði, að ég hefði verið með ásakanir í þeirra garð fyrir það. En þetta voru engar ásakanir, heldur aðeins óhrekjanlegar staðreyndir, eða heldur hv. þm., að það hafi ekki áhrif á launal., að það hefur staðið í mörg ár, að menn hafa haft alls konar fríðindi sem uppbætur á laun? Ég var því ekki að ásaka starfsmennina, heldur aðeins að bera saman hin raunverulegu laun og laun þau, sem reglugerð mælir fyrir um.

Þá sagði hv. 6. landsk., að úrelt væri að miða við hina lægst launuðu, því að þá fengjust engar kjarabætur. Gaf mín ræða tilefni til þess, eða vill hv. 6. landsk. viðurkenna, að dæmin, sem ég tók, sé um lægst launuðu stéttina? Er þetta viðurkenning á því, að sjómannastéttin sé verst launaða stétt þjóðfélagsins, og ef svo er, þá á að fella þessa till., því að það veltur einmitt á þessum mönnum, hvort hægt er að greiða embættismönnum landsins laun. Grundvöllur þess, að hægt sé að greiða þetta, sem hér er farið fram á, er, að atvinnurekstur geti haldið áfram, en það er ekki hægt, ef þær stéttir, sem að framleiðslunni standa, sjómenn og bændur, eru verst settir, en það er stefna hjá þessum hv. þm. og það, sem þeir vilja láta verða nú, að láta aldrei verða neina ákveðna skiptingu, heldur að pota fram einum, svo að hægt sé að vitna til hans og fá með því hækkun hjá öðrum. Það hefði verið nauðsynlegt að hafa sömu verkalaun um allt land og þá hefði verið öðruvísi ástand í landinu og þá hefði verið kippt af verkamönnum þeim möguleika að hækka í sífellu kaup með kaupsamanburði við önnur verkalýðsfélög. Nú get ég sagt hv. 6. landsk. og hv. 1. flm. og öllum þingheimi, að það bezta, sem B. S. R. B. gæti gert, væri að tilkynna, áður en atkvgr. færi fram, að þeir vildu ekki þiggja þessar uppbætur, og þá væri hægt að líta upp til þeirra, — slík fórn var einu sinni færð af bændum landsins, — ef þeir mundu segja: „Nú er búið að greiða okkur 5 millj. kr., eða einni millj. meira en heimilað var, og nú tökum við ekki meira, fyrr en búið er að endurskoða launal. í heild. — Ég vil biðja hv. 1. flm. að vita, hvort ekki er hægt að fá þessu áorkað við B. S. R. B., áður en atkvgr. fer fram, og ef svo væri, væri hægt að bera virðingu fyrir þeim. Í þessum stéttum eru hæst launuðu embættismenn þjóðarinnar, og það eru engar sönnur fyrir því, að það verði þeim til ávinnings, þó að till. þessi verði kúguð hér í gegnum þingið. Það koma aðrir dagar, og það veit enginn, hvernig fer við endurskoðun launal., og getur vel verið, að það verði þá munað, hversu ósanngjarnlega það var knúið í gegnum þingið á þessum tíma.

Þá vil ég spyrja hv. 6. landsk.: Í hvaða atvinnu sækja menn helzt nú? Til ríkisins. Og það svo mikið, að það úir og grúir af fólki, sem sækir á að komast í slíka vinnu, og alls konar óþörf embætti eru stofnuð til að fullnægja kröfum þessa fólks. Bendir það til, að laun þar séu of lág? Gott dæmi um það, að embætti hafi verið stofnuð að óþörfu í þessu skyni, er Atvinnudeild háskólans, en þar vildi svo til, að allmargt ungra manna kom heim frá námi erlendis, þar sem ríkið hafði kostað þá til náms, og síðan voru stofnuð handa þeim embætti við atvinnudeildina. Það er því sennilega engin stétt, sem eins er sótzt eftir að komast inn í og embættismannastéttin hjá ríkinu, og það er sá draumur, sem bændur, verkamenn og sjómenn stefna að, að koma börnum sínum í skóla, svo að þau geti komizt í embætti hjá ríkinu, sem nú er verið að kveina yfir, að séu svo lágt launuð og hv. 3. landsk. sagði, að enginn vildi, þó að hann sitji sjálfur í slíku embætti og vilji þaðan hvergi fara. Ég get sagt hv. 6. landsk. í sambandi við það, sem hann sagði áðan, að Alþýðuflokksmenn hafa ekki verið neinir eftirbátar annarra í því að sækjast eftir að komast í embættismannastétt, heldur reynt að troða sér þar inn, sem þeir hafa getað, og sýnir það bezt, að kjör þar eru ekki svo slæm sem þeir vilja vera láta, því að varla eru þeir að seilast eftir því versta.

Út af framsögu 2. minni hl. hef ég ekki margt að segja, hvorki um till. né framsöguræðuna. Hv. frsm. sagði, að stærsta atriðið í þessu væri það, að lægst launuðu stéttirnar gætu ekki lifað af launum sínum vegna dýrtíðarinnar í landinu. Ég fullyrði ekkert um, hvort þetta er rétt eða rangt, en ég vll benda á það, að þær stéttir, sem treyst er á til að halda uppi atvinnulífi í landinu, eru verr settar, þannig að bændur hafa 42 aurum lægra kaup um tímann og sjómenn álíka hátt kaup og menn í 13. fl. launal., svo að þetta rekst nokkuð á það, sem hv. þm. segir. Að sumu leyti á till. rétt á sér, ef þetta væru menn, sem ekki gætu lifað af launum sínum, sem ég ekki viðurkenni, og væri þannig verið að bjarga þeim frá sveit, þá gæti ég verið með till., en þar sem ég tel ekki, að svo sé, er ég henni andvígur. En þetta er að því leyti betri till., að hún kostar ríkið minni fjárútlát en hin till.

Ég vænti þess, að atkvgr. verði ekki látin fara fram fyrr en meiri hl. hefur getað athugað framkomnar till. og athugað, hvort hann getur fallizt á þær, en það, sem frá mínu sjónarmiði er verst í till., er það, að gert er ráð fyrir 20% hækkun á launagreiðslum áfram, en það er hærra, en Alþ. gerði ráð fyrir á sínum tíma, og er ég algerlega á móti því. Ég sé mér ekki fært að lofa fyrir meiri hl. n. að fylgja neinni af fram komnum till., en mun kalla saman fund í n.. Ég hefði haft tilhneigingu til að fylgja 2. málsgr., en af því að till. hafa í för með sér stóraukin útgjöld, án þess að sýnt sé, að tekjur komi á móti eða dýrtíðarmálin verði rædd í heild, sé ég mér það ekki fært.

Hæstv. atvmrh. sagði, að þetta væri ekkert annað en einn liðurinn í kapphlaupinu, sem öll þjóðin tæki þátt í. Ég get tekið undir þau orð, sem hinn ágæti skólamaður Sigurður Guðmundsson, fyrrv. skólameistari, viðhafði fyrir nokkru, að raunar væri öll þjóðin í kröfugöngu. En hefur þjóðin trú á því, að þessi kröfuganga sé til hagsbóta fyrir hana? Er ekki reynslan búin að sýna, að þetta er allt blekking og raunar ekki annað, en verið er að klippa 10 kr. seðil í marga parta? Ég get ekki skilið, hvernig hæstv. ráðh. getur fylgt þeim till., sem hann hefur lýst svo. Mér finnst stangast á orð og athafnir hjá hæstv. ráðh. Hæstv, atvmrh. sagðist hafa reynt að hafa áhrif á, að fjárl. væru afgreidd tekjuhallalaus, eins og rétt var, á s. l. Alþ., en bæði hann og meiri hl. þeirra hv. þm., sem studdu þáv. hæstv. ríkisstj., stóðu að samfylkingu við afgreiðslu fjárl. um að hækka útgjöld allverulega, og það var aðeins fyrir harðvítuga baráttu mína, að ekki varð stórhneyksli að afgreiðslu þingsins á fjárl. og að tekinn var til baka fjöldi till., sem horfðu til hækkaðra útgjalda, og er þetta sú harðvítugasta barátta, sem ég hef háð síðan ég kom í þingið til að bjarga sóma fjvn., Alþ. og ríkisstj., sem vildi ganga í þetta fen, sem leitt hefði til stórtjóns. — Hæstv. ráðh. sagði, að gætt hefði mikils ofurkapps hjá andmælendum þessa máls, en ég held, að það hafi gætt meira ofurkapps hjá þeim, sem voru máli þessu fylgjandi 28. maí í vor, og þá ekki sízt hjá hæstv. ráðh. sjálfum, sem gekk þá frá stefnu sinni. En ég hef ekkert vikið frá minni stefnu og held henni nú fram af meira öryggi en þá, því að ég sé, að hin stefnir út í fenið, og tel skyldu mína að benda á þetta. En ef hv. þm. vilja taka á sig þessa ábyrgð, verða þeir að svara fyrir það hjá þjóðinni.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki hafa getað staðið á móti kröfum símamanna. Hverjar voru þessar kröfur? Ég hef spurt símamálastjóra, en kröfur þeirra voru ekki að hans sögn aðrar en að uppbæturnar væru greiddar með 5 jöfnum afborgunum. Ég hef beðið um samninga þá, sem vitnað hefur verið í, en það virðast ekki vera til aðrir samningar en munnlegir. Ég hef spurzt fyrir um það, hverjar þessar kröfur séu, en ekkert svar fengið við því. Og hverjar eru þá þessar sterku kröfur? Hæstv. ráðh. sagðist ekki hafa viljað taka á sig þá hættu, sem það hefði getað orsakað að verða ekki við þessum kröfum, og þeir, sem voru hér í júlí, ættu að vita, hvaða viðurlög og hótanir komu frá símamönnum, ef kröfum þeirra væri ekki sinnt. Vita hv. flm. þessi viðurlög og hótanir, og þætti mér vænt um, ef það kæmi beint fram, meðan till. er enn á dagskrá. N. hefur spurt um þetta alls staðar, en ekkert svar fengið. Var það hótun um að taka af þeim flibbana eða hvað? Og hafa þeir ekki fyrirgert rétti sinum til uppbóta, ef þeir hafa verið með hótanir um öngþveiti í landinu? Ég held, að það væri rétt, að hv. þm. fengju að vita þetta fyrir atkvgr. Vilji Alþ. náði aldrei nema til 4 millj. kr. fjárveitingar og það með vissum skilyrðum, sem aldrei voru haldin, svo að vilji Alþ. liggur ekki á bak við þetta, svo að eitthvert annað afl, sem ekki er nefnt hér, stendur á bak við þetta allt.

Hæstv. atvmrh. og hv. 3. landsk. voru að mótmæla óverðskulduðum ummælum mínum um mþn. Ég var ekki með neinar ásakanir á n., en sýndi fram á, að söfnun gagna hjá n. hefði ekki verið eins og hún hefði átt að vera, til þess að hægt hefði verið að ganga frá till. í málinu, og réð n. því ekki við málið, og urðu útreikningar og niðurstöður því ekki rétt. Ég vil mótmæla þeim ummælum hæstv. ráðh., að ég hafi verið með óverðskuldaðar ásakanir á n. Ég krefst þess, að hv. 1. flm. upplýsi — því að hann hlýtur að vita það, úr því að hann ber till. fram — hver þessi óhöpp eru, sem áttu að verða, ef ekki var gengið inn á uppbætur. Alþ. á sannarlega heimtingu á að fá að vita, hvað skeði bak við tjöldin. Hæstv. ráðh. mótmælti því, sem ég hélt fram, að Bandalagið hefði aldrei gert till. um 20% uppbætur. Ég hafði þetta beint frá Ólafi Björnssyni. Hann fullyrti, að Bandalagið hefði aldrei farið fram á annað en að þetta yrði borgað í fimm jöfnum afborgunum. Nú fékk ég afrit í kvöld af bréfinu, sem hæstv. ráðh. las upp, og hér stendur „að greiða 20% á öll laun samkvæmt launalögum.“ Það hefur verið tilhneiging í þá átt að blanda saman þessum 20% uppbótum á launin og því fé, sem átti að skipta í fimm jafna parta. En þessu átti hæstv. fjmrh. að mótmæla strax, því að það er ekki hægt að skipta 4 millj. þannig, að úr þeim verði 20% mánaðarlegar uppbætur miðað við heilt ár. Bandalagið hefur aldrei gert slíkar till., og ef þær hefðu komið, var fyllsta ástæða til að senda þær til baka. Bréf rn. sýnir, að það er rétt, sem ég sagði. Hví hætti ekki stj. að greiða þessar uppbætur 1. nóv.? Hvers vegna sagði hún ekki við Bandalagið: Nú er búið að greiða það, sem greiða átti, og nú verður greiðslunum hætt? Var það vegna þess, að hún þorði það ekki, vegna þess að ástandið var þannig, að það mundi hafa skapað óhöpp, eins og hæstv. ráðh. sagði? En halda menn þá, að hægt verði að stöðva þetta við afgreiðslu fjárlaganna? Verður ekki hætt við sömu óhöppum í marz eða apríl, þegar fjárlög verða afgr.? Það er ekki nokkur efi á því, að kröfurnar munu þá koma með enn meiri þunga. Það er því rétt, sem meiri hl. fjvn. hefur sagt, að með þessu yrði skapað fordæmi um að taka við 12–14 millj. kr. greiðslum úr ríkissjóði.

Hæstv. ráðh. sagði, að málið hefði verið tekið til meðferðar í stjórninni í nóv. og að stj. hefði verið sammála um lausn þess, svo að enginn einstakur ráðh., ekki heldur fjmrh., bæri ábyrgð á afgreiðslu þess. Ég hef líka gert alla stjórnina ábyrga og upplýst, að öll stjórnin ber ábyrgðina. Stjórnin virðist hafa verið sammála um, að nauðsynlegt hafi verið að gera þessa hluti. Svo segir hæstv. ráðh., að samþykkt till. í vor hafi skapað grundvöll fyrir þessar greiðslur. Ég mótmæli því, að sú samþykkt hafi skapað grundvöll fyrir áframhaldandi greiðslur. Hins vegar treysti stj. sér ekki til að stoppa greiðslurnar. Með þessari till., sem nú er til umr., er aftur á móti lagður grundvöllur að áframhaldandi greiðslum allt næsta ár og meiri kröfum í framtíðinni. Till., sem samþ. var í vor, hefur ekki skapað fordæmi fyrir hærri uppbótum en 8,33%, og hafi nokkur skapað fordæmi fyrir 20% uppbótum á mánaðarlaunin, er það fyrrv. stj. Nei, ég get ekki fallizt á slíkar röksemdir, og mér þykir gott, að hæstv. ráðh. hefur ekki reynt að hrekja mínar röksemdir, enda er það ekki hægt. En sumir aðrir hafa reynt það, og skal ég nú koma að þeim.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að ég hefði lagt annan skilning í till. en þann rétta. Ég vil benda hv. þm. á, hvernig till., sem samþ. var 18. maí, hljóðar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar rannsaka, hvort rétt sé, að kaup og kjör starfsmanna ríkisins eftir launalögum séu nú mun lakari, en annarra starfsstétta, vegna kauphækkana þeirra og kjarabóta eftir setningu launalaganna 1945, og ef svo reynist, heimilar Alþ. ríkisstj. að verja allt að 4 millj. kr. úr ríkissjóði til greiðslu uppbóta á laun starfsmanna ríkisins á yfirstandandi ári. Ríkisstjórnin ákveður í samráði við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hverjir fái uppbætur greiddar og eftir hvaða reglum.“

Í till. stendur: vegna kauphækkana annarra starfsstétta, en það hefði eins mátt segja: þrátt fyrir kauphækkanir annarra stétta. Það, sem þurfti að rannsaka, var, hvort kaup og kjör þeirra voru lakari en 1945, og hvernig þá voru kjör þeirra, sem síðan hafa fengið 43% og upp í 50% hækkun. Það var þetta, sem þurfti að rannsaka. Hv. flm. hefur ekki gert tilraun til þess að hrekja mín gögn í málinu. Hann byggði allt á því, að ekki væri rétt að skoða till. frá þessu sjónarmiði, og svo sagði hann, að hæstv. ráðh. hefði kveðið upp þann eina rétta úrskurð í málinu. Hvaðan hefur hv. þm. fengið vald til að halda slíku fram? Þm. Barð. hefur sagt, að úrskurðurinn væri vafasamur, en hann hefur ekki sagt, að hann væri sá eini rangi. Svo kemur hér lögfræðingur og sonur lögfræðings og segir, að úrskurður ráðh. sé hinn eini rétti úrskurður. Nei, úrskurður hæstv. ráðh. er mjög vafasamur. — Hv. þm. segist vonast eftir nál. í janúar. En hvers vegna er þá ekki beðið þangað til nál. kemur fram? Lá svo mikið á, að ekki mætti bíða? Ég verð að segja, að ef það eiga að teljast réttlátar kröfur, að þetta verði ákveðið nú þegar, þá veit ég ekki, hvað réttlæti er. Það var full ástæða fyrir hv. flm. að taka till. aftur, eftir að hann vissi, að von var á nál. í janúar. Allt, sem komið hefur fram, styrkir álit og málstað n. Ég býst við, að til séu upplýsingar í tonnatali, sem flm. vilja ekki að komi fram, en það hrökk óvart út úr hv. þm., að það væri ekki ætlazt til, að þær kæmu fram.

Hv. þm. segir, að þetta muni ekki kalla á almenna launahækkun. Veit hann ekki, að sérhver launahækkun hefur nýja í för með sér? Er hv. þm. það mikið barn, að hann haldi, að þessar 12 millj. kr. kalli ekki á nýja dýrtíðaröldu, hvað sem öllum yfirlýsingum Alþýðusambandsins liður? Mér dettur ekki í hug að halda, að hv. 1. flm. og hv. 3. landsk. geri sér í hugarlund, að hægt sé að trúa slíkum yfirlýsingum. Það er ekki hægt að taka þá menn alvarlega, sem halda því fram, að þessi 12 millj. kr. útgjöld skapi ekki nýja dýrtíð, jafnvel þó að þeir séu prófessorar í hagfræði.

Þá sagði hv. þm., að það væri rangt, að eina kjaraskerðingin, sem orðið hefði, væri stýfing vísitölunnar. Það er sú eina kjaraskerðing, sem stjórnin og Alþ. hefur gert, að launagreiðslur skuli miðaðar við 300 stig, og þetta hefur víða verið bætt upp með fríðindum og eftirvinnu. Og verði sú till., sem hér liggur fyrir, samþ., verða launagreiðslur til opinberra starfsmanna eins háar og miðað væri við 360 stig í stað 300, eða 20 stigum hærri, en vísitalan er í dag. Ég öfunda ekki þá stjórn, sem tók við völdum til þess að stöðva dýrtíðina, en rífur niður sín eigin verk og ætlar að þvinga þetta með offorsi gegnum þingið rétt fyrir jólin.

Hv. þm. sagði, að óeðlilegt væri að byrja að greiða uppbætur og láta þær svo falla niður. En hvers vegna er hann ekki með till. hv. þrn. Árn.? Ætla þessir hv. þm. að vera á móti því, að þetta verði fellt niður við afgreiðslu fjárl.? Er ætlunin sú, að greiða eigi þetta allt næsta ár? — Þá vildi ég spyrja hv. þm. að því, hvort hann telur, að orðalag till. fái staðizt. Fjvn. vildi ekki bera fram brtt., af því að hún vill, að till. sé felld, en hér stendur: „Alþ. ályktar að heimila ríkisstj. að halda áfram að greiða til bráðabirgða sömu uppbót á mánaðarlaun starfsmanna ríkisins og greidd hefur verið frá 1. júlí s. l. á grundvelli ályktunar Alþ. frá 18. maí s. l., þar til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1950 er lokið.“ Hver er grundvöllur till. frá 18. maí? Það hefur þegar verið farið langt út fyrir þann grundvöll, og samkvæmt honum ætti ekki að greiða eyri meira, heldur krefjast þess, að það, sem greitt hefur verið fram yfir 4 millj. kr., verði endurgreitt. Ég skil ekki, hvernig hægt er að samþ. þetta. Grundvöllur till. frá 18. maí er sá, að greiddar verði 4 millj. kr. fyrir allt árið 1949. Verði till. samþ. og greiðslunum haldið áfram, þá verð ég að halda jafnlanga ræðu aftur, því að fyrir því er enginn grundvöllur, eins og till. er orðuð nú, nema þá í hæsta lagi að greiða 8,3% til 1. jan. Svo sé ég ekki ástæðu til að ræða frekar við hv. 1. flm.

Ég kem þá að hv. 3. landsk. Hann segir, að grunnkaup stéttarfélaga hafi hækkað um 22.58%. Þetta er rangt. Hér í þessari skýrslu er fyrst talað um, að í 1. flokki verði hækkunin 22.2%, og það er talað um þetta sem hávísindalega vegið meðaltal. Nú er þetta fengið þannig, að teknir eru 1.833 verkamenn, sem fengið hafa 25.75% hækkun. En er þetta nákvæmlega sú tala verkamanna, sem kauphækkun hafa fengið? Nei, hv. þm. getur ekki fullyrt það, og þá er ekki hægt að reikna með þessu meðaltali. Ef reiknað er með 5–6 þús. verkamönnum, er líklegt, að allt annað komi út. (GÞG: Veit ekki hv. þm., hvernig vísitalan er reiknuð út?) Það kemur ekki þessu máli við. Það er ekki hliðstæður útreikningur. Hér er aðeins reiknað með Reykjavík. Hafa þessir menn aldrei séð annað en Reykjavík? Hagfræðingur, sem tekið hefði þetta vísindalega, hefði að minnsta kosti brugðið sér til Vestmannaeyja eða Hafnarfjarðar. Í þessum flokki er munurinn að vísu ekki mikill á mínum útreikningum og þeirra. Ég fæ 21.39, en þeir 22.20, en í öðrum flokkum er munurinn meiri. Hv. þm. getur ekkert fullyrt um meðallaunahækkunina eftir þessum útreikningi, og hækkunin getur aldrei orðið 22.58% samkvæmt honum.

Hv. þm. sagði, að launalögin 1945 hefðu verið réttur mælikvarði, að áliti meiri hl. Alþ. þá. Ég hef áður lýst því, hvernig málið var afgreitt, og þar var sannarlega ekki um réttan mælikvarða að ræða. Ég vil benda hv. þm. á, að varla mun finnast sá þm., sem viðurkenni ekki, að sumir flokkar voru mjög óeðlilegir. Í jafnflóknu máli er erfitt að finna réttlátan mælikvarða, og afgreiðsla Alþ. 1945 verður aldrei talin réttlátur mælikvarði. Hv. þm. sagði, að rök sín væru einföld. Það má vera, en þau eru líka veigalítil og fá ekki staðizt. Hann sagði enn fremur, að ég hefði haldið minni stefnu síðan 1945, þá hefði ég verið á móti launalögunum og væri það enn. Ég skal geyma það að ræða við hv. þm. um launalögin sjálf og hvort ég álíti, að launin séu of há eða lág, en ég hef sýnt fram á, að þessi aðferð er óverjandi.

Svo sagði hv. þm. þessi skemmtilegu orð, að það væri undarlegt, ef það reyndist svo, að meiri hl. þm. hefði skipt um skoðun síðan 1945. Hefur hv. þm. gleymt því, að farið hafa fram tvennar þingkosningar síðan 1945 og að Alþfl. er búinn að týna mörgum þm. síðan og nýir hafa komið í þeirra stað, sem ekki eru kannske á því, að þeir séu skyldugir til að bera sömu handjárnin og á þeim voru, sem fóru? Eða er þetta einhvers konar erfðaréttur eða skylda, að handjárnin gangi frá einum til annars? En ég vil annars biðja menn að meta athugasemdir hv. þm. eftir þeim mælikvarða sem hann lagði á þetta sjálfur. Hann sagði, að eini rétti mælikvarðinn væri sá, hvað aðrir aðilar greiða sínum starfsmönnum. Nú vil ég benda á, að þegar ákveðin voru laun til starfsmanna fjárhagsráðs, þá þótti sjálfsagt að fara með þau laun svo hátt vegna þess, að mennirnir höfðu enga tryggingu fyrir því, að þeir yrðu lengi viðloða sitt starf, því að vitaskuld gegnir um slíkt annað mat en um störf, sem mönnum eru tryggð alla ævi hjá ríkinu, þegar líka þar við bætist, að þeir menn, sem starfa í ríkisembættum, hafa við starfsundirbúning sinn verið kostaðir af ríkinu að miklu leyti og t. d. fengið skattaívilnanir og styrki til náms, bæði í menntaskóla og háskóla, að ég nú tali ekki um það frjálsræði, sem þessir menn ýmist hafa í störfum sínum eða hreint og beint taka sér, svo að þeir gegna oft öðrum störfum jafnframt. Þá fá þeir enn ýmis fríðindi, svo sem í eftirlaunum fyrir sig og sína ættingja og oft meiri en lög standa til.

Hv. þm. sagði, að ef menn fengju ekki þessi laun, þá mundu menn leita til annarra starfa, sem væru betur borguð. Ég vil spyrja hv. þm.: Hvað hafa margir menn farið úr þjónustu ríkisins á þessum árum, eða síðan launalögin voru sett 1945, og af þeim orsökum, að þeir þættust betur settir annars staðar? Ætti ekki að skipa nefnd til þess að komast að einhverri niðurstöðu um það? Ég get sagt frá því í þessu sambandi, að ég þekki einn mann (og ætli þeir séu ekki heldur fáir?), sem fór frá ríkinu og tók að sér forstjórastöðu við fyrirtæki, og hann dauðsér eftir skiptunum og telur sig þurfa að fórna miklu meiri tíma og orku við sinn nýja starfa. Hv. þm. sagði, að af þessum ástæðum hefði ríkið orðið að bæta starfsmönnum sinum upp laun þeirra. Ég skal viðurkenna, að áður en launalögin voru sett var þessum mönnum ívilnað með einu og öðru móti, en eftir að þau höfðu verið sett og kjör þeirra með því bætt, þá héldu þeir líka fríðindunum, og voru þetta ein rökin fyrir setningu l. 1945, sem ekki stóðust. Mætti nefna mörg dæmi þessu til sönnunar.

Hv. þm. segir, að ég hafi sjálfur verið með í því að samþykkja ákvæðin um laun bænda. Ég vil nú spyrja: Hefur hv. þm. enn ekki komizt á þá skoðun, að bændur eru verr settir en t. d. 13. flokkur launalaganna? Hann ætti að reyna að sanna sér sjálfur eitthvað annað. Meira að segja er engin trygging fyrir því, að bændur fái af meðalbúi svo mikið til innlags. Til dæmis þarf tíð að vera hagstæð, og dæmi eru til þess. að slíkt bú hefði ekki fleiri en 19 lömb til innlags á síðastliðnu hausti vegna vorharðindanna. Og það getur verið, að hv. 3. landsk. mætti taka slíka áhættu svolítið með í reikninginn. En þrátt fyrir það, þótt þessir menn séu undir hana seldir og mæti annað slagið slíkum skakkaföllum, þá eru þeir þó um launakjör ekki betur settir en skrifstofustúlkur í Reykjavík.

Þá reyndi hv. þm. að gera sér mat úr því, að ég sagði, að launauppbæturnar til opinberra starfsmanna hefðu verið samþykktar með aðstoð óábyrgasta hluta þingsins. Ég mótmæli þessum málflutningi hans sem hreinu siðleysi. Hefur ekki það ljós runnið upp fyrir hv. þm., að það voru aðeins 16 menn af 42, sem studdu ríkisstj., sem frv. fylgdu, og það þurfti að koma því í gegn með fylgi hinnar óábyrgu stjórnarandstöðu, sömu mannanna, sem höfðu borið fram í ábyrgðarleysi till. um 13 millj. kr. útgjaldaaukningu á fjárlögum? Hv. 3. landsk. slær engar keilur á því að setja á sig þann smánarblett, sem þessi málflutningur hans er. Hann er strákslegur, og hv. þm. ætti að sjá sóma sinn í að éta þetta ofan í sig aftur.

Þá andmælti hann því, að nokkuð í útreikningum n. sé rangt. En tölur mínar hefur hann samt sem áður ekki reynt að hrekja. Hann kvað svo að orði, að ég brigzlaði valinkunnum mönnum um ranga útreikninga. Hvers konar málflutningur er þetta? Ef málstaður hv. þm. er svo veikur, að hann geti ekki með öðru móti staðið fyrir honum, þá væri honum miklu nær að láta ekki sjá sig á fundi.

Hv. þm. spurði, hvers vegna ég hefði ekki reynt að koma í veg fyrir, að embættismenn ríkisins sætu í mörgum embættum, ef mikil brögð væru að því. Síðan 1945 hef ég nú á hverju ári — það má hv. þm. vita — reynt að fá þetta lagað. En hér er fremur um að ræða framkvæmdaratriði ríkisstj. á hverjum tíma en fjvn., enda þótt hún hafi reynt að kynna sér, hvernig þessum málum er háttað. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga kallaði n. t. d. til sín einn embættismann, sem ráðinn var með fullum launum hjá ríkinu, en vann auk þess við háskólann fyrir hálf laun. Og vitaskuld var ekki hægt að loka augunum fyrir því, hvernig sem mál þetta var að öðru leyti vaxið, að við sín aukastörf tók þessi maður tíma frá sínu aðalstarfi. En allar tillögur til úrbóta í þessu efni hafa verið steindrepnar með atfylgi hv. flokksmanna 3. landsk. Það er eitur í hans beinum og þeirra félaga að ýta nokkrum manni úr ónauðsynlegu embætti, og það svo, að við höfum oft orðið að nota okkur fylgi kommúnista gegn Alþfl., sem þó var stuðningsflokkur stj., til þess að koma slíku fram. — Svo talar hv. þm. um naglaskap í mér og fór inn á persónulegar umræður um Guðmund Thoroddsen. Enginn einstaklingur kemur þessu máli við, og röksemdafærsla hv. þm., er að þessu laut, var ósæmandi. Er það svo nokkur ásökun á lækninn á Ísafirði, þó að hann hafi 3 embætti? Ef það er ásökun, þá er hún á landlækni, sem lætur slíkt eiga sér stað, að maður geti haft tvöföld laun fyrir að gegna þremur læknishéruðum.

Ég hef talið það mikla nauðsyn að fylgja því fram, að opinberir embættismenn legðu fram meiri vinnu og helguðu sig betur störfum sínum. En það hefur nú ekki alveg átt við hv. 3. landsk. og flokksmenn hans. Hv. 3. landsk. er nú ekki heldur alveg á einum launum. (GÞG: Það er ósatt.) Er það ósatt? (GÞG: Ég hef þingfararkaup mitt og annað ekki. ) Já, er þingmennskan ekki embætti? Fær hv. þm. ekki heldur uppbótargreiðslur á laun sín? Eða ætlar hann að neita því? Hann sagðist skyldi taka gagnrýni mína alvarlega, ef ég héldi nokkrar ræður um laun forstjóra í Rvík. Liggur það fyrir hér að ræða laun manna hjá einkafyrirtækjum? Sé eitthvað við þau að athuga í þessu sambandi, mun það vera það, að þessi fyrirtæki hafi tilhneigingu til að launa starfsmenn sína betur en verr vegna þess, að þau mundu annars í mörgum tilfellum missa þá í þjónustu ríkisins. Slíkar launagreiðslur mega aldrei verða neinn mælikvarði á laun embættismanna ríkisins. Ég er ókunnugur launum slíkra forstjóra, en ef hv. þm. forvitnar mjög að kynna sér það mál ofan í kjölinn, þá ættu að vera hæg heimatökin fyrir hann að ræða um það við hv. þm. Hafnf. (EmJ), sem hefur haft með verzlun og viðskipti að gera undanfarið.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. En ég endurtek það, að ég vænti þess, að Alþingi láti ekki það óhapp henda sig að samþykkja þessa till., sem aðeins mundi verða til þess að tefja þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru og óhjákvæmilegt er að gera í þessum málum gegn dýrtíð og verðbólgu.