19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Frsm. 2. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Það getur verið, að 3. landsk. komi bráðlega, en ég kann illa við að beina orðum til manns, sem ekki er viðstaddur. Nú, hann kemur nú þarna.

Hv. 3. landsk. var með glósur um það, að það hefðu verið einhver annarleg sjónarmið, sem réðu afstöðu minni og míns flokks í þessu máli. Ég skildi vel, hvað á seyði var, þegar mér var sagt, að verið væri að breiða það út af flokksmönnum hv. 3. landsk., að ég ætlaði að vera á móti þessu máli. En hins vegar hefur nú hv. þm. séð, að ég ætla ekki alveg að vera á móti málinu, en byggir nú róg sinn á því, að ég leggi ekki til, að allir launaflokkar fái jafnháar uppbætur. En þessi till. mín er ekki um annað en það að greiða 20% á laun upp að og með 650 kr. á mánuði, en síðan lækkandi um 1,5% á hvern launaflokk þar fyrir ofan. Þessi till. hljóðar annars þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að greiða til bráðabirgða uppbætur á laun starfsmanna ríkisins vegna aukinnar dýrtíðar, 20% á grunnlaun upp að og með 650 kr. á mánuði, en síðan lækkandi um 1,5% á hvern launaflokk þar fyrir ofan. Enn fremur sé ríkisstjórninni heimilt að greiða uppbætur á eftirlaun uppgjafastarfsmanna, 20% á allt að 500 kr. grunnlaun á mánuði.“

Hv. þm. Barð. tók nú af mér ómakið að sanna, að 4 millj. kr. uppbótin næmi 8,33% á árslaun. Þetta er í samræmi við það, sem hv. fjmrh. fyrrv. lét í ljós í bréfi til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en þar er skýrt tekið fram, að það sé skoðun rn., að óheimilt sé að skoða heimildina um uppbótargreiðslurnar öðruvísi en um 8,33% á árslaun.

Hv. þm. eyddi miklum tíma ræðu sinnar í það að sanna, að till. mín yrði til að skapa ranglæti í launagreiðslum, ef hún yrði samþykkt. Hann endaði ræðu sína með því að segja, að hér væri ekki um að ræða dýrtíðaruppbætur, aðeins launahækkun. Ég vil nú gefa þær upplýsingar, að fyrir örfáum — dögum heyrði ég Ólaf Björnsson og annan mann úr stjórn B. S. R. B. hafa þau orð, að óhjákvæmilegt væri, að þessi launauppbót væri samþykkt, vegna þess, að annars gæti fólkið ekki lifað á launum sínum, svo mikil sem dýrtíðin væri orðin. Og þetta vill svo hv. þm. ekki kalla dýrtíðaruppbót. Það var talið, að þeir gætu lifað af þessum launum 1945. Síðan hefur dýrtíðin vaxið að mun, og sagt er, að þetta verði að fá samþykki. En svo kemur hv. 3. landsk. og segir, að þetta sé ekki dýrtíðaruppbót, heldur launauppbót: Við heimtum bara launahækkun. Þannig vill hv. þm. hafa það, þetta sé launauppbót, eigi dýrtíðaruppbót. Hv. þm. komst svo að orði að till. verkaði í ranglætisátt. Hann var eitthvað að glósa um atriði, sem allir gætu skilið, ef þeir kynnu undirstöðuatriði stærðfræðinnar. Þessi hv. þm. kann þau. En hann hefur ekki notað þekkingu sína til þess að reikna út, hvernig till. verkaði á hina ýmsu launaflokka, ef hann vill nokkuð skilja dýrtíðina. Skal ég nú lýsa því betur, þótt áður hafi ekki verið farið mikið út í það, hvernig brtt. mín verki á hina ýmsu launaflokka.

Aðalrök hv. þm. voru þau, að óeðlilega mikill hluti lenti hjá þeim, sem ekki eiga að fá bróðurpartinn. Þá er að athuga það nokkru nánar. Lægsti flokkurinn er 3.600 kr. (16. fl.), og vil ég, að hann hækki um 21.60 kr., 20%, er bætist við vísitöluupphæðina, 10.800 kr. Hv. þm. taldi þennan flokk ekki vera mikið í vandræðum, enda væri enginn vegur fyrir fjölskyldumenn að lifa af þessum launum. Mun rétt vera, að þeir séu fáir í þessum flokki. Ég ætlast til, að 15. flokkur fái 2.880 kr. í viðbót, og kemst hann þá í 17.280 kr. Eru hér töluvert margir fjölskyldumenn. 14. flokkur fær 3.240 kr., sem bætast við vísitöluupphæðina og verða því 19.440 kr. Þá ætlast ég til, að næstu flokkar fái: 13. flokkur fær 3.600 kr. hækkun, kemst í 21.600 kr. 12. flokkur mundi fá 3.960 kr. og kæmist því í 23.760 kr. 11. flokkur fengi 4.320 kr., sem yrðu 25.920 kr., þar eð grunnlaun hans eru 7.200 kr. Í þrem síðasttöldum flokkum er mikill fjöldi fjölskyldumanna, og eiga þeir því að fá fulla uppbót. En er hér er komið, á að vera hægt að fara að lækka uppbæturnar dálítið, í efri flokkum. Því legg ég til, að uppbæturnar fari nú lækkandi um 1,5% á hvern launaflokk hér fyrir ofan. Fái 9. flokkur 18,5% hækkun og komist í 29.862 kr. úr 25.200 kr. Það er eigi mikil lækkun, og munar 378 kr. við brtt. mína, frá því er orðið hefði við 20% hækkun. 8. flokkur með 9.000 kr. í grunnlaun fer í 31.590 kr. Verður þessi flokkur 810 kr. lægri. Ég held, að það geti staðizt samanburð við næstu flokka fyrir neðan. 7. flokkur fær 33.264 kr. í staðinn fyrir 28.800 kr., en hann skaðast um 1.296 krónur, miðað við 20%. Síðan fái 6. fl., sem hefur 10.200 króna grunnlaun, samtals 34.684 krónur. Hann vantar þá 1.836 krónur til að fá fulla uppbót. Tel ég, að það geti borið sig.

Það munar engu, þótt ég haldi áfram, úr því að svona langt er komið. 5. flokkur hefur 11.100 kr. í grunnlaun, fer í 37.425 kr. og kemur því til með að vanta 2.35 kr. 4. flokkur hefur 12.000 kr. í grunnlaun, hækkar í 39.960 kr. og mun því skorta 3.340 kr. á fulla uppbót. 3. flokkur hefur nú 39.000 kr. samtals, hækkar í 42.705 kr. Mun hann því vanta 4.905 kr. til að fá fulla uppbót (20%), því að hann fær aðeins 9,5% hækkun á laun sín. 2. flokkur kemst í 45.120 kr. úr 42.000. Hann skortir því 5.290 kr. Tel ég, að það geti staðizt. Að lokum er 1. flokkur, sem hefur 15.000 kr. grunnlaun,með vísitölu 45.000, en hækkar um 6.5%, í 47.925 kr. Hann vantar því 6.075 kr., miðað við 20%, en fengi hann þá hækkun, kæmi hann til með að hafa 54.000 kr., hækkaði m. ö. o. um 9.000 kr. En þá fengi 1. flokkur hér um bil sömu hækkun og fjórir lægstu launaflokkarnir samanlagðir. — Það er þetta, sem hv. 3. landsk. kallar, að óeðlilega mikill hluti lendi hjá þeim, sem ekki eiga að fá bróðurpartinn. Ég vil segja, að hann lendi einmitt samkv. till. minni hjá þeim, sem helzt eiga að fá hann, þ. e. hjá 7.–16. fl., sem mest þurfa á uppbótunum að halda. Þetta segir hv. þm., að verki í ranglætisátt. Þá talar hann um, að Band.lag starfsmanna ríkis og bæja hafi á fulltrúafundi einróma samþ., að greiða skuli jafnar uppbætur í öllum launaflokkum, á laun kvenna sem karla. En ég hef talað við marga menn, sem viðurkennt hafa sjónarmið mitt. Ég tel og vafasamt, hvor leiðin fær meira fylgi eða hvor okkar meiri þakkir, þegar menn kynnast hvoru tveggja. Hv. þm. minntist á fjölskyldumenn. Ég er einmitt að láta bróðurpartinn lenda hjá miðflokkunum, þar sem þeir eru flestir.

Þá hafa mikil rök verið færð af þeim, sem eru á móti brtt. minni, fyrir því, að eigi mætti breyta hlutfallinu í launal. með einfaldri þál. En megi eigi samþykkja misjafnar launauppbætur, þá má eigi heldur samþykkja breyt. á launal. á neinn hátt. Tel ég og fjarstæðu að fara að breyta anda launal. Hv. þm. viðurkenna, að þetta sé gert fyrir sakir dýrtíðaraukningarinnar í landinu síðan árið 1945. Þeim mun meiri þörf er á hærri uppbótum fyrir lægri flokkana. Annað atriði get ég og bent á, þótt ég geri það hér eigi að sérstöku umtalsefni, en það er, að sjálfsagt er að flýta sér að ljúka endurskoðun launal. Árið 1935 var skipuð n. til að setja launal. En það tók tíu ára baráttu að fá þau samþ. — og þá við hin beztu efnahagsskilyrði, sem þjóðin hefur átt við að búa. Ég vil því benda á, að betur verður að ganga að fá launal. samþ., ef haldið er fast við það, að eigi megi nú samþykkja breyt. á þeim, vegna þess að endurskoðun þeirra standi yfir.

Þá gleymdi hv. þm. síðari málsl. till. minnar, en staðreyndin er sú, að margt uppgjafastarfsfólk frá ríkinu lifir á hinum mestu sultarlaunum. Þessu gleymdu hv. flm. þáltill. Vil ég benda hv. 3. landsk. á það, að sé ég að taka eitthvað frá starfsmönnum ríkisins, sem hann vilji gefa þeim, þá hefði till. hans og þeirra litið betur út, ef hann hefði munað eftir þessu fólki.

Ég man nú ekki eftir fleira, sem beinlínis sé þörf á að taka fram.