30.11.1949
Sameinað þing: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3520)

7. mál, hraðfrystihús og fiskiðjuver í Flatey

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef borið hér fram þáltill. á þskj. 8 um, að Alþ. heimili ríkisstj. að ábyrgjast allt að 75 þús. kr. viðbótarlán handa Flateyjarhreppi til að fullgera hraðfrystihús og fiskiðjuver í Flatey á Breiðafirði. Ég get að langmestu leyti látið mér nægja að vísa til grg., hvernig þetta stendur og hver gangur málsins hefur verið, og sé ég því ekki þörf að ræða þetta frekar á þessum fundi. Ef málið fer til hv. fjvn., sem ég mun leggja til, þá mun hún að sjálfsögðu ræða málið við hæstv. fjmrh., áður en hún gefur út álit sitt. Ég vil svo leyfa mér að óska eftir, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr. og til síðari umr.