11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Í Nd. hefur verið fellt úr frv. þessu aðalágreiningsatriðið, sem fjallar um tekjuöflun til þess að standa undir kostnaði við þær ráðstafanir, sem felast í frv. Ég tel þetta vel farið út af fyrir sig, þar sem þær tekjuöflunartill. voru eins óréttlátar og verið gat og mundu hafa haft mjög slæm áhrif á afkomu almennings og íslenzku þjóðarinnar í heild. Það eru allir sammála um, að þetta séu aðeins bráðabirgðaráðstafanir, sem farið er fram á í þessu frv., og vitaskuld bar ríkisstj. skylda til þess að vera þegar komin fram með sínar till. um úrlausn á þessu máli til frambúðar. En ég tel það fjarri sanni, að það sé nokkur afsökun fyrir ríkisstj., að hún hafi ekki haft tíma til þess. Hún hafði á annan mánuð til stefnu síðan hún tók við, og maður skyldi ætla, að þegar fyrir kosningar hafi Sjálfstfl. verið búinn að gera sér grein fyrir meginatriðunum í sinni stefnu. Ef svo væri ekki, þá er það meira ábyrgðarleysi en flokkurinn getur staðið undir og ólíklegt, að forustumenn hans mundu vilja viðurkenna það. Ég held, að sannleikurinn sé sá, að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur á prjónunum, séu svo óvinsælar, að hún vilji með engu móti, að þær komi fram fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Hins vegar er augljóst, að þrátt fyrir allt þetta, þó að stjórn landsins hafi brugðizt að þessu leyti hlutverki sínu, þá verður að gera ráðstafanir til þess, að bátaflotinn fari af stað, og tryggja, eftir því sem unnt er, að hann geti a.m.k. haldið út vetrarvertíðina. Í rauninni tel ég það engan veginn tryggt, þó að þetta frv. verði samþ., að rekstur útgerðarinnar sé öruggur alla vetrarvertíðina.

Undanfarin 2 ár hefur tekizt að koma markaðsmálum Íslendinga í það horf, að þeir, sem kunnugastir eru, gera ráð fyrir því, að ef til vill sé ekki hægt að selja meira magn af freðfiski í ár, en rösklega helming þess magns, sem telja megi eðlilegt, að framleitt sé í meðalári, og allt í óvissu um verðið. Og ef ekki er hægt að selja fiskinn, jafnvel fyrir hvaða verð sem er, þá hætta bankarnir að lána og þá dugar hvorki ábyrgðarverð né róttækar ráðstafanir, svo sem gengislækkun. Hvað sem öðru líður, þá verður að gera ráðstafanir til þess að koma útgerðinni af stað. Ég mun þess vegna fylgja þessu frv. í því formi, sem það er nú, og er sammála þeirri afstöðu meðnm. minna í fjhn. að gera á því sem minnstar breyt. til þess að tryggja því framgang. Þó tel ég, að það sé beinlínis nauðsynlegt að gera á því nokkrar breyt., raunar nokkuð veigamiklar, til þess að það nái tilgangi sínum. Fyrst ákvæði um, að það skuli gilda ekki aðeins vetrarvertíðina, heldur allt árið í því tilfelli, að aðrar ráðstafanir verða ekki gerðar, og ef taka ætti alvarlega þann grundvallarágreining, sem er milli flokkanna samkvæmt yfirlýsingum þeirra, þá fæ ég ekki séð, hvernig það má ske, að þingið leysi vandann á þessum vetri. Þeir, sem gera ráð fyrir, að samkomulag náist á þinginu í vetur um einhvern meiri hluta fyrir ákveðinni leið, byggja þetta á því, að ágreiningur flokkanna, þeirra sem stóðu að fráfarandi stj., sé að mestu leyti uppgerður, þ.e.a.s. ágreiningur þess eðlis, sem jafnaður verði eftir bæjarstjórnarkosningarnar. En ef svo færi, að ekki yrði neitt samkomulag um svokallaða frambúðarlausn, þá mundu fiskveiðar bátaflotans stöðvast, þegar l. falla úr gildi.

Annað atriði, sem ég tel einnig, að taka verði upp í frv., er, að tekin verði ábyrgð á lifrarverðinu. Um það var borin fram till. í Nd., till. um kr. 1,30 ábyrgð. Þetta er mjög mikið hagsmunamál fyrir smærri bátaeigendur og fyrir sjómenn á bátunum og er nauðsynlegt til þess að tryggja það sem bezt, að allur bátaflotinn, líka þeir smærri, fari af stað. Ég held, að ef forsvaranlega er á markaðsmálunum haldið, þá séu miklar líkur til þess, að enn megi selja íslenzka lýsið sem meðalalýsi, enda þótt Ameríkumarkaður hafi brugðizt, og ef það tekst, þá ætti það ekki að þurfa að vera mikill baggi fyrir ríkissjóð, þótt útvegsmönnum væri tryggt viðunandi verð fyrir lýsið eða lifrina.

Í þriðja lagi þarf að hækka lántökuheimíld 15. gr., sem sett er í því skyni að innleysa sjóveð. Fulltrúar útvegsmanna, sem mættu á fundi fjhn., skýrðu svo frá, að þessi upphæð, sem nú er í frv. til þessara hluta, 11/2 millj. kr., væri allt of lág. Þeir skýrðu svo frá, að um 70 skip mundu vera með óleyst sjóveð, og mundi heildarupphæðin vera nokkuð á fjórðu milljón kr. Hins vegar töldu þeir, að 21/2 millj. kr. mundi nægja, og þeir bentu okkur á, að eftir að svo víðtækar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að koma útgerðinni af stað eins og í þessu frv. felast, yrði að teljast illa farið, að allverulegur hluti bátaflotans stöðvaðist kannske vegna áhvílandi sjóveða, og verður slíkum rökum vissulega ekki mótmælt. Í Nd. var felld till. um að hækka upphæðina upp í 21/2 millj. kr. Ég flyt nú ásamt hv. 4. þm. Reykv. till. um að hækka nú upphæðina í 2.250.000 kr., og ætti það þá að fara langt til þess að hrökkva til, samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um þetta atriði. Ég treysti því, að hv. d. vilji fallast á þessa till., eftir að þessar upplýsingar liggja fyrir, en á því getur oltið, hvort frv. nær þeim tilgangi, sem því er ætlað, þ.e.a.s. að tryggja, að bátunum sé kleift að hefja veiðar, en ég geri ráð fyrir, að um hin atriðin, sem ég nefndi, komi fram till. í d., og mun ég fylgja þeim. Nokkrar smærri breyt. tel ég enn fremur æskilegt að gera á frv., en tel ekki ástæðu til að gera þær að umtalsefni. Varðandi brtt. 201 tel ég t.d. sjálfsagt að samþ. 2. brtt. á því þskj. og tel í alla staði eðlilegt, að gr. sé orðuð eins og þar er lagt til.