06.12.1949
Sameinað þing: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3542)

42. mál, farkennaralaun

Skúli Guðmundsson:

Þar sem fyrstu flm. þessarar till. eru ekki viðstaddir á fundinum, vil ég fara um hana nokkrum orðum. Efni till. er það að heimila ríkisstj. að greiða farkennurum, sem ekki hafa kennsluréttindi, sömu laun úr ríkissjóði og þeim farkennurum, er kennsluréttindi hafa. Till. um þetta efni mun hafa verið fyrir þinginu í sambandi við afgreiðslu launal. á sínum tíma, en sú till. um að hafa þann hátt á launagreiðslum til kennara var þá felld. Við flm. þessarar till. teljum, að hér sé um réttlætismál að ræða, því flytjum við þessa till. um heimild fyrir ríkisstj. til að greiða þessum kennurum sömu laun og hinum. Það má segja, að það hefði verið eðlilegra að flytja um þetta frv. til l. um breyt. á launal., en sá háttur hefur verið upp tekinn á síðustu tímum að ákveða uppbætur á laun með þingsályktunum, og því teljum við, að þessa aðferð mætti viðhafa til bráðabirgða, þó að ég viðurkenni og telji hitt rétt, ef þingið á annað borð gæti á það fallizt, að ákvæði um þetta yrðu sett í launal. — Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, málið liggur ljóst fyrir og er nokkuð skýrt í grg., sem ég geri ráð fyrir, að þm. hafi lesið. Vil ég leggja til, að málinu verði vísað til síðari umr. og fjvn.