07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3549)

42. mál, farkennaralaun

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, eins og hv. frsm. meiri hl. hefur þegar lýst.

Samkvæmt 15. gr. l. um laun starfsmanna ríkisins er ákveðið, að farkennarar, sem ekki hafa réttindi, fái 3/4 af launum barnakennara. Í öðru lagi er ákveðið, að viðkomandi aðilum sé greitt að 1/3 úr bæjar- eða sveitarsjóði, en að 2/3 úr ríkissjóði. Það er því ljóst, að hér á að breyta l. með þál., og það telur minni hl. hvorki rétt né eðlilegt. Í öðru lagi er hér verið að raska þeim hlutföllum á kostnaði, sem er ætlazt til í launalögum. Launalögin eru nú í athugun í n., og má jafnvel búast við þeim á þessu þingi. Sýnist því, að það hefði verið réttara fyrir hv. flm. þessarar till. að bera fram brtt. við sjálf l.. ef þeir vildu fá leiðréttingu á því óréttlæti, sem þeim finnst felast í l. Telur minni hl., að sú málsmeðferð væri eðlilegri, og vill því ekki leggja til, að málið verði afgr. á þann hátt, sem lagt er til í þáltill.

Þegar þetta mál var til umr. á sínum tíma í Ed., var deilt um það, hvort ekki ætti að greiða þessum mönnum sömu laun og öðrum kennurum. Ég minnist þess, að ég var persónulega með því. Þá var það álit mþn. í skólamálum, að það ætti ekki að gera það. Enn fremur var það álit fræðslumálastjóra, að sú breyt. ætti ekki að ná fram að ganga, sem þurfti að gera til að fá þessu breytt. Mér þykir merkilegt, ef þeir eru nú komnir á aðra skoðun, en út í það skal ég ekki fara.

Minni hl. leggur áherzlu á, að hér eigi að breyta gildandi l. með þál., en það sé tækifæri til þess á yfirstandandi þingi að fá þetta leiðrétt á eðlilegan hátt, þ. e. með lagabreytingu, og leggur því til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá, eins og kemur fram á þskj. 291, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að vitað er, að launalögin eru nú til athugunar í milliþinganefnd, sem að sjálfsögðu mun meðal annars athuga breytingu þá á kjörum farkennara, sem hér um ræðir, og með því að enn fremur þykir ekki eðlilegt eða rétt að breyta fyrirmælum gildandi laga með þingsályktun, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil því fyrir hönd minni hl. vænta þess, að þingið samþ. þessa rökstuddu dagskrá.