24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3565)

2. mál, heimilistæki

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig vel skilið það, að till. eins og þessi sé fram komin, því að allir vita um það, hversu mikil þægindi eru í því fólgin að hafa þessi rafmagnstæki á heimilunum í sem fyllstum mæli, enda er þetta ekki í fyrsta skipti, sem þáltill. eru bornar fram á Alþ. um þetta mál, því að á síðasta Alþ. voru afgreiddar um þetta efni frekar tvær heldur en ein þáltill. Í þessari till. er gert ráð fyrir því, að innflutningsmagn þessara tækja verði miðað við það eitt, að þörfinni eða eftirspurninni verði fullnægt. Það er ýmislegt, sem kemur til greina í þessu sambandi og mig langar til að fara um nokkrum orðum, áður en till. verður afgreidd. Ég hef leyft mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að þessari umr. verði ekki lokið á þessum fundi, heldur fái málið að ganga til n. og þá væntanlega allshn. Sþ., svo að ekki verði hlaupið að því að afgreiða till., áður en athugun hv. n. færi fram, því að eins og ég sagði áðan, er ýmislegt, sem kemur til greina að athuga í sambandi við þessa till.

Það, sem fyrst og fremst þarf að athuga, er þörfin fyrir þessar vélar. Í öðru lagi þarf að athuga, hvernig er hægt að fullnægja henni og hvort ástæða er til að flytja þessar vélar inn tilbúnar, eins og lagt er til í till., eða hvort hægt er að búa þær til að verulegu leyti hér heima. Enn kemur til álita, hverjir möguleikar eru til þess fjárhagslega að afla gjaldeyris til að flytja vélarnar inn. Og að lokum er ekki síst ástæða til að athuga, hvaða möguleikar eru til að fullnægja raforkuþörfinni til að knýja þessar vélar og allar vélar, sem eru í notkun í landinu. Allt eru þetta atriði, sem þurfa athugunar við. við afgreiðslu málsins. Ég hef kynnt mér þetta nokkuð, m. a. með tilliti til þeirra till., sem samþ. voru um þetta mál á síðasta Alþ., og hef ég fengið upplýsingar um það, eftir því sem kostur var á, hve mikið væri til í landinu af þessum heimilistækjum í notkun og hve mikið muni vanta af þeim. Ekkert liggur fyrir Alþ. um þetta í till. hv. flm., svo að upplýsinga um þetta hefur orðið að afla annars staðar frá. Þær voru enda að nokkru leyti fyrir hendi. Það hefur verið sett n. af þessu tilefni til að athuga málið. Í þessa n. voru skipaðir þrír menn: af hálfu rafmagnseftirlits ríkisins einn maður, af hálfu rafveitu Reykjavíkurbæjar annar maður, sem var umsjónarmaður með rafmagnstækjum hér í Reykjavík, Nikulás Friðriksson, og í þriðja lagi átti sæti í n. forstöðumaður Raftækjaverksmiðjunnar í Hafnarfirði, sem er eina fyrirtækið á landinu, sem framleiðir rafmagnstæki. Fulltrúi rafveitunnar í Reykjavík var skipaður sérstaklega með hliðsjón til að athuga þörfina, sem fyrir hendi væri í þessum efnum í Reykjavík, fulltrúi frá rafmagnseftirlitinu sérstaklega til að athuga þörfina úti um land, en forstjóri raftækjaverksmiðjunnar var sérstaklega skipaður með í n. til að gefa upplýsingar um, hvað sú verksmiðja gæti framleitt. N. athugaði, hve mikið væri til af þessum tækjum og hvað ætla mætti að þurfa mundi á næstunni. Þeir skrifuðu öllum rafveitum landsins og spurðust fyrir um það, hve mikið væri til í notkun af þessum tækjum. Það kom í ljós, að ekki er til fullkomin skrá yfir þetta hjá rafmagnsveitunum. En skrá er til um rafmagnseldavélar og þvottavélar. Rafmagnseldavélar voru í byrjun þessa árs 13.700 í notkun, en ætla má samkvæmt þessari rannsókn, að um 17.000 eldavélar muni þurfa til þess að fullnægja allri eftirspurn á orkuveitusvæðunum öllum. Það vantar þess vegna, til þess að fullnægja allri eftirspurn á öllu raforkusvæðinu, 3.300 eldavélar. Af þessum vélum hefur verið framleitt hér og flutt inn talsvert á þriðja þús. á þessu ári, svo að nú hafa nálega öll heimili á þessum raforkusvæðum getað fengið rafmagnseldavélar, og ég hygg, að ekki verði langt liðið á næsta ár, þegar þessu marki er náð að fullu. Rafmagnseldavélar eru þau tæki, sem fólkið þarf fyrst og fremst á að halda, og þar tel ég, að öflun tækjanna sé svo vel á veg komið, að við sjáum fyrir endann á þörfinni um næstu áramót eða í byrjun næsta árs. Ég skal í þessu sambandi geta þess, að á síðasta þingi var samþ. þáltill., sem fór í þá átt að mæla með því, að veitt yrðu leyfi til innflutnings á efni til raftækjaframleiðslu, meira heldur en áður hefur verið gert. Þessari till. hefur viðskiptanefnd vikizt þannig við, að hún hefur á árinu 1949 veitt mun meira efni til þessarar framleiðslu en hún hefur gert nokkurn tíma áður, þannig að á þessu ári hafa verið framleiddar í raftækjasmiðjunni í Hafnarfirði á þriðja þúsund eldavélar á móti 12–13 hundruð mest áður, þ. e. a. s.: framleiðslumagnið hefur á þessu ári meira en tvöfaldazt. Verðmæti þessarar framleiðslu, sem framleidd hefur verið innanlands og seld hér, er þegar á þessu ári orðin nokkuð á fjórðu millj. kr. — Um þvottavélarnar er það að segja, að gert er ráð fyrir, að til þess að fullnægja þörfinni muni þurfa um 12.000 vélar, en hér munu til í notkun um 4.200 þvottavélar, svo að enn skortir á, til þess að þörfinni fyrir þær sé fullnægt, um 8.000 vélar. Það er náttúrlega mjög mikið, og sennilega verður ekki hægt að fullnægja þeirri þörf á næstu einu eða tveim árum, heldur mun verða að dreifa því á nokkurt árabil. 1.900 rafmagnsþvottapottar eru taldir vera til hér, en þörf mun vera fyrir 4.000 rafmagnspotta, svo að af þeim vantar 2.000 stykki. Þá er hægt að búa til hér á landi og svo að segja nóg til að fullnægja eftirspurninni, aðeins ef efni fæst í þá. Ég teldi það miklu hagkvæmara, að þessi tæki væru búin til hér á landi, en ekki keypt inn, því að það er ekki nema brot af gjaldeyrinum, sem það kostar að flytja inn efnið í þau, á móts við það að kaupa þau fullbúin erlendis frá. — Um kæliskápa, ryksugur, strauvélar og fleiri þess háttar tæki er ekki til fullkomin skýrsla, en áætlun hefur verið gerð um það af þessum sömu mönnum, hve mikið mundi þurfa að flytja inn á árinu, og hafa þeir komizt að þeirri niðurstöðu, að hæfilegur innflutningur mundi vera af þeim, um 150 litlir kæliskápar og 350 stórir, samtals 500 stykki. Þeir hafa enn fremur lagt til, að inn yrðu fluttar 1.600 þvottavélar, og kostar þessi innflutningur samtals kringum 2 millj. kr. Auk þess eru svo smærri rafmagnstæki, sem ég hef ekki sundurliðaða skýrslu um. Á þessu ári hafa svo verið veitt gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þvottavélum, kæliskápum, strauvélum, hrærivélum og eldhúsvélum fyrir samtals tæpa millj. kr. eða rúmlega 900 þús. kr., og innflutningsleyfi hafa verið veitt án gjaldeyrisleyfa fyrir um 1,6 millj. kr., þannig að innflutningur hefur verið leyfður á þessum tækjum, sem hér er um að ræða, fyrir samtals um 2,5 millj. kr. Auk þess hefur verið flutt inn efni til framleiðslunnar fyrir rúmlega eina millj. kr., svo að gjaldeyriseyðslan til þessara hluta hefur verið um 3,5 millj. kr. En úr þessari einu millj. kr., sem flutt hefur verið inn af efni, hafa fengizt fullbúin tæki fyrir hátt á fjórðu millj. kr., svo að segja má, að tæki hafi komið til fólksins á þessu ári fyrir um það bil 6 millj. kr. Ég veit ekki, hvort hv. flm. þessarar till. telur þetta of lítið og hvort hann telur, að ástæða sé til að fara hraðar í sakirnar, en þetta. Þarfirnar eru margar og brýnar hjá okkur á ýmsum sviðum, og það þarf ýmislegt annað að kaupa, en rafmagnsheimilistæki. Og þegar á einu ári koma tæki fyrir 6 millj. kr., þá efast ég um, að þjóðarbúið hafi efni á að eyða á einu ári meiru, en þessari upphæð í þessu skyni.

Það, sem að mínu viti þyrfti að gera, er að koma meiru en gert hefur verið af framleiðslunni á innlendar hendur. Af því getur orðið margfaldur ávinningur. Fyrst og fremst eru sparaðir 2/3 og upp í 3/4 hlutar gjaldeyrisins, og í öðru lagi ættum við að geta fengið tækin betur við okkar hæfi heldur en þau tæki eru, sem búin eru til annars staðar, enda hefur reynslan verið sú, að eftirspurnin hefur verið sízt minni eftir innlendum rafmagnstækjum og í sumum tilfellum meiri. Innlenda framleiðslan á þessu sviði hefur alla tíð verið að aukast og þróast og færa út kvíarnar, svo að þar hefur verið svo að segja um stöðuga aukningu að ræða. Hún byrjaði með að framleiða eldavélar, og svo langt er nú komið, að rafmagnseldavélar eru að komast inn á hvert heimili, sem hefur möguleika til að nota raforku, og langmestur hluti þeirra er íslenzk framleiðsla. Næsti liður, sem tekinn var upp hjá innlendu framleiðslunni, voru ofnar og fleiri tæki. Svo hefur verið hafin framleiðsla á kæliskápum, og á hún væntanlega eftir að aukast mikið. Það hefur þegar fengizt efni í nokkur hundruð kæliskápa, sem þegar eru að koma á markaðinn, og koma væntanlega fleiri, eftir því sem efni fæst til þessarar framleiðslu. Þá hefur verksmiðjan komið af stað framleiðslu á spennubreytum, sem hver einasti sveitarbær þarf að nota, sem tekur straum frá háspennuleiðslu. Þeir kosta á þriðja þúsund kr. Næsta stig framleiðslunnar eru þvottavélar, sem hafinn hefur verið undirbúningur að, og verður því sjálfsagt haldið áfram á næstunni. Ég tel þess vegna, að það hafi verið að þessum málum unnið eins og bæði fjárhagsgeta okkar hefur leyft og eins og framleiðslukraftarnir innanlands hafa leyft, þó þannig, að ég tel að framleiðslan innanlands hefði mátt vera meiri, ef efnisskortur hefði ekki hamlað henni, en leyst var nokkuð úr á árinu, m. a. vegna þeirrar ályktunar, sem um þetta var gerð á síðasta þingi.

Það kynni nú einhverjum að detta í hug, að það væri auðveldast að segja, að öll þessi tæki ætti nú að taka í einu eða sem allra fyrst, en þróunin hefur mér vitanlega hvergi í heiminum orðið á þann hátt, heldur hafa menn bætt þessu við sig smátt og smátt, enda hentar það okkur bezt. Ég hygg, að mörg okkar orkuver, og m. a. Sogsvirkjunin, séu að þrotum komin með framleiðslu á raforku. Það er fyrirsjáanlegt, að á næstu einu til þremur árum verður kannske meiri skortur á raforkunni sjálfri, en á tækjum, sem á að nota þessa orku til að knýja. Ég hygg, að svo sé komið, að álagið á Sogsvirkjunina, Elliðaárstöðina og toppstöðina sé nú orðið meira, þegar það er mest, heldur en þessi orkuver eru gerð fyrir, svo að það sé sýnilegt, að allt það, sem við bætist hér frá og þar til nýja stöðin verður byggð, verði til að skapa mikil óþægindi fyrir þá, sem á þessa orku þurfa að treysta, vegna þess að ekki er hægt að fullnægja eftirspurninni. Þetta atriði ber líka að hafa í huga, þegar þetta mál er rætt, og láta það kannske að einhverju leyti ráða því, að ekki sé farið eins ört í sakirnar eins og ef nóg orka væri fyrir hendi. Þó skal ég geta þess, að þessi tæki eru mjög mismunandi orkufrek, sum þurfa mjög litla orku, en önnur aftur á móti meiri orku, og mætti kannske haga framleiðslu og innflutningi rafmagnstækja á þann veg að láta þau tæki ganga fyrir að öðru jöfnu, sem minnsta orku notuðu.

Ég skal svo ekki hafa um þetta mörg fleiri orð. Það liggja fyrir frá n. allnákvæmar upplýsingar, hvað mikið er til af þessum tækjum úti um allt land. Það liggur líka fyrir, hvað mikið muni þurfa á næstu árum. Í sumum flokkunum erum við að komast í að fullnægja eftirspurninni, í öðrum flokkunum eigum við lengra í land, og í sumum flokkunum liggja ekki fullnægjandi upplýsingar fyrir. Það væri kannske hægt að afla frekari upplýsinga, ef n. þætti ástæða til.

Ég legg áherzlu á það við þá n., sem fær málið til meðferðar, að athuga, hvort ástæða er til að breyta frá þeirri stefnu, sem síðasta þing markaði, en hún var að leggja meiri áherzlu á innflutning efnis til að framleiða þessi tæki innanlands, og yfir í þá stefnu, sem hér er mörkuð, að tækin séu flutt inn fullgerð frá útlöndum. Ég hygg, að það komi mjög til álita, hvort ætti ekki að láta sitja við það, sem gert var á síðasta þingi, að beina innflutningnum á þær brautir, að efnivörur yrðu sem bezt tryggðar, til þess að framleiðsla á þessum tækjum haldi áfram.

Ég skal geta þess, að þessi framleiðsla er ekki þýðingarlítil. Þar vinna milli 50 og 60 menn og framleiða fyrir hátt á fjórðu millj. kr. á ári. Mætti framleiða þar miklu meira, ef efni væri nóg. Þá mætti vinna þar í vöktum og auka framleiðsluna um helming.

Þetta vil ég taka fram og skjóta því til hv. n., hvort ekki sé ástæða til að beina till. inn á þá braut, sem gert var á síðasta þingi, fremur en marka með henni nýja stefnu. Ég hygg, að það væri gjaldeyrislega auðveldara og mundi skapa atvinnu í landinu og á ýmsan hátt annan verða til hagræðis í þessu máli.