24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3567)

2. mál, heimilistæki

Pétur Ottesen:

Hæstv. samgmrh. hefur gefið hér nokkrar upplýsingar um það, hvernig ástatt er um öflun ýmissa heimilistækja, sem rekin eru með rafmagni. Þriggja manna n. hefur athugað þetta, og þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. flutti hér, eru frá þeirri n. runnar. Nú vil ég í sambandi við þetta spyrja hæstv. ráðh., hvort þessi athugun sé miðuð við þær virkjanir, sem nú er verið að vinna að og nú eru að hlaupa af stokkunum, eins og Gönguskarðsárvirkjunina og Skeiðsfossvirkjunina, eða þá útfærslu rafmagns, sem nú er frá Andakílsárvirkjuninni. Ég efast nokkuð um, að svo muni vera, þó að ég hafi ekki beinlínis aðstöðu til að vefengja það. En ef svo er ekki, þá raskast mjög sá grundvöllur, sem þessar upplýsingar eru byggðar á að því leyti, hvað langt er komið í að mæta þeirri þörf, sem skapast af aukningu rafveitna.

Hæstv. ráðh. lét orð falla um það, að ef til vill mundi aukning innflutnings á heimilisvélum verða til þess, að það vanti rafmagn til að knýja þessar vélar. Miðaði hann þar við það, hversu komið er hér í Reykjavík. Ég get upplýst um það, hvað snertir Andakílsárvirkjunina, að þar hefur ekki verið hægt að hagnýta nema nokkuð af þeirri orku, sem vélarnar geta framleitt, vegna þess og þess eins, að það hefur vantað áhöld til að nota þessa orku. Það er ekki langt síðan, þó að það sé fyrir utan verkefni þessarar till., að ekki var hægt að fá rafmagnsmótora til að reka frystihúsin á Akranesi, sem eru stór þátttakandi í notkun rafmagnsins. Um langt skeið eftir að rafveitan kom til framkvæmda varð að reka þessi frystihús með olíumótorum, sem kosta ákaflega mikið í rekstri, eins og kunnugt er, en afl fossanna streymdi fram ónotað. Og það er svo nú í dag, að mjög vantar, bæði á Akranesi og í þeim byggðum, sem rafveiturnar hafa verið leiddar til, áhöld til að nota þessa orku, svo að hægt sé að hagnýta hana á heimilunum, eftir að raforkan er komin til sögunnar. Ég fæ sjálfsagt upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh., hvort upplýsingar hans eru miðaðar við Sogið eingöngu og kannske Laxárvirkjunina í Þingeyjarsýslu, því að þar mun vera mjög á skipað um notkun þess afls, sem þar er fyrir hendi.

Þá vil ég enn fremur gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort þessar upplýsingar nái einnig til þeirra rafmagnsnotenda úti um byggðir landsins, sem hafa olíumótora, en það er orðið mjög algengt, að þeir, sem ekki geta fengið rafmagn, sem framleitt er með vatnsorku, hafi mótora, sem eru það aflmiklir, að þeir framleiða ekki eingöngu rafmagn til ljósa, heldur til hvers konar annarra nota á heimilum, sem rafmagn er notað til, eins og til þess að elda við það, til þvottavéla, ísskápa og annarra áhalda, sem notuð eru á heimilum til þess að létta heimilisstörfin. Ég verð að segja það, að eins og ástatt er nú um fólk í sveitum landsins, þar sem víðast er ekki öðrum til að dreifa en húsmóðurinni einni, þá er það sannarlega sorglegt, að svo skuli vera ástatt, að það séu ekki fyrir hendi tæki og vélar, t. d. þvottavélar og önnur slík tæki, svo mjög nauðsynleg sem þau eru á heimilum, og að það skuli ekki vera hægt að fá þessar vélar og nota þannig rafmagnið og bæta þannig aðstöðu heimilanna. Við megum vita það, að eins og nú er komið, þá eru störf húsmóður á sveitaheimili svo þung og erfið, að þau geta verið orsök til þess, að ýmsar byggðir og sveitabæir leggist í eyði, af því að ofhlaðið er á starfskraftana. Afleiðingin verður því sú, að fólkið leitar til annarra staða, þar sem betri skilyrði eru fyrir hendi og ekki er lagt um of á þess starfskrafta. Það er frá þessu þjóðhagslega sjónarmiði séð ákaflega mikil nauðsyn, að hægt sé að fullnægja þessum þörfum, hvort sem raforkan er framleidd með vatnsorku eða, eins og nú er, með olíumótorum, en það er orðið mjög algengt úti um sveitir landsins, því að mönnum hefur tekizt að fá olíumótora, sem eru ekki ákaflega dýrir að stofnkostnaði til og eru auk þess ekki heldur mjög dýrir í rekstri, þannig að bændur hafa yfirleitt aðstöðu til að kljúfa þann kostnað, sem leiðir af því að veita sveitaheimilunum þessa hagræðisaðstöðu. Nú kom hér fram í skýrslu hæstv. samgmrh., að afar mikið skortir á um það að fullnægja þörfinni um þvottavélar, þar sem hún er miðuð við það, að fyrir hendi þyrftu að vera 12 þúsund þvottavélar. Vantar hér mjög mikið inn í, þar sem ekki er fullnægt eftirspurninni nema að 1/3 hluta, enda er ekki enn þá farið að vinna að því að smíða þessar vélar innanlands, þó að kannske sé hafinn undirbúningur að því, að svo verði gert.

Ég vildi aðeins benda á þessi atriði, auk þess sem ég óska eftir upplýsingum um, hvaða grundvöllur er undir þessari skýrslu n.

Það má ef til vill skilja orðalag þessarar till. þannig, að þar sé eingöngu miðað við að fullnægja þörfinni með því að flytja inn fullbúnar vélar. Ég get vel tekið undir það með hæstv. ráðh., að það væri mjög æskilegt, að hægt væri að framleiða sem mest innanlands, en þó er ekki hægt að loka augunum fyrir því, hvað innlendur iðnaður er ákaflega dýr. En það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það er ákaflega mikilsvert frá ýmsu sjónarmiði að geta unnið þessi verk í landinu sjálfu og hagnýtt íslenzkan vinnukraft til að vinna þessi verk. Það væri þess vegna sjálfsagt, þegar till. kemur til afgreiðslu í þinginu, að það stæði opið að sjá almenningi fyrir þessum nauðsynlegu heimilisáhöldum með því að smíða þessi tæki hér á landi, eftir því sem við verður komið, og það þarf ekki nema nokkra pennadrætti í n. til að breyta till. í það horf, og það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það væri líka í fullu samræmi við þá stefnu, sem fram kom í sambandi við samþykkt þáltill. á síðasta þingi.

Ég vildi segja þessi orð í sambandi við þessa þáltill. að gefnu tilefni, af því að það mundi vera í ýmsum tilfellum komið nær að fullnægja þörfinni, en raun ber vitni, a. m. k. þar sem ég þekki bezt til, en það er í mínu kjördæmi. Þar skortir mjög á að fullnægja þessari þörf, svo að það hefur orðið til stórtjóns fyrir virkjunina við Andakílsárfossa og mikils baga fyrir almenning, vegna þess að vantað hefur tæki á heimilin til að hagnýta þá raforku, sem menn hafa átt kost á að fá.