11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki gera þetta frv. að umtalsefni almennt, til þess er það of mikil handaskömm. Gegnir furðu, að fyrir skuli liggja yfirlýsingar um það, að tveir hæstv. ráðh. hafi setið með sveittan skallann, ekki aðeins virka daga, heldur líka helgidaga og jólafríið, til þess að koma því saman, því að venjulegir meðalmenn mundu hafa komið þessu saman á einum eða tveimur dögum, þar sem farnar eru troðnar slóðir, aðeins sett dýpri eymdar- og ólundarspor, en áður. Ef ég vissi, að með þessu frv. væri tjaldað til aðeins einnar nætur, mundi ég ekki koma með neinar brtt. við það, en ég þekki stjórnina að því að vera handónýta í sínum störfum og hef reynslu af því, að það, sem hún telur sig ætla að gera, gerir hún yfirleitt ekki, og þess vegna tel ég ekki óhætt að treysta því, að fyrir 1. marz fáist lausn á þessu máli, og getur þá verið, að þetta frv. verði framlengt, sbr. till. á þskj. 188, um svokallaðar frílistavörur. Ríkisstj. tók upp á því í fyrra að láta vörur á þennan frílista, hafandi til þess enga heimild frá Alþ. eða í íslenzkum l., og er það eitt af þeim verkum, sem ríkisstj. gerir í blóra við Alþ. og án þess að hafa til þess heimild í l. Var þetta gert í fyrra, þegar þinghléið stóð, og ekki einu sinni haft það við að segja þm. frá því. Þessi brtt., sem ég tel, að ekki þurfi að lesa, fer fram á það að færa þessar frílistavörur í sama form og ríkisstj. samþykkti þær upphaflega í fyrir réttu ári síðan, þegar hún var að gefa út þessi fríðindi, sem útgerðarmenn töldu sig til að byrja með geta sætt sig við. Var þá meiningin, að sá gjaldeyrir, sem kæmi inn fyrir þessar frílistavörur, gengi til bankanna og yrði meðfarinn eins og annar gjaldeyrir, sem þangað kæmi, nema þeir þurftu að fá visst álag, eftir því hvaða vörur um var að ræða. En í reyndinni hefur þetta orðið allt öðruvísi. Reyndin hefur orðið sú, að þegar gjaldeyririnn kemur til bankanna yfirleitt — að vísu eru til undantekningar í stað þess, að upphaflega var ætlazt til af ríkisstj., að síðan fengju þessir menn, sem fluttu inn gjaldeyrinn, þennan gjaldeyri með vissu álagi, þá hafa útgerðarmenn sjálfir fengið þennan gjaldeyri. Þeir hafa síðan gengið á milli manna og sagt: Nú á ég svo og svo mikinn gjaldeyri fyrir hrogn. Hvað viljið þið gefa mér mikið fyrir hann? — Út úr þessu hefst svo svartamarkaðssala og á þennan hátt hefur þessi frjálsi gjaldeyrir orðið til þess að hækka þær vörur, sem keyptar hafa verið fyrir hann, að vísu misjafnt eftir því, með hvaða kjörum þeir innflytjendur, sem fengu hann, hafa keypt hann af útgerðarmönnum. Auk þess hefur þetta haft það í för með sér, að þær vörur, sem fyrir voru, hafa hækkað, eftir að sams konar vörur keyptar fyrir hrognagjaldeyri voru komnar í búðirnar.

Ég ber sem sagt ekki það traust til hæstv. ríkisstj., að hún verði búin að finna neina frambúðarlausn á vandamálunum fyrir 1. marz, heldur býst ég við, að helzta fangaráð hennar yrði þá bara að taka lán, þannig að ég ber ekkert traust til hennar. Ef hæstv. ríkisstj. gæti fullvissað mig um það, að hún eftir tvo mánuði yrði búin að finna lausn, mundi ég ekki bera fram neinar brtt., en af því að ég treysti því á engan hátt, legg ég hér fram brtt., sem ég afhendi nú hæstv. forseta.