19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3573)

2. mál, heimilistæki

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt till. á þskj. 2 og brtt á þskj. 3 og orðið sammála um að afgreiða báðar till. á þann hátt sem sést á þskj. 108. — Brtt. á þskj. 104 tók n. ekki til meðferðar, þar sem hún var ekki fram komin, er nál. var gert.

Eðlilegt er, að fram komi till. eins og þessar. Eftirspurnin er mikil eftir hvers konar heimilisvélum og nauðsynlegt, að sem flestir geti haft þeirra not. Sú stefna var mörkuð á síðasta þingi, að stuðla bæri að því, að sem mest væri smíðað af þessum tækjum í landinu sjálfu. Við eigum mikið af vel færum iðnaðarmönnum, og verksmiðjur, sem hér hafa risið og framleitt þessi tæki, hafa staðizt samkeppni við erlenda framleiðslu sams konar, bæði hvað snertir verð og gæði. Sérstaklega er það ein verksmiðja, sem framleiðir þessi tæki í stórum stíl, og hefur hún síðan í fyrra haft nægilegt efni til framleiðslu sinnar. Fleiri verksmiðjur gætu náð svipuðum árangri, ef þær hefðu efni til framleiðslu og aðrar aðstæður sambærilegar. N. leggur áherzlu á það, að halda beri áfram á þessari braut, sem þannig var mörkuð, með því að stuðla að eflingu þessa iðnaðar í landinu sjálfu. Með því móti mætti svo fara, að fljótlega yrði bætt úr vöntuninni á þessum tækjum í landinu, án þess að gengið væri um of á gjaldeyrisstofn þjóðarinnar. Þess ber þó að geta, að ýmsar af þessum vélum er enn ekki unnt að framleiða í landinu, og hefur n. lagt til á þskj. 108, að þær vélar verði fluttar til landsins. T. d. hefur borið mjög á því til sveita, að tæki eins og olíulampa og glös, sem kosta mjög lítinn pening, vantaði tilfinnanlega. Virðist þar fremur muni vera um að kenna gleymsku innflutningsyfirvaldanna heldur en því, að synjað hafi verið um gjaldeyrisleyfi til þessara nauðsynlegu en ódýru hluta. Önnur heimilistæki, svo sem eldavélar, og þá AGA-vélarnar svokölluðu sérstaklega, eru mjög eftirsótt. Veita AGA-vélarnar svipuð þægindi við eldun eins og rafmagnsvélar, og virðist eðlilegt að gefa mönnum kost á að eignast þær, þar sem rafmagn er ekki fyrir hendi. Þær eru nokkuð dýrar, en endingargóðar og í notkun þykja þær jafnvel taka rafmagnseldavélunum fram hvað þægindi snertir. Þannig eru ýmis tæki, sem ekki er unnt að smíða í landinu sjálfu, og virðist einsætt að stuðla að því, að þau séu flutt inn. En auðvitað verður að miða þann innflutning eins og annan við gjaldeyristekjurnar, eins og sérstaklega er fram tekið í nál. Hærri kröfur er ekki unnt að gera.

Till. á þskj. 104 hefur n. ekki fjallað um. Það er mál út af fyrir sig, sem hún hefur ekki tekið afstöðu til.