19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (3575)

2. mál, heimilistæki

Pétur Ottesen:

Það fer eftir þeim skilningi, sem heimilt telst að leggja í till. hv. allshn., hvort ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að þakka beri þessa afgreiðslu. Ég sé ekki betur, en á því geti verið nokkur tvímæli. Í fyrri lið till. er lögð áherzla á það, sem ekkert er athugavert við í sjálfu sér, að reynt verði eftir föngum að greiða fyrir innflutningi á efni til smíða í landinu sjálfu bara ef hægt er þá að smíða tækin, t. d. þvottavélarnar. En með tilliti til þess, sem felst í síðari lið till., vildi ég spyrja, hvort hann beri að skilja svo, að taka beri strax fyrir innflutning á þeim tækjum, sem hægt er að smíða í landinu sjálfu, enda þótt e. t. v. sé ekki unnt að fullnægja eftirspurn með innlendri framleiðslu. Mér virðist, að málsgreinina mætti skilja þannig, að taka bæri þannig fyrir þennan innflutning. Sé ég þá heldur ekki betur en svo sé komið, að till. verki öfugt við það, sem hv. flm. ætlaðist til. Það eru allir sammála um, að æskilegt væri, að hægt yrði að framleiða sem mest af þessum tækjum hér í landinu. En gott væri, ef hægt væri að fá um það upplýsingar hér, að hve miklu leyti verksmiðjan í Hafnarfirði, sem framleiðir t. d. verulegan hluta af þeim eldavélum, sem eru á markaðinum, — hve langt hún er komin áleiðis í því að smíða t. d. þvottavélar. Hún mun ekki fullnægja nema brothluta af þeirri þörf, sem er fyrir þau tæki. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort skilja beri síðari lið till. svo, að tekið verði fyrir innflutning á þeim tækjum, t. d. þvottavélum, sem að vísu má kalla, að unnt sé að smíða í landinu, en framboð þó aðeins brothluti af eftirspurninni.