15.02.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (3589)

2. mál, heimilistæki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil þakka, hve vel till. minni hefur verið tekið, en vil mótmæla því, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., að hún sé óþörf. Í till. n. er það orðað svo, að þessi innflutningur verði leyfður eftir því, sem gjaldeyrisástæður leyfa, og nú vita allir, að þar sem n., sem úthlutar leyfunum, lætur rekstrarvörur sitja fyrir, þá muni þetta sitja á hakanum, en ef till. mín verður samþ., þá verða einnig þau frumstæðustu tæki til að elda ofan í sig matinn sett jafnhátt og almennar rekstrarvörur. Mér þykir vænt um, að n. skuli vilja lofa þessu að fljóta með, og ég vona, að innflutningsnefnd og viðskmrh. sjái um, að eldavélar verði fluttar inn, svo að fólk neyðist ekki til að elda á hlóðum, eins og sums staðar hefur átt sér stað nú undanfarið, af því að eldavélar hafa hvergi fengizt.