01.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3604)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Emil Jónsson:

Þessa tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina, frá Framsfl., ber að með nokkuð undarlegum hætti, þó nokkuð undarlegri en venjulegt er, og eru þingmenn þó ýmsu vanir.

Fyrir nálega þrem vikum var Alþfl. tilkynnt, af sjálfstæðismönnum, að tillögur þeirra í efnahagsmálum væru tilbúnar, og okkur í trúnaði skýrt frá í aðalatriðum, hverjar þær væru. Jafnframt var okkur frá því skýrt, að framsóknarmönnum hefðu verið afhentar tillögurnar um líkt leyti. Óskaði Sjálfstfl. eftir því, að báðir þessir flokkar kynntu sér þær, og óskaði eftir samvinnu um afgreiðslu þeirra. Þetta var út af fyrir sig ekki óeðlilegt. Hins vegar mátti Sjálfstfl. vera það ljóst, að um samvinnu af Alþfl. hálfu um lausn, sem byggðist í aðalatriðum á gengislækkun, gat ekki verið að ræða, enda var honum mjög fljótlega tilkynnt þetta. Allt öðru máli var að gegna um Framsfl. Hann hafði þráfaldlega látið í ljós, að hann gæti hugsað sér úrlausn þessara mála á gengislækkunargrundvelli, enda leið ekki á löngu að samningar væru upp teknir á milli þessara flokka, að vísu ekki samningar um lausn málsins sjálfs, til þess að byrja með, heldur um samstjórn, er síðar tæki að sér að leysa sjálft málið. Sýnir þetta út af fyrir sig betur en allt annað, hve innilega flokkarnir voru sammála um sjálft málið, að þeir gátu hugsað sér að mynda fyrst stjórnina, málefnasamningalaust. Það mundu þeir undir engum kringumstæðum hafa þorað að leggja út í, nema fyrir fram væri öruggt, að um þetta mál væri ekki ágreiningur, að minnsta kosti enginn verulegur, hvorki um aðalatriðið, gengislækkunina, né aukaatriðin, ráðstafanir þær, er þeir teldu nauðsynlegt að gera samhliða.

En svo skeður það merkilega. Rétt um það leyti, sem allt virðist vera að falla í ljúfa löð, um miðja vikuna sem leið, þegar menn töldu sig orðið vita, að búið væri að skipta ráðherraembættunum réttlátlega milli flokkanna, og höfðu góðar heimildir fyrir, að ekkert virtist vera að vanbúnaði, að hin nýja stjórn birtist til að leysa hin stóru verkefni, sem biðu hennar, þá skyndilega er allt upp í loft. Ekki er mér kunnugt um, hvað þessari uppstyttu olli, því geta aðilarnir sjálfir skýrt frá, ef þeir kæra sig um, en þá ber það að tvennt í senn s. l. laugardag, að útbýtt er í neðri deild frv. til laga um gengisskráningu o. fl. frá ríkisstj. og alveg samtímis vantrauststillögu á ríkisstjórnina frá Framsfl., eða nánar tiltekið frá þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni og hvort tveggja að mínu viti jafnábyrgðarlaust og jafnfráleitt.

Sé það meining Sjálfstfl., að einasti vegurinn til að bjarga þjóðinni sé að koma á þessari gengislækkun, þá lýsir það fullkomnu ábyrgðarleysi hjá flokknum að kasta þessu máli fram, án þess að hafa nokkurn veginn tryggt því fylgi, svo að unnt sé að afgreiða það fljótt, enda geta slíkar stórbreytingar sem þessar, sem hafa jafndjúptæk áhrif í allar áttir, því aðeins lukkazt nokkurn veginn frá þeirra sjónarmiði, að hægt sé að gera þær fljótt, svo að segja í einu vetfangi. Í staðinn má nú búast við, að þingið verði að veltast með þær í marga daga, jafnvel vikur, og á meðan eru bankarnir lokaðir og efnahagsstarfsemi í landinu lömuð.

En ekki verður hin aðgerðin skiljanlegri, leikur Framsfl. á hinu pólitíska taflborði, að bera fram vantraust á flokkinn og stjórnina, sem hann hefur setið að samningaborðinu við og er í aðalatriðum innilega sammála. Frá mínu sjónarmiði er á þessu til aðeins ein skýring. Framsókn er að berja Sjálfstfl. til ásta. Það er sýnilegt, út af aðalmálinu, sem fyrir liggur, gengislækkunarmálinu, að Framsókn getur ekki vænzt stuðnings hvorki Alþfl. né kommúnista um stjórnarmyndun til að leysa það mál. Það eina, sem upp úr vantraustinu getur þess vegna komið, á þingræðislegan hátt, er samvinna milli flokksins, sem vantraustið ber fram, og flokksins, sem vantraustið er samþykkt á.

Nú veit ég náttúrlega ekki, hversu mikið Sjálfstæðisfl. lætur berja sig í þessu skyni, en segja mætti mér, að á venjulega dauðlega menn verkaði barsmíðin ekki eins og til er ætlazt. Af þessum ástæðum væri það mér skapi næst, og ég hygg flestum okkur, Alþýðuflokksþingmönnum, að láta þá eina um að bítast, sjálfstæðismennina og Framsókn, og sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu, þar sem hér virðist vera um óvenju skrýtinn leikþátt að ræða, í stað alvarlegra átaka um eitt þýðingarmesta mál, sem fyrir Alþingi hefur legið hin síðustu missiri. Við munum þó ekki gera þetta, heldur greiða atkvæði með vantraustinu, og liggja til þess ástæður þær, er ég nú skal greina.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, var því lýst yfir af hálfu Alþfl., að hann veitti henni hvorki stuðning né hlutleysi. Hins vegar mundi hann ekki leggja stein í götu hennar fyrst um sinn, þar til séð yrði, að hverju hún stefndi. Nú hefur hún borið fram mál, sem Alþfl. hefur alla tíð barizt hatrammlega á móti, þegar hann hefur séð sér fært. Afstaða flokksins til ríkisstj. nú hlýtur því að mótast af þessu máli. Það skal að vísu viðurkennt, að í gengislækkunarfrv. ríkisstj. nú er sárasti broddurinn numinn burt með því að veita takmarkaða uppbót á laun. En allt um það telur Alþfl., að byrðar þær, sem gengislækkunin eftir frv. leggur þjóðinni á herðar, komi óréttlátlega niður.

Með hinum nýja vísitöluútreikningi er útlenda vörumagnið í búreikningum skert mjög verulega hlutfallslega frá því, sem nú er, og hækkunin á því, með lækkandi krónugengi, að miklu leyti falin. Þegar kemur fram yfir 1. júlí n. k., er aðeins gert ráð fyrir uppbót á 6 mánaða fresti, í stað 1 mánaðar áður, og enn fremur því aðeins að hækkunin nemi meira en 5%, sem sennilega svarar til rúmlega 20 núverandi vísitölustiga. Allt, sem fellur utan við núverandi vísitöluútreikning, og það er orðið margt nú af erlendum verzlunarvörum hjá almenningi, verður óbætt, en hækkar þó um rúm 74% í innkaupi.

Námsmenn erlendis þurfa hér eftir að greiða dvalarkostnað sinn 74% hærra verði en áður, án þess að séð verði, að þeim séu ætlaðar neinar bætur. Er viðbúið, að margir þeirra verði að hætta námi ef ekki verður sérstaklega að gert þeirra vegna, að minnsta kosti á þeim stöðum, þar sem dýrast er að lifa, eins og t. d. í Ameríku, þar sem mér virðist kostnaðurinn við ársdvöl muni komast yfir 40 þús. kr. Annars staðar mun námskostnaður verða 15–20 þús. kr. árlega, og spurning, hvort sú upphæð dugir.

Yfirmenn á skipum, t. d. togurum, taka nú meginhluta launa sinna í hundraðshluta af afla og hafa eins og er hæstu laun í þessu landi, eða um og yfir 100 þús. kr. á ári. Þeirra laun hækka samkvæmt frv. um 74% og komast því upp undir 200 þús. kr. á ári með þessu móti. Þetta er ekki að skipta byrðunum jafnt á þjóðfélagsþegnana.

Þá er enn ógetið þeirrar eignatilfærslu, sem verður milli þeirra, sem eiga fasteignir, skip o. þ. h. raunveruleg verðmæti, og hinna, sem peninga eiga. Sparifjáreigendur tapa, vegna hækkandi verðlags, en hinir hagnast, sérstaklega léttist áhvílandi skuldabyrði, ef hún er fyrir hendi, á kostnað sparifjáreigendanna. Tilhneiging til sparifjársöfnunar verður því lömuð, og mátti þó sízt við því, eins og nú er högum háttað hjá okkur. Þeir tilburðir, er fram koma í frv. til lagfæringar á þessu, eru að vísu í rétta átt, en ná þó hvergi nærri tilgangi sínum.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum verður því sú, að þær byrðar, sem gengislækkunin leggur þjóðinni á herðar, hljóti að koma ranglátlega niður og verst og þyngst á þeim, sem sízt skyldi.

Annað aðalatriði þessa máls er svo það, hvort aðgerðirnar komi að fullum notum, hvort þær nægi til þess, að sjávarútvegurinn geti haldið áfram af fullum krafti hallalausum rekstri. Ég leyfi mér að efast um þetta.

Í frv. eru engar ráðstafanir gerðar til að tryggja það, sem hagfræðingarnir þó lögðu hvað mest upp úr, þ. e. a. s. að lánsfjárþensla og óhófleg fjárfesting verði stöðvuð, ríkisbúskapurinn verði rekinn án greiðsluhalla og Marshallfé að miklu leyti notað til niðurgreiðslu á skuldum ríkisins.

Auk þess má hvorki verðlag né kaupgjald hækka svo á ný, að reksturinn hætti að bera sig. Nú hækkar verðlag mikið, það verður fyrsta afleiðingin, það er vitað, og leggst mjög misþungt á þjóðina eins og áður er sýnt. Einasta nauðvörn verkalýðsfélaganna og launþeganna er þá kauphækkun, ef ekki verða gerðar aðrar ráðstafanir, sem jafngilda henni. Nú held ég, að öllum sé orðið það ljóst, að áframhaldandi kaup- og verðlagshækkanir leiða til hreinnar glötunar og engra bóta, eru stundarfróun án þess að vera frambúðarlausn. Allt veltur því á, hvort hægt verði að gera skynsamlegar ráðstafanir í húsnæðismálum, í verzlunar- og skattamálum og fjöldamörgum öðrum til þess að draga svo úr dýrtíðaraukningunni, sem þessari lagasetningu verður samfara, að við það verði unað af launþegasamtökunum, því án þess verða áhrif gengislækkunarinnar fyrir útveginn gerð að engu með hækkuðu verðlagi og kaupgjaldi, öllum til meins, áður en varir.

Ég hef ekki trú á, að Sjálfstfl., og ekki heldur að Framsfl. og Sjálfstfl. saman takist þetta. Þess vegna er Alþfl. á móti frv. og tortrygginn á allar aðgerðir flokkanna í þessa átt.

Í síðustu kosningum var að verulegu leyti kosið um þetta frv., þ. e. um gengislækkun. Sjálfstfl. og Framsfl. lýstu því yfir hreinlega, beint og óbeint, að þeir mundu beita sér fyrir gengislækkun. Alþfl. lýsti sig henni andvígan. Kommúnistana þarf ekki að nefna. Þeir léku tveim skjöldum, miðandi afstöðu sína við flokkspólitískar spekúlasjónir, eins og vant er, og ekki annað, og verða því ekki teknir alvarlega. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar valdi gengislækkunarflokkana og verður nú að súpa seyðið af því. Alþfl. dró sig til baka, og formaður hans baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Sjálfstfl. tók við, og nú liggja hans tillögur fyrir. Alþfl. hefur vantrú á þeim og er tortrygginn gagnvart þeim afleiðingum, sem þær kunna að hafa. Hann mun bera fram sínar brtt. og reyna að fá frv. lagfært eins og honum er frekast unnt, þó að hann sé á móti því í aðalatriðum.

En afstaða hans til þessa frv. hefur þá einnig mótað afstöðu hans til vantraustsins, sem hér liggur fyrir, þannig að hann mun greiða atkvæði með því, þó að ef til vill mætti segja, að hann ætti að láta það afskiptalaust, eins og það mál er í pottinn búið.