01.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ræða þetta mál með tilliti til þess, sem komið hefur fram af hendi þeirra ræðumanna, sem hér hafa talað af hálfu hinna flokkanna.

Að því er snertir afstöðu Alþfl. til þeirra vandamála, sem fyrir liggja, þá finnst mér hann ekki hafa valið sér gott hlutskipti: að vera á móti gengislækkun og á móti niðurskurði og þykjast vera á móti því að lögleiða stórkostlega nýja tolla til þess að halda áfram uppbótaleiðinni. Ég fæ ekki betur séð en að hann sé á móti þeim þremur leiðum, að meðtöldum uppbótaráðstöfununum, sem til greina geta komið, en nauðlendi í því að greina frá því, að hefði hann ráðið einn, mundi hann hafa þjóðnýtt utanríkisverzlunina. Þetta finnst mér ólíkt þeirri afstöðu, sem slíkir flokkar taka í nálægum löndum, og þykir mér ólíklegt, að sósíaldemókratískir flokkar í Danmörku og Svíþjóð skoruðust undan að eiga þátt í einhverjum af hinum tiltækilegustu leiðum, en skærust úr leik og gerðust þjóðnýtingarflokkar. — Læt ég þetta nægja um afstöðu Alþfl. til frv. þess, sem fyrir liggur, nema nokkur ummæli hv. þm. Hafnf., sem ég mun koma að síðar.

Hv. 5. landsk., Ásmundur Sigurðsson, sem talaði fyrir hönd Sósfl., sagði, að Sósfl. hefði boðið framsóknarmönnum upp á mjög aðgengilega samfylkingu, og gerði mikið veður út af því, að Framsfl. hefði ekki viljað þekkjast þetta góða boð og þar með sleppt gullnu tækifæri til þess að koma, að mér skildist, stefnu Framsfl. og kosningamálum hans í framkvæmd. Í þessu skyni, sagði hann, hefðu verið haldnir fundir og niðurstaðan orðið sú, að enginn málefnaágreiningur hefði komið fram. En hann gleymir því, að það, að enginn málefnaágreiningur kom fram, kom til af því, að þetta komst ekki svo langt, að málefnin væru rædd. Því var slegið föstu á fundinum, að stjórnarmyndun af því tagi, sem stungið var upp á, gæti ekki orðið, þegar af öðrum ástæðum. En ef við athugum þau samfylkingartilboð, sem Sósfl. hefur verið að gera og eru sams konar og slíkir flokkar gera í öllum Evrópulöndum, kemur í ljós, að samfylkingin á að vera um stefnu þessa flokks. Ég var rétt áður en ég fór í pontuna að lesa yfir samfylkingaryfirlýsingu síðasta flokksþings Sósfl. Þar er ekki getið um, hvernig eigi að leysa vandamál íslenzkra atvinnuvega, en því slegið föstu, að það verði að losa Íslendinga úr tengslum við Marshalllöndin og leita nýrra markaða í Sovétríkjunum. Þessi flokkur hefur ekki boðið upp á neina tæka leið, en segir allan vandann vera þann að losa sig við Marshalllöndin og leita nýrra markaða í Sovétríkjunum. En hvernig ætti að neyða Rússa, til þess að kaupa afurðir okkar við hærra verði en þeir vilja, hefur ekki verið upplýst. Þarna hefur þeirra nauðlending verið, kommúnista.

Kommúnistar hafa fyrr og síðar verið sterk stoð íhaldsins. Vegna þess, hvernig kommúnistar hafa klofið verkalýðssamtökin, eru áhrif sjálfstæðismanna jafnmikil á Íslandi og þau eru í dag. Þeir eru hækjur íhaldsins, Ásmundur og aðrir slíkir. Þetta er sífellt að renna æ gleggra og gleggra upp fyrir mönnum, sem sést bezt á því, þegar Jónas Haralz treystir sér ekki til þess að starfa þar lengur og mun yfirgefa þennan flokk, og hlýtur þróunin hér að vera sú sama og í öðrum löndum að þessu leyti. Þessi skeleggi baráttumaður af hendi Sósfl. fór nokkrum orðum um till. þá, sem fyrir liggur, en ekki var hægt að skilja afstöðu hans eða flokks hans til hennar. Ég gat ekki skilið hana. Allt er þetta prófsteinn á hann og hans flokk, því að ef þeir meina nokkuð með því, að nauðsynlegt sé að koma fram endurbótum á því máli, sem fyrir liggur, svo sem nýrri stefnu í verzlunarmálum, betri ákvæðum um stóreignaskatt og endurbótum í húsnæðismálum, getur ekki verið vandamál í þeirra augum, hvernig greiða eigi atkvæði um þá till., sem fyrir liggur, því að mönnum með þann hugsunarhátt getur ekki dottið í hug að styðja áfram flokksstjórn Sjálfstfl.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, byrjaði á að tala um álit Benjamíns Eiríkssonar og aðdraganda þess og sagði, að tillögur Framsfl. í sumar hefðu aðeins verið um útkanta málsins. Annaðhvort er hann gleyminn eða hann hefur lesið þessar tillögur eins og viss persóna les biblíuna, því að þessar tillögur taka til greina öll höfuðatriði þessara mála. Og eigi hann við, að ekki hafi verið bent á leið til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum, var þar berum orðum sagt, að um tvennt væri að ræða: gengislækkun eða niðurfærslu. En hann getur sagt um Sjálfstfl. sama og hann sagði um Framsfl. Hann lét frá sér fara um svipað leyti í gagntillögum sínum dularfullt skraf um tillögur til jafnvægis, án þess að segja, í hverju það væri fólgið.

Hæstv. ráðh. sagði, að í áliti Benjamíns Eiríkssonar hefði komið fram, að vissir þættir í stefnu sjálfstæðismanna væru réttir. Mér finnst, að hæstv. ráðh. ætti ekki að minnast á þetta, því að í áliti Benjamíns, sem hann gerði í sumar og aftur núna, er tekið fram, að um tvær stefnur gæti verið að ræða. Annars vegar jafnvægisstefnuna, hins vegar stefnu, sem hann af kurteisi við fyrrv. nýsköpunarstjórn kallaði núna fjárfestingarstefnuna, og sýnir hann fram á það í þessu áliti, að þessi stefna hlaut að leiða til þess, að hér var ómögulegt að halda uppi frjálsri verzlun, þ. e. einmitt vegna þeirrar stefnu, sem Sjálfstfl. valdi. Þetta sýnir hann mjög vel fram á og leggur þess vegna til, að gerbreytt sé til um stefnu til þess að hafa sig upp úr því ástandi, sem komið var í.

Ræðumenn andstæðinganna hafa í þessum umr. yfirleitt, íhaldið, Sósfl. og Alþfl., sagt rangt til um afstöðu Framsfl. til þess frv., sem stjórnin hefur lagt hér fram. Það hefur verið sagt, að Framsfl. væri með þessu frv., en afstaða hans til málsins fer eftir því, hvaða breyt. verða á því gerðar. Þess vegna er það vægast sagt ekki viðeigandi, þegar þm., eins og hv. þm. Hafnf., leyfa sér að tala um, að það séu skrýtin vinnubrögð sú till., sem hér hefur verið lögð fram af hendi framsóknarmanna, og annað, sem hann greindi í því sambandi. Þau vandamál, sem fyrir liggja, eru stórkostleg og mikið í húfi, hvernig tekst að leysa þau. Gengislækkun eða niðurskurður er aðeins einn hlekkur í þeirri keðju, sem þarf að smíða. Ef vel tekst, gæti gengislækkun með réttum viðbótarráðstöfunum mótað jafnvægi, en yrði annars eins og nokkrar veltur áfram á dýrtíðarhjólinu. Þess vegna verður að gera allt til þess að auka líkurnar fyrir því, að gagn verði að því, sem ráðizt verður í, með því að stjórnarstefnan öll sé í samræmi við það, sem þarf að gera. Í þessu sambandi hefur Framsfl. lagt höfuðáherzlu á að halda niðri verðlagi í landinu, létta af þeirri pressu, sem hvílir á fólki vegna hárrar húsaleigu, tryggja réttlátari vörudreifingu, en verið hefur og afla fjár til nauðsynlegra og mest aðkallandi framkvæmda í byggingarmálum landsmanna, bæði til sveita og við sjó. Enn fremur hefur verið undirstrikuð nauðsyn þess að koma jöfnuði á fjárl. og koma í rétt horf útlánastefnu bankanna. Enginn samþykkir gengislækkun sem hefur ótrú á þeirri stefnu, sem gengislækkun eða niðurskurður er liður í. Þetta verður hver maður að hafa í huga, þegar hann metur þetta.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að afstöðu ríkisstj., út af því, sem hæstv. dómsmrh. tók fram í því sambandi. Hæstv. ríkisstj. vissi það vel, að hún gat ekki haft og getur ekki haft forustuna um það að leiða vandamálin til lykta í þinginu, og hún veit líka vel, að henni verður ekki trúað fyrir framkvæmd þeirra. Framsfl. tók greinilega fram strax, þegar viðtöl byrjuðu um þessi mál, að önnur stjórn yrði að standa fyrir vandamálunum, ef samstarf ætti að verða, vegna þess að helmingur málanna — eða vel það — er framkvæmdin. Af þessu leiddi, að Framsfl. gat ekki fallizt á, að minni hluti Sjálfstfl. leiddi afgreiðsluna, og þess vegna taldi hann það eðlilegt, að stjórnin segði af sér, þegar séð var, að hún gat ekki leitt málið. En hvernig átti afgreiðslan að vera? Afgreiðslan átti að vera sú að leggja ekki þessar till. fram án þess að hafa tryggt meirihlutafylgi við þær fyrir fram. Þess vegna taldi Framsfl. eðlilegast, að Sjálfstæðisflokksstjórnin segði af sér og tilraunir yrðu gerðar til þess að mynda meiri hluta um vandamálin í þinginu, en fleygja ekki málinu svona inn í þingið. Sjálfstæðismenn munu hafa gert sér grein fyrir því, að þeir gátu ekki leyst þennan vanda eins og þurfti að vera, og þess vegna komu þeir með till. um að mæta þessari uppástungu framsóknarmanna með því að gera samtök án málefnasamnings, sem er enginn samningur. Á það féllst Framsfl., en áður en það yrði útrætt, lýsti Sjálfstfl. yfir því, að hann gæti ekki staðið að því að mynda slíka stjórn, en hafði sjálfur átt uppástunguna að því. Nú segir hæstv. dómsmrh., að þessi afstaða Sjálfstfl. hafi verið eðlileg, því að hann hafi ekki viljað mynda stjórn með Framsfl., nema hann segði eitthvað frá því, sem á milli bæri. Það var uppástunga Sjálfstfl. í upphafi að mynda stjórn án málefnasamnings og getur þetta því ekki verið ástæðan fyrir því, að ekki varð af þessari stjórnarmyndun. Þar hlýtur einhver önnur ástæða að liggja á bak við, þar sem Sjálfstfl. hafði í hendi sér að mynda slíka stjórn, en hætti við það.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að nokkuð hefði nú skipt um ástand, þar sem Framsfl. hefði í sambandi við framlagningu málsins rætt nokkru meira en áður um það, hvað hann vildi í þessum efnum. Þetta er misskilningur. Ástandið er eins í dag, vegna þess að það, sem við höfum sagt nú um afstöðu okkar til málsins, er það sama og við sögðum í sumar um afstöðu okkar og hefur legið fyrir allan tímann. Það hefur því verið á valdi Sjálfstfl. að fá myndað ráðuneyti til þess að ganga úr skugga um, hvort samstaða gæti tekizt um vandamálin. Og áhættan virðist nú ekki vera mikil. Ef menn komu sér ekki saman, átti stjórnin að afhenda vald sitt til Alþ. Við féllumst á þessa leið, og ég tel, að þessi leið hefði verið miklu líklegri til árangurs en sú leið, sem Sjálfstfl. valdi. Þegar Sjálfstfl. valdi þessa leið, var það ekki nema eðlileg og sjálfsögð skylda Framsfl. að leggja fram till. um vantraust á ríkisstj., þar sem ljóst var, að seta hennar stóð í vegi fyrir því. að þessi mál gætu vigtað síg á eðlilegan hátt í þinginu, og bað er sú skylda, sem hann er að uppfylla með flutningi þessarar tillögu.