11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það væri nú kannske í rauninni ástæða til að segja ýmislegt um það stjfrv., sem hér er til afgreiðslu, og þá meðferð, sem það hefur hlotið fram að þessu, en ég mun þó ekki fara út í það og eyða þannig tíma d., eins og málinu nú er komið, heldur víkja nokkrum orðum að þeim atriðum, sem ég tel verulegu máli skipta, eins og málið nú liggur fyrir.

Því er haldið fram, að ef þetta frv. verði samþ., geti vetrarvertíðin hafizt með eðlilegum hætti og hægt verði að nota alla þá framleiðslukrafta, sem fyrir hendi eru, til að afla bjargar í bú og þjóðinni gjaldeyristekna. En ég er því miður dálítið hræddur um það, og í raun og veru má fullyrða, að þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., þær eru einar áreiðanlega engin trygging fyrir því, að bátafloti landsmanna í heild geti starfað svo sem vera þarf. Þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., eru fyrst og fremst þær, eins og hv. þdm. er kunnugt, að tekin er ábyrgð á ákveðnu fiskverði bátaflotans um takmarkaðan tíma. Hins vegar er öllum hv. þdm. einnig kunnugt um það, að þetta eitt út af fyrir sig mun alls ekki nægja til þess að vertíðin hefjist og framleiðslutækin verði notuð af fullum krafti. Það liggja fyrir alveg ákveðnar kröfur af hendi útvegsmanna, sem ganga lengra, en þessu nemur. Í frv. felast ákvæði um það, að ef ekki hafi verið gerðar nýjar ráðstafanir fyrir 1. marz, skuli þessi ábyrgðarheimild framlengd til vetrarvertíðarloka. Það er hugsanlegt, að útgerðarmenn á Suðurlandi láti sér nægja þessi ákvæði um ábyrgð út af fyrir sig, en ég vil í þessu sambandi minna á það og vildi gjarnan, að hæstv. atvmrh. veitti því athygli, að það eru allmiklu fleiri útgerðarmenn starfandi hér á landi, en aðeins útgerðarmenn hér við Faxaflóa, og þó að bátaflotinn hér við Faxaflóa sé stór, er það þó ekki nándar nærri allur bátafloti landsmanna. Ég held, að ekki sé rétt að lita fram hjá því við afgreiðslu slíkra mála sem þessa, að einnig verði að taka tillit til þeirra útvegsmanna og sjómanna, sem starfa að þessari framleiðslu annars staðar í landinu, en við Faxaflóa. Og það er víst, að þau ákvæði um ábyrgð ríkisins á fiskverði, sem felast í þessu frv., fullnægja ekki þeim sjómönnum og útgerðarmönnum, sem starfa utan þess svæðis, sem vertíðin við Faxaflóa nær til, enda hafa komið fram raddir frá þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, þar sem þeir telja þetta ófullnægjandi og að í því felist engin trygging, sem stuðli að því, að þeir geti haldið starfsemi sinni áfram hvað þetta snertir. Mér hefur borizt símskeyti frá fundi útgerðarmanna á Akureyri og við Eyjafjörð, og þó að mér sé ekki kunnugt um það, geri ég ráð fyrir, að þessi fundur hafi einnig sent ríkisstj. þetta símskeyti, en í þessari samþykkt felst það, að til þess að þeir telji sér nokkra tryggingu í þessu, verði þetta ábyrgðarverð að gilda, ekki aðeins til 1. marz eða 1. maí, heldur fyrir allt árið. Og það hlýtur að liggja í augum uppi, að þessum mönnum eru ekki sköpuð nein skilyrði til áframhaldandi starfs í frv. eins og það nú er. Ég álít þess vegna, eins og líka kom fram við meðferð málsins í hv. Nd. og líka hefur þegar verið bent á í þessari hv. d., að það sé nauðsynlegt að breyta ákvæðunum um fiskábyrgðarverðið þannig, að ábyrgðin gildi allt árið, ef ekki hafa verið gerðar aðrar ráðstafanir, sem koma að sama eða betra haldi og þær ráðstafanir, sem hér um ræðir. Því er að vísu haldið fram í sambandi við þetta, að þær ráðstafanir, sem gerðar séu með þessu frv., eigi aðeins að vera til bráðabirgða og sé ætlun ríkisstj. að leggja fyrir þingið og afgreiða frá því fyrir 1. marz aðrar aðgerðir, sem eigi að tryggja áframhaldandi starfsemi bátaflotans og þá til frambúðar. En það hefur komið fram frá ýmsum þm., að þeir eru vantrúaðir á það, að þessar ráðstafanir verði komnar í kring fyrir 1. marz, og ég er einn í hópi þeirra, sem draga það nokkuð í efa, að svo muni verða. Meira að segja sjálf ríkisstj. virðist ekki vera meira en svo trúuð á það, að hún verði búin að koma þessu í kring fyrir 1. marz, og setur þann varnagla, að ef þetta verði ekki gert, skuli ábyrgðin framlengd til vertíðarloka, og hún hefur sagt, að það sé skilyrði af hálfu fiskimanna við Faxaflóa fyrir því, að þeir hefji vertíðina, að slíkt skilyrði sé í frv., sem sagt, að þeir séu tryggðir með það að hafa þetta ábyrgðarverð út sína aðalvertíð, og sýnir það, að þeir þora ekki að treysta á það, að þessi framtíðarlausn verði komin í kring fyrir 1. marz. Ég held því, að þegar litið er á allt þetta, verði að viðurkenna, að tryggingin fyrir því, að þessi framtíðarlausn verði komin eftir tvo mánuði, sé svo lítil, að ekki sé hægt að byggja afkomu þeirra útvegsmanna, sem búa annars staðar á landinu, á því, að þessi lausn yrði komin, því að ef svo færi, að ekki yrði samkomulag um þessa svokölluðu framtíðarlausn, þá ræki að því, að þeir, sem stunda útgerð annars staðar en við Faxaflóa og hefja ekki útgerð sína fyrr en þessari aðalvertíð er lokið, hafa enga ábyrgð við að styðjast og geta ekki gert út. Það hníga því öll rök að því, að ekki sé forsvaranlegt af hinu háa Alþingi að afgreiða þetta frv. án þess að breyta því þannig, að ábyrgðin verði látin gilda allt árið, nema þá að aðrar lausnir hafi verið fundnar á vandamálum útvegsmanna. Ef slík frambúðarlausn fengist, þá fellur ábyrgðin niður, og þá er engin áhætta fyrir ríkissjóð, þótt hún sé látin gilda allt árið, en ef slík lausn fæst ekki, þá er óhjákvæmilegt að hafa ábyrgðina í gildi árið um kring. Því mun ég leggja fram brtt. þess efnis, að niðurlag 13. gr. hljóði þannig, að ef ekki hafi fengizt frambúðarlausn þessara mála fyrir 1. marz, þá framlengist ábyrgðin til ársloka og enn fremur, að framlagið skv. 5. gr. hækki hlutfallslega við það, sem ábyrgðin er lengur í gildi. En eins og ég gat um áðan, þá er þessi ábyrgð ein ekki nægileg til þess að tryggja rekstur útgerðarinnar, hvorki hér við Faxaflóa né annars staðar, enda er það ein krafa útvegsmanna, að samkomulag náist um frílista þann, sem L.Í.Ú. hefur lagt fyrir ríkisstj., en með honum er átt við það, að útvegsmenn fái frjálsa ráðstöfun á gjaldeyri fyrir vissar vörutegundir, sem þeir framleiða. Um þetta eru engin ákvæði í frv. og ekkert liggur fyrir Alþingi um það, hvaða vörur útvegsmenn hafa óskað eftir að fá á þennan frílista, og álít ég þó, þar sem hér er um að ræða eitt höfuðskilyrði þess, að nokkur árangur verði af samþykkt þessa frv., að það sé lágmarkskrafa til hæstv. ríkisstj., að Alþingi fái að vita, hverjar kröfur útvegsmanna í þessu sambandi eru og hvað ríkisstj. hefur ákveðið að ganga inn á. Í raun og veru ætti ákvæði um þetta að koma inn í frv., svo að það sé Alþingi, sem kveður á um, fyrir hvaða vörur sé leyfður þessi svo kallaði frjálsi gjaldeyrir. En það minnsta, sem Alþingi getur krafizt, er að fá að vita, hvers útvegsmenn krefjast og hvað ríkisstj. ætlar að samþykkja af þeim kröfum. Ég bendi á þetta atriði sérstaklega af því, að skv. þeirri reglu, sem undanfarið hefur gilt um frílistann, þá er eingöngu miðað við þarfir og kröfur útvegsmanna hér við Faxaflóa og í Vestmannaeyjum, þar sem aðalvertíðin að vísu er, en það er svo þýðingarmikil framleiðsla utan þessa svæðis, að hæstv. ríkisstj. má ekki sjást yfir það, og í sambandi við þennan frílista þá held ég, að fram hafi komið mikið misræmi og ég vil segja ósanngirni í garð útvegsmanna annars staðar á landinu, en hér suðvestanlands. Það má t.d. nefna frjálsa gjaldeyrinn fyrir Faxasíldina, sem s.l. sumar og haust var veigamikill þáttur í starfsemi útvegsmanna hér við Faxaflóa og afgerandi þáttur í afkomu þeirra. En ég sé enga ástæðu til þess, að þeir fái allt að helmingi hærra verð fyrir sína hrásíld en útvegsmenn á Norðurlandi, en þetta er staðreynd, að þeir fengu allt að því helmingi hærra verð, en það er vegna þess, að þeir fengu frjálsan gjaldeyri fyrir sína Faxasíld. Þegar rætt er um frílistann og hann settur sem skilyrði af hálfu útvegsmanna fyrir því, að þeir hefji útgerð, þá má ekki líta fram hjá þeim útvegsmönnum, sem annars staðar, en hér við Faxaflóa, veiða síld og það miklu betri síld. Þeir eiga siðferðiskröfu til þess að fá a.m.k. ekki lægra verð, en hinir fá fyrir verri vöru. Því er að vísu haldið fram, að Faxasíldin hefði tæpast verið veidd eða nýtt, ef ekki hefði fengizt fyrir hana frjáls gjaldeyrir, og má vera, að þetta sé rétt, því að þegar fengið er fyrirheit um frjálsan gjaldeyri fyrir einhverja vöru, þá leggja menn miklu meira kapp á að afla hennar en ella. Verður þetta til þess að auka aðstreymi að tilsvarandi atvinnugrein og bæta hag þeirra, er hana stunda. Og vitanlega gildir það sama í þessum efnum sunnan lands og norðan. Ef útvegsmenn á Norðurlandi hefðu fengið að ráðstafa frjálst gjaldeyrinum fyrir sína saltsíld, þá hefði miklu meira kapp verið lagt á að salta síld, en gert var, því að ef saltsíldin hefði verið á frílista, þá hefði verið boðið miklu meira verð í hrásíldina, og þannig hefði afkoma útvegsmanna batnað, svo að þeir þyrftu nú mun minni aðstoð hins opinbera, en raun ber vitni. Auk þess hefði slík verkunaraðferð á síld skapað meiri erlendan gjaldeyri. Það gegnir því alveg sama máli um Norðurlandssíldina og Faxasíldina í sumar, og því held ég, að í sambandi við frílistann sé það algert ranglæti að líta fram hjá þörfum og aðstöðu útvegsmanna annars staðar, en við Faxaflóa, eins og hæstv. ríkisstj. virðist hafa gert, enda þótt útvegsmenn annars staðar hafi ekki þá aðstöðu að geta sífellt verið að ræða við hæstv. ríkisstj. og sett henni stólinn fyrir dyrnar, ef þeir fá ekki vilja sínum framgengt að öðrum kosti. Slíkt má ekki verða til þess, að fram hjá þörfum þeirra sé litið, og því held ég, að það sé bezt að láta Alþingi fjalla um þessi mál, svo að það geti miðlað þessum fríðindum milli útvegsmanna í stað þess, að þeir eigi allt að sækja undir hæstv. ríkisstj., sem virðist aðeins sjá útvegsmennina við Faxaflóa og þarfir þeirra. Ég mun þó ekki bera fram brtt. þess efnis, að valdið í þessum málum verði hjá Alþ., því að mér þykir sýnt, að slík till. mundi ekki ná samþykki hv. d., en það minnsta, sem hægt er að krefjast, er það, að hæstv. ríkisstj. gefi d. skýrslu um það, hverjar kröfur útvegsmanna í sambandi við frílistann eru og hve langt ríkisstj. ætlar sér að ganga til móts við þær, hvort t.d. hæstv. ríkisstj. hugsar sér að binda sig við þær vörur, sem á frílistanum voru s.l. ár, eða hvort hún ætlar að bæta einhverjum við og þá hverjum, og þá kemur í ljós, hvort tekið verður tillit til útvegsmanna á Norðurlandi á sama hátt og útvegsmanna við Faxaflóa. Hér hefur komið fram brtt. frá hv. 1. þm. N–M. (PZ), en sú brtt. var áður flutt í Nd., og er þar gert ráð fyrir að lögfesta frílistann, en með nokkuð öðrum hætti, en verið hefur. Í till. felst það, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að gjaldeyri, er fæst fyrir tilteknar vörutegundir, megi selja með álagi, sem ákveðið er af ríkisstj. sjálfri. Ég álít þetta ekki réttu leiðina. Ég væri með því, að ákvæði væri sett inn í frv. um, hvaða vörur skyldi setja á frílistann, en ég tel ekki rétt að taka upp þetta álag á gjaldeyrinn og leggja það alveg á vald ríkisstj., hve mikið það skuli vera og hvernig það verði lagt á innflutninginn. Þetta yrði í framkvæmdinni bein gengislækkun og þessu yrði jafnað niður á innflutninginn, sem fengist fyrir frílistavörurnar, án þess að þeir, sem aflað hafa gjaldeyrisins, hefðu nokkur áhrif á það, hverjir fengju hann, hvað væri gert með hann og hvaða álag yrði sett á innflutningsvöruna. Þetta yrði, eins og ég sagði, gengislækkun, en mundi ekki ýta undir aukna framleiðslu eða hvetja menn til að leggja aukið fé í framleiðsluna til þess að fá aftur aukinn gjaldeyri, en slíkt er aðalatriðið í þessu máli og það, sem réttlætir frílistaaðferðina, sem sýnt hefur raunar marga galla. Því geri ég ráð fyrir, að ég geti ekki fylgt þessari till. hv. 1. þm. N–M.

Ýmisleg fleiri atriði í sambandi við afgreiðslu þessa máls væri ástæða til að ræða, en að sinni skal ég ekki eyða tíma hv. d. í lengri umr. Ég tel aðalatriðið, að ábyrgðin verði látin gilda allt árið, ef ekki hafa aðrar ráðstafanir verið gerðar, og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. taki tillit til fleiri útvegsmanna en þeirra, sem búsettir eru hér suðvestanlands, þegar hún tekur ákvarðanir um það, hvaða vörur hún setur á frílista.