01.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3614)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh., Bjarni Benediktsson, sagði, að Alþfl. hefði enga stefnu í þessu máli, sem hægt væri að ræða, hvað þá taka alvarlega, og það hafa fleiri haldið svipuðu fram, t. d. sagði 1. þm. S-M., að Alþfl. hefði ekki valið gott hlutskipti. Það er sem sagt spurt: Hvað vill Alþfl.? — og skal ég leitast við að svara því.

Hann vill í fyrsta lagi, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að sjávarútvegurinn verði rekinn hallalaust fyrir útvegsmenn og skili þó eins miklum hagnaði til hins vinnandi manns og mögulegt er. Fyrsta atriðið í þeirri viðleitni telur flokkurinn að eigi að vera að draga úr óþörfum rekstrarútgjöldum eins og frekast er unnt, og hyggur, að þar megi töluvert færa niður, ef fullur vilji er fyrir hendi, og er reiðubúinn að benda á ýmsa liði í því sambandi, bæði viðvíkjandi togurunum og mótorbátunum, og það er eitt í því máli, sem mér þykir næsta furðulegt að fram skuli koma í frv. eins og þessu, en það er, að gert skuli vera ráð fyrir því að hækka laun skipstjóra úr 100 þús. kr. á ári, eins og þau nú eru, upp í hvorki meira né minna en 200 þús. kr. á ári.

Í öðru lagi vill Alþfl., að það, sem á skortir, að jöfnuður fáist, og þjóðarbúið verður beinlínis að leggja til, verði ekki tekið á þann hátt, að þeir, sem minnsta hafa getuna, verði látnir leggja fram hlutfallslega mest. Þetta hefur verið leitazt við að gera með því að styrkja bátaútveginn og afla til þess tekna á þann hátt, að sem minnst snerti almenning, svo sem með skatti af ferðagjaldeyri, kvikmyndaskatti, bílaskatti, skatti á ýmsum tollvörutegundum eins og sælgæti og gosdrykkjum o. fl., o. fl., eins og greinilega kom fram við setningu dýrtíðarlaganna á síðasta ári. Þetta hefur verið gert, og þó að undan sköttunum hafi verið kvartað — það er kvartað undan öllum sköttum —, þá munu menn nú finna á því nokkurn mun og þeirri gengislækkun, sem nú er ætlað að keyra í gegn jafngeysihá og hún er og áreiðanlega afdrifarík. Hvor aðferðin sem notuð verður, og það getur vel verið, að þessi styrkjaleið sé orðin torfarin vegna þess, að ekki hefur tekizt að stöðva dýrtíðina og verðlagskapphlaupið, verður að tryggja það, — ekki út af fyrir sig, að þetta verði gert öllum að kostnaðarlausu, það vita allir að er ekki hægt, — heldur þannig, að byrðarnar leggist á þjóðina með jöfnum þunga hlutfallslega, en það er ekki gert í þessu frv.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um gengislækkun og ráðstafanir í því sambandi, er ísmeygilega samið, en almenningur mun áreiðanlega finna til þess um það er lýkur og meira en menn almennt gera sér grein fyrir. Þá verð ég einnig að lýsa undrun minni yfir því, að gengislækkun er látin verða upphaf að aðgerðum þeim, er nauðsynlega þarf að gera, en ekki lokaátakið, eftir að séð er, hvernig hinar aðgerðirnar verka. ef hennar verður þá þörf.

Þegar dr. Benjamín Eiríksson var fenginn hingað s. l. sumar af fyrrverandi stjórn, þá lagði hann hvað mest upp úr, að tekið yrði fyrir lánsfjárþensluna og hallarekstur ríkissjóðs. Með því og Marshallaðstoðinni mundi mikil lagfæring fást, án þess að gripið væri til annarra ráðstafana. Í áliti sínu frá því í sumar segir dr. Benjamín, með leyfi hæstv. forseta:

„Í umr. hér að framan um leiðir hafa þrjár þýðingarmiklar staðreyndir verið lagðar til grundvallar. Á þeim veltur mest, hvaða leið er ráðlegust, en þessar staðreyndir, sem nú eru, geta allar breytzt í fyrirsjáanlegri framtíð. Og ekki er hægt að ráðast í mikilvægar breytingar, meðan framtíðin er of óviss, nema slíkar breytingar geti ekki með nokkru móti beðið, en nauðungarástand ríkir ekki og því hægt að ætla nokkurn tíma til framkvæmdanna. Auk þess hefur enn ekki tekið að fullu fyrir myndun nýrrar dýrtíðar, þótt sú breyting sé nú að gerast, og því æskilegt að bíða með framkvæmdir eins og gengislækkun eða gjaldeyrisskatt og afnám allra niðurgreiðslna þar til verðlag er hætt að stiga og nægar vörubirgðir hafa myndazt í landinu. Ástandið er því nú að færast í áttina til peningalegs jafnvægis, og mun þeirra breytinga gæta meir og meir með hverjum mánuðinum sem líður, eftir því sem bankapólitík og fjármál færast í eðlilegra horf og eftir því sem mótvirðissjóðurinn vex.“

Þetta sagði dr. Benjamín í júlí 1949, og það hljóta að vera sömu aðstæður nú. Hins vegar virðist þetta hafa gleymzt í sambandi við frv., því að ekki veit ég til, að þessar aðgerðir hafi verið látnar koma til framkvæmda, og það eitt er kunnugt um Marshallsjóðinn, sem auðvitað getur orðið okkur til geysihjálpar í þessum málum, að þm. stjórnarflokksins eru byrjaðir að bera víurnar í hann og vilja gera hann að eyðslueyri, áður en hann er myndaður og áður en hann er farinn að gera það gagn, sem honum er ætlað. Ég efast um, að sú meðferð þjóni réttum tilgangi. Vandamálið er ekki fyrst og fremst verðlagið, segir hagfræðingurinn. Vandamálið er fyrst og fremst dýrtíðin og falska kaupgetan innanlands. Verði þetta lagfært, er mikið fengið, og þetta á að lagfæra fyrst. Engin gengislækkun getur læknað meinsemdirnar, ef ekki verður tekið fyrir greiðsluhalla ríkissjóðs og lánsfjárþenslu bankanna. Þetta vill Alþfl. að fyrst verði lagfært. Þó að það í bili kunni að draga úr fjárfestingarframkvæmdum, verður að taka því, til að koma fjármálakerfi landsins í heilbrigðara horf. Atvinna af hálfu hins opinbera, sem ekkert er til að greiða nema síaukið lánsfé, sem ekkert stendur á bak við og aðeins myndar falska kaupgetu, getur ekki staðizt til lengdar. En auðvitað ber að haga framkvæmdum við hinn lífræna atvinnurekstur, framleiðslustörfin, ef ég svo má segja, þannig, að allir geti haft atvinnu, og það telur Alþfl. að sé hægt með öllum þeim þjóðartekjum, sem við höfum fengið og erum að fá.

1. þm. S-M. sagði, að Alþfl. hefði ekki valið sér gott hlutskipti í þessu máli, þar sem hann gæti ekkert bent á til úrbóta, nema þjóðnýta utanríkisverzlunina, sem væri ekki annað en nauðlending, en væri hins vegar á móti öllum raunhæfum till. Hvernig er það, veit hv. 1. þm. S-M., hver stefna jafnaðarmanna er? Og gæti þjóðnýting utanríkisverzlunarinnar þjónað þeim tilgangi að létta hér undir, er það sannarlega engin nauðlending, heldur þýðingarmikið innlegg í málið. — Hæstv. utanrrh. sagði, að Alþfl. hefði ekki þorað annað en vera á móti málinu vegna hræðslu við kommúnista. Vægast sagt er þetta ekki góðgjörn skýring, enda áreiðanlega sögð gegn betri vitund. Hæstv. utanrrh. veit vel, að andstaða Alþfl. í þessu máli byggist á því, að hann er að gæta hagsmuna þeirra, sem hann hefur umboð fyrir, en ekki vegna neins kapphlaups, enda hefur flokkurinn ekki haft það fyrir venju að þreyta áróðurskapp við kommúnista. Flokkurinn mun því ræða þetta mál efnislega og greiða atkvæði eftir því, sem málefni standa til og hann telur sínum umbjóðendum fyrir beztu.