25.01.1950
Sameinað þing: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3640)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér ljóst, að þessi þáltill. er flutt eftir beiðni ríkisstj., án þess að nokkuð væri minnzt á að leita umsagnar landlæknis, enda hefði ríkisstj. átt að vera búin að því, ef þess hefði þótt þörf. Ég skil ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. er nú að setja fótinn fyrir þetta mál, sem er einmitt undirbúið af honum og flutt eftir hans beiðni. Eina skýringin, sem ég get fundið, er, að hér sé um athugunarleysi að ræða, enda get ég ekki séð, að landlæknir hafi á nokkurn hátt með skipulagningu Reykhóla að gera, en það er einmitt í sambandi við hana, sem þetta mál er komið fram. Ég get heldur ekki séð, að þetta mál geti gefið nokkur loforð um, að ríkið taki að sér læknisbústaði yfirleitt. Í báðum þeim tilfellum, sem hér er um að ræða, er um algera sérstöðu að ræða, og ég veit ekki til, að svipuð aðstaða sé fyrir hendi um nokkurn læknisbústað utan þessara tveggja. Af þessum ástæðum tel ég ekki ástæðu til að leita umsagnar landlæknis og þar af leiðandi algerlega óþarft að fresta afgreiðslu málsins.