25.01.1950
Sameinað þing: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3643)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Rang. vildi bera á móti því, að leigan í læknisbústöðum héraðanna væri oft lægri en venjuleg leiga í ríkisbústöðum. Ég hef sjálfur nokkra reynslu í þessu, því að ég hef setið í nefnd, sem hefur haft með slíka leigu að gera, og þar var beinlínis lækkuð leiga, til þess að halda viðkomandi lækni áfram í héraðinu, og svona hygg ég að það muni víðar vera. Ég geri ráð fyrir, að samþykkt þessarar till. muni hafa í för með sér að fleiri héruð kæmu á eftir með sams konar óskir, og ég er í miklum vafa um, að slíkt fyrirkomulag sé æskilegt. Mér finnst því sjálfsagt, að þetta mál verði athugað nánar og leitað umsagnar landlæknis; enn fremur væri gott að heyra skoðun fjmrh. á málinu. Það þarf enginn að segja mér, að þessi tilboð frá héruðunum séu gerð til þess að auðga ríkissjóð og skaða héruðin sjálf. Það liggur áreiðanlega á bak við, að þau telja sér hag í því, að ríkissjóður taki tilboðunum, og þess vegna tel ég rétt, að leitað sé líka umsagnar fjmrh.