13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3664)

134. mál, friðun rjúpu

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 484, frá mér og hv. þm. Mýr., er flutt af mikilli nauðsyn, til þess að koma í veg fyrir, að þessum nytjafugli verði útrýmt. Eins og allir vita, er fuglalífið einn merkasti þátturinn í náttúrulífi landsins. Meiri hluti þeirra fugla, sem hér eru, eru farfuglar, sem fljúga burt til heitari landa á haustin, en koma hingað á vorin. Þó eru nokkrar tegundir fugla, sem eru svo harðgerðar, að þær haldast við hér allt árið, og meðal þeirra er rjúpan einn merkasti fuglinn. Af henni voru miklar nytjar, þar til hún gekk um of til þurrðar, vegna of mikillar drápgirni manna. Það er álit þeirra, sem kunnugir eru, að fuglalíf okkar sé fábreytt og að fugli fækki vegna mikillar eyðileggingar. Þetta er raunalegt, og ber að athuga, að það verði ekki látið við gangast um þá fugla, er nauðsyn er að lífi og mikil fegurð er að. — Þessi till. fer fram á, að rjúpan verði alfriðuð næstu 5 ár frá fyrsta sumardegi, eða 20. þ. m. Ég vona, að hv. alþm. fallist á að taka þessa ákvörðun, svo að þeim fáu rjúpum, sem eftir eru, að kunnugra sögn, verði þyrmt. Hér er ekki heldur um arðbæran atvinnuveg að ræða og svo komið á síðustu mörk, að alfriða verður þennan merkilega fugl. — Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málið athugað í allshn.