13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

134. mál, friðun rjúpu

Pétur Ottesen:

Það má sjálfsagt taka undir með flm. þessarar till. um það, að vert er að gera ráðstafanir til þess, að ekki verði gengið of nærri fuglastofninum í landinu með skotum. En það er því miður meira en skothríð ein, sem stefnt er gegn fuglalífinu í landinu. Eins og kunnugt er, er svo víða í sveitum og einnig við sjávarsíðuna, að fækkun fuglastofnsins stafar af völdum minka. Það er fullkomlega athugunarvert, því þó að mannskepnan gangi hér of nærri, þá er sízt betra að ala til þess minkana. Það er því sjálfsagt í sambandi við friðunarráðstafanir till., sem ég er hv. flm. sammála um, að vera á verði gagnvart minkinum, svo að þetta kvikindi gangi ekki af fuglalífinu dauðu. Það er alveg eins á valdi Alþ. að gera það eins og að banna, að rjúpa sé skotin visst árabil. — Ég vildi taka þetta fram, vegna þess að ekki hefur komið fram jafnmikill áhugi fyrir því, að gerðar væru aðrar ráðstafanir, að minnsta kosti ekki hjá öðrum flm. þessarar till. (BÁ: Það mætti bæta því inn í till.) Það er annað atriði, en það var hv. þm., sem kenndi sín, er hann sagði þessi orð.