22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3673)

130. mál, kristfjárjarðir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er sérstaklega niðurlagið á grg., sem kom mér til þess að segja nokkur orð.

Það er ætlazt til, að ríkisstj. láti rannsaka eignar- og umráðarétt kristfjárjarða. Síðasta málsgrein talar um almenninga í landinu. Ég held, að það væri ákaflega æskilegt, og vil beina því til allshn., sem þessa till. á að fá til athugunar, hvort ekki væri réttara að gera hér víðtækari rannsókn og athugun. Það er svo, að mikill hluti af okkar lands óbyggðum er án nokkurs eignarréttar, en við búumst allir við og vonum, að landið eigi eftir að byggjast á næstu áratugum, þannig að mikið land, sem nú er einskis manns eign, kemur til með að komast í mikið verð. Nú er það svo, að það eru ekki aðeins almenningar, heldur hin óbyggðu landssvæði, sem eru afréttir, sem hér er um að ræða. Þetta er gífurlegt landflæmi og miklu stærra en sá hluti, sem einstaklingar eða hreppar eða aðrir kynnu að eiga. Ég held, að það væri ákaflega heppilegt vegna framtíðar landbúnaðarins og skyldra atvinnugreina, að hægt væri að ná samkomulagi um það nú að skapa þannig aðstöðu hvað eignarrétt snertir á þessum óbyggðum, að hann yrði ekki til að íþyngja þeim, sem eiga að vinna þessi lönd í framtíðinni. Ég býst við, að flestir, sem þekkja til þróunar okkar þjóðfélags síðustu áratugina, viti, að eignarrétturinn hefur beinlínis verið byrði fyrir þá, sem hafa ræktað okkar land. Við þurfum að koma í veg fyrir, að hver ný kynslóð þurfi að kaupa jarðirnar með gífurlegu verði og standa undir þeim. Það er komið, sem komið er viðvíkjandi þeirri verðhækkun á jörðum, sem eru ræktaðar og notaðar, og lóðum, sem eru komnar í afarverð. Það eru gífurlega stór landssvæði, sem ekki hafa enn þá dregizt inn í þessa óheillaþróun, og ég álít mikilsvert fyrir okkur, að við gætum fundið aðferð til að koma í veg fyrir slíkt. Og þá vil ég sérstaklega beina til n., sem á að athuga þetta mál, að fara fram á við stj. frekari rannsókn á þessu, hvort ekki væri hugsanlegt að lýsa allt, sem óbyggt er af okkar landi og nú er einskis manns eign, sem þjóðareign, sem ekki megi selja, svo að öll hin mikla víðátta af okkar landi, sem er óbyggð nú, komist ekki inn í þessa þróun, sem hér hefur orðið, að hleypa jörðunum í gífurlegt verð. Ég held, að það væri ákaflega heppilegt fyrir framtíð landbúnaðarins, skógræktar og annarra atvinnugreina, sem við mundum byggja á þeirri jörð, sem nú er enn þá ónumin, og fyrst farið er að rannsaka eignar- og umráðarétt á þeim jörðum, sem fyrr á tímum hafa verið gefnar fyrir sálu sinni til almennings heilla, og eins um almenninga og afrétti, sem hafa verið sameign sveita frá fornum tíma, þá held ég, að það sé rétt líka að athuga þessi óbyggðu landssvæði. Ég býst við lagalega séð, ef einhver maður settist að í óbyggðum, þar sem þætti byggilegt, þá skoðaðist hann eigandi að því landi eftir 20 ár.

Ég vildi aðeins skjóta þessu inn, vegna þess að ég álít það þýðingarmikið að rannsaka þetta, en það mundi þýða, að ríkisstj., sem fengi þetta til athugunar, tæki það þá með í sína rannsókn, en til þess þyrfti umorðun tillgr. sjálfrar. Ég mun þó ekki koma með brtt. á þessu stigi málsins, heldur leggja til við n., að hún athugi þetta sem bezt, áður en hún lætur málið frá sér fara, að gera þessa rannsókn víðtækari og stefna í þá átt, sem ég hef minnzt á.