22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

130. mál, kristfjárjarðir o.fl.

Pétur Ottesen:

Aðalefni þessarar tillgr. er að láta fara fram athugun á eignar- og umráðarétti kristfjárjarða og enn fremur öðrum eignum, sem líkt stendur á um. Ég veit ekki, hvað það er, sem gefur hv. flm. þessarar þáltill. nokkurt tilefni til að ætla, að nokkur vafi leiki á um eignar- og umráðarétt yfir kristfjárjörðum. Ég hygg, að þær eignir, sem hér hafa verið nefndar, hafi verið gefnar með gjafabréfum, sem til eru, og eru alveg fullkomin og skýr gögn fyrir eignarrétti þessara jarða. Að því leyti sem ég þekki til kristfjárjarða, þá er þetta þannig. Það er þess vegna ekki nokkur vafi, sem leikur á um eignarrétt og umráðarétt þessara jarða, því að það mun svo vera um flestar þeirra, að það er búið að ráðstafa þeim um áratugi og kannske um aldir, án þess að nokkur hafi vefengt eignar- og umráðaréttinn. Ég held, að hann sé jafnvel tryggður í þessu þjóðfélagi eins og hægt er að tryggja umráða- og eignarrétt. Ég held, að að þessu leyti sé óþarft að vera að gera ráðstafanir til slíkra athugana að því er snertir kristfjárjarðir. Hitt er svo annað mál, að þær breyt., sem orðið hafa í þjóðfélaginu, einkum á síðari árum, eru þess eðlis, að það er ekki hægt að samræma það því fyrirkomulagi, sem er um þessar jarðir. Þessar jarðir eru allar í leiguliðaábúð, og gjafabréfin eru þess eðlis, og fyrirmælin í þeim eru þannig, að það á að verja afgjaldi jarðanna að því leyti, sem þau ganga ekki í umboðslaun til þess manns, sem ákveðið er, að hafi umráð yfir jörðunum, þá á að verja því í ákveðnu augnamiði. Það er með öðrum orðum samkvæmt gjafabréfinu ekkert fé fyrir hendi til þess að mæta ábúandanum um greiðslu fyrir þær umbætur, sem hann hefur gert á þessari jörð. Að því leyti eru gjafabréfin ekki í samræmi við þær kringumstæður, sem við nú búum við. Ég þekki t. d. eina kristfjárjörð, sem þannig er ástatt um, að þar er búið að gera stórfelldar umbætur, mjög mikla ræktun, gera húsabætur, bæði á íbúðarhúsi og peningshúsum, það er búið að leggja þangað síma og leggja þangað rafmagn. Allt þetta hefur ábúandi jarðarinnar gert fyrir sitt fé, af því að það er ekki fé til í sambandi við eftirgjaldið, sem mun víðast mjög í hóf stillt, til þess að miðla til þessara hluta. Þar sem svona stendur á, þegar ábúendaskipti verða, þá er ekkert fyrir hendi annað en að sá, sem hefur lagt fram mikla fjármuni, geti fengið jörðina keypta, sem er langeðlilegast og alls eina úrlausnin, eins og nú er komið um þessa hluti, þar sem miklar framkvæmdir hafa átt sér stað. Hitt þarf ekki að skýra fyrir hv. þm., hvað óeðlilegt það væri, að gjafabréf, sem miðuð eru við það ástand, sem var fyrir 100–200 árum, ættu að verða þess valdandi, að enginn, sem á slíkum jörðum byggði, hreyfði legg eða lið til þess að gera umbætur á jörðinni. Með slíkum hætti mundi gjafabréfið verka andstætt eðlilegri þróun í þjóðfélaginu. Ég sé því ekki annað fyrir hendi um margar hverjar þessara jarða en ábúendur fái þær keyptar. Með þessu móti þarf engan veginn að skerða þann tilgang, sem felst í gjafabréfunum, því að af andvirði jarðanna yrðu stofnaðir sjóðir, sem yrði varið til að inna af hendi það hlutverk, sem ákveðið er með gjafabréfunum.

Nú rís sú spurning, hver hafi rétt til að selja þessar jarðir. Ég vil ekki viðurkenna, að ríkisvaldið hafi nokkurn rétt til að grípa þar inn í. Sá maður, sem ákveðið er, að hafi umráð með jörðunum, t. d. prófastur, álít ég að hafi rétt til að ráðstafa jörðunum með slíkum hætti sem er í samræmi við þá félagslegu þróun, sem orðin er í okkar landi, en það sé ekki ástæða fyrir hið opinbera að grípa þar fram í.

Ég vil taka þetta fram í sambandi við þessa till., að því leyti, sem hún stefnir að því, að enginn umráðamaður þessara jarða mætti hreyfa legg eða lið í þessu efni öðruvísi en ríkisvaldið gripi þar inn í. Ég vil láta þessa skoðun koma hér fram í sambandi við það, að þessi till. er komin fram, að ég held, að umboðsmenn þessara jarða — að það sé hægt að trúa þeim til, að þeir selji þessar jarðir þannig, að það hlutverk, sem þær eiga að standa undir, verði sem bezt tryggt, þó þannig, að ekki sé gengið um of á rétt þeirra manna, sem lagt hafa mikið fé fram til þess að byggja upp þessar jarðir og gera þær að góðum býlum í þjóðfélaginu. Umráðamaður verður að hafa bæði þessi sjónarmið fyrir augum, þegar slík kaup verða gerð.

Ég vildi aðeins láta þessa skoðun koma fram í sambandi við það, að málið fer til n., sem ég tel rétt, að sé allshn., eins og hv. flm. hefur nú gert till. um.

Út af því, sem fram hefur komið hjá hv. 2. þ. Reykv. um það, að það mundu vera stór landssvæði byggileg, sem væru ekki eign neins, þá kann að vera, að það sé til, en ég held, yfirleitt, að þessi stóru landssvæði, afréttarlöndin hér, séu í eigu ákveðinna aðila, mestur hluti þeirra eign einstakra manna og félaga. Þar, sem ég þekki til, eru mörg stór eyðilönd, sem fylgja einstökum jörðum, eða það eru hreppsfélög, stundum mörg, sem eru eigendur að slíkum landssvæðum. Ég hugsa, að þannig muni vera ástatt um meginhlutann af því landi, sem óbyggt er. Það má vera, að það séu einhver lönd, sem enginn hefur eignarrétt á, en út frá þeim kunnleika, sem ég hef um eyðilönd, þá er þessu þannig varið. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram í sambandi við þessi orð hv. 2. þm. Reykv.