03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3683)

153. mál, Evrópuráðið

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, samþ. Alþ. í vetur, að Ísland yrði aðili að Evrópuráðinu. Samkvæmt stofnskrá ráðsins kveður stj. hvers lands á um það, hvernig fulltrúar eru skipaðir, og er mismunandi háttur hafður á þessu í hinum ýmsu löndum. Ríkisstj. þótti eðlilegast, að Alþ. kysi þessa fulltrúa, og þar sem hæpið þótti, að það væri gert án sérstakrar samþykktar frá Alþ., er þessi þáltill. fram borin. Till. skýrir sig sjálf. Ég vek athygli á því, að í till. stóð upphaflega, að fulltrúar skyldu kosnir meirihlutakosningu í Sþ. Þetta var ekki ætlunin, og hefur till. verið breytt til samræmis við það. Mér finnst nægilegt, að ein umr. verði um till. Ákvörðun hefur þegar verið tekin um það, að fulltrúarnir verði sendir, og er þess vegna aðeins um það að ræða, að Alþ. hafi val mannanna með höndum, en ekki ríkisstj., en það þótti eðlilegra, að Alþ. kysi fulltrúana, og felst það í till.